BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hópslysaæfing UEFA í Kópavogi

21.07.2022 image

21.07 19:15
2022
Breiðablik
Buducnost
2:0
24
Evrópukeppni | Sambandsdeild UEFA - Undankeppni önnur umferð
Kópavogsvöllur | #

INTERNET (24)

Í kvöld var efnt til hópslysaæfingar í hjarta Kópavogs, á heimavelli Breiðabliks í Kópavogsdal. Almannavarnir Svartfjallalands lögðu í senn til fórnarlömbin á æfingunni, árásarmennina og heilbrigðisstarfsfólk. Svo óvenjulega vildi til að meðan á æfingunni stóð reyndi meistaraflokkur karla hjá Breiðabliki að spila fótbolta á sama velli og æfingin fór fram. Þrír úr liði fórnarlambanna á hópslysaæfingunni féllu á eigin bragði en fótboltaliðinu tókst að skora tvö mörk undir lok æfingarinnar.

Hvernig á maður annars að segja frá óvenjulegasta fótboltaleik sem maður hefur séð, leik Breiðabliks og Budućnost Podgorica í kvöld? Ég man ekki eftir að séð viðlíka reiði og heift af hálfu nokkurs fótboltaliðs og þess svartfellska í kvöld. Þá eru ekki undanskilin öll þau hundruð liða sem ég hef séð á ungmennamótum barnanna minna síðustu áratugina. Skitan var svakalega skrautleg og maður gat alveg vorkennt úkraínska dómaranum fyrir fleira en að vera landflótta í Þýskalandi vegna ofbeldis Rússa í heimalandinu hans.

Reyni samt að segja frá leiknum

Andstæðingarnir í Evrópuleik kvöldsins eru semsagt frá Montenegro á Balkanskaga. Svartfellingarnir tóku við af fjallapiltunum úr Píreneafjöllum, sem okkar piltar slógu út í fyrstu umferð Sambandsdeildar Evrópu þetta árið. Upplýsingar um núverandi stöðu Budućnost Podgorica liggja ekki beinlínis á glámbekk en þeir skildu eftir granna sína frá Kósóvó til að tryggja sér farmiðann í Kópavog. Sæmilegur ferill í Evrópukeppnum, eins og rakið er hér, og jú frískir ungir