BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Valur - Breiðablik

13.06.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Níundi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar eru taplausir á toppnum > Förum í heimsókn á Origo völlinn > Kópacabana menn keyra upp stemninguna > Miðasala á Stubbur > Sagan: 97 mótsleikir > Gamli leikurinn: Valur - Breiðablik 1995 > Blikahópurinn 2022  > Ásgeir Baldurs er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Valur - Breiðablik

Eftir langt landsleikjahlé er komið að næsta leik okkar manna í Bestu deildinni 2022.

Blikar mæta Valsmönnum á þeirra heimavelli.

Flautað verður til leiks á Origo vellinum á fimmtudag kl. 20:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

image

Kópacabana menn hafa ákveðið að keyra stemninguna í gang á útileikjum líkt og þeir hafa gert svo vel á heimaleikjum það sem af er tímabili. Það mætir herskari liðs frá sveitinni til að hvetja Blika áfram og hvetjum við alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum á Hlíðarenda!

Staðan eftir 8 umferðir - Blikar enn taplausir á toppnum!

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 97 leikir. Sagan fellur með Valsmönnum sem eru með 41 sigur gegn 35 sigrum Blikamanna.  Jafnteflin eru 21.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 70 leikir. Valsmenn hafa unnið 29 leiki gegn 25 og jafnteflin eru 16. Liðin skora samtals 210 mörk: Valur 110 og Blikar 100.

Síðasti mótsleikur liðanna, og jafnframt síðasti mótsleikur beggja liða fyrir landsleikjahlé, var á Kópavogsvelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ.

Blikar unnu stórsigur í leiknum:

Allt jafnt í 3 síðustu heimsóknum okkar manna á Hlíðarenda. Súrt tap í fyrra. Enn súrara jafntefli 2020. En öruggur 0:1 sigur 2019:

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er Valur - Breiðablik á Hlíðarenda 3. ágúst 1995. Bæði lið að ströggla þetta sumar en enda í 7. og 8. sæti. FH og Fram falla niður um deild. 

Blikar vinna leikinn 0:3 með mörkum frá Rastislav Lazorik (2) og Willum Þór Þórssyni (1). 

35´ Arnar Grétarsson með stoðsendingu á Rastislav Lazorik á miðjum eigin vallarhelmingi sem tekur á rás og stingur vörn Valsmanan af og skorar auðveldlega framhjá Tómasi Ingasyni.

45´ Barningur á markteig Vals. Willum Þór nær ekki vel til boltans en eftir að hann, Lazorik og tveir varnarmenn Vals höfðu barist um boltann náði Rastislav Lazorik að pota boltanum yfir línuna.

90´ Eftir glæsilega hornspyrnu frá hægri stökk Willum Þór Þórsson manna hæst og stangaði boltann í netið. Hann tók flott fagn með fallegri magalendingu.

Morgunblaðið skrifar "Blikarnir voru slakir í fyrri hálfleiknum og þá voru það aðeins sendingar Arnars Grétarssonar og hinn útsjónasami Lazorik sem glöddu augað. En leikmenn tóku vel við sér í síðari hálfleik. Góðu kaflarnir urðu bæði fleiri og lengri og sigur Kópavogsliðsins var sanngjarn. Kjartan stóð sig vel í bakvarðarstöðunni og Willum barðist gríðarlega vel og er mikilvægur hlekkur í liðinu".

02.08 18:00
1995
Valur
Breiðablik
0:3
4
1
A-deild | 11. umferð
Hlíðarendi | #

Byrjunarlið Breiðabliks: Hajrudin Cardaklija (M) - Kjartan Antonsson - Arnaldur Loftsson - Úlfar Óttarsson - Willum Þór Þórsson - Gústaf Ómarsson - Hákon Sverrisson - Arnar Grétarsson - Rastislav Lazorik - Guðmundur Þ. Guðmundsson - Jón Þorgrímur Stefánsson.

Varamenn: Gísli Þór Einarsson - Anthony Karl Gregory - Vilhjálmur Kári Haraldsson - Kristófer Sigurgeirsson - Þórhallur Örn Hinriksson.

Klippur og mörkin úr leiknum á Hlíðarenda 1995. Gaupi með viðtöl fyrir leik við Guðmund Hreiðarsson aðstoðarþjálfara Blika og Þorgrím Þráinsson aðstoðarþjálfara Vals:

Blikahópurinn 2022

Ágúst Eðvald Hlynsson leikur nú með Val sem lánsmaður frá  AC Horsens. Hann á að baki 9 meistaraflokksleiki með Blikum árið 2016. 

Einn okkar manna hefur leikið með Val. Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

Leikmannahópur Breiðabliks:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 9. umferðar er fæddur og uppalinn upp á Kársnesinu og eyddi öllum frítíma sínum í fótbolta á Vallargerðinu eða Rútstúni. Hann var hluti af geysi öflugu liði í yngri flokkum Breiðabliks sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari í 3. flokki. Í þessu liði voru meðal annars Addi Grétars, Kristó Sigurgeirs, Hákon Sverris og Villi Haralds. Menn sem hafa sett mark sitt á Breiðablik bæði sem leikmenn og þjálfarar.  SpáBlikinn lék sinn fyrsta meistaraflokksleik á Íslandsmóti 15 ára gamall. Tvítugur tók hann þá undarlegu ákvörðun að leggja fótboltaskóna á hilluna og einbeita sér að handbolta, en þá var Breiðablik með handboltalið í efstu deild og hafði verið árin á undan í Evrópukeppni í þeirri grein. Fótboltaskórnir voru svo teknir fram aftur eftir rúmlega eitt ár á hillunni og eftir viðkomu í Kormáki og 5 ár með Völsungi á Húsavík kom SpáBlikinn til baka og spilaði árin 1999-2002 með Breiðablik.

SpáBlikinn hefur verið í aðalstjórn Breiðabliks um árabil og var nú á síðasta aðalfundi félagsins kjörinn formaður félagsins. Hann er er giftur tveggja barna faðir og býr Salahverfinu í Kópavogi og starfar sem framkvæmdastjóri hjá TM.

Ásgeir Baldurs - Hvernig fer leikurinn?

Þetta verður afar erfiður leikur.  Valsmenn eru særðir eftir leikinn við okkur í Mjólkurbikaranum og oft er það þannig að það lið sem vinnur bikarleik, tapar næsta leik sömu liða þar á eftir. Valsmenn eru með mikil gæði á pappírunum, en leikurinn vinnst ekki þar. Ég trúi því að við höldum áfram á sömu braut og fyrir landsleikjahlé, þar sem við tókumst á við mörg mismunandi próf og stóðumst þau öll.  Það er vissulega blóðtaka að Ísak Snær og Omar Sowe séu í leikbanni. Sem betur fer erum við með góðan og breiðan hóp og maður kemur í manns stað. Við erum að fá Gísla Eyjólfs og Viktor Karl til baka úr meiðslum sem mun styrkja liðið gríðarlega. Ég spái hörkuleik sem endar með sigri Breiðabliks 0:1. Sigurmarkið kemur úr nokkuð óvæntri átt en ég spái því að Andri Rafn Yeoman muni setja markið eftir mikinn sprett upp völlinn. 

Ég hvet alla Blika til að mæta á leikinn og styðja okkar menn.

image

SpáBlikinn Ásgeir Baldurs á sigurstundu fyrir ekki svo löngu síðan.

Dagskrá

Miðasala á leikinn fer fram á Stubbur appinu. 

Flautað til leiks fimmtudagskvöld kl.20:15!

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn hafa ákveðið að keyra stemninguna í gang á útileikjum líkt og þeir hafa gert svo vel á heimaleikjum það sem af er tímabili. Það mætir herskari liðs frá sveitinni til að hvetja Blika áfram og hvetjum við alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum á Hlíðarenda!

Mætum í stúkuna á Origo vellinum og hvetum liðið okkar til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

image

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka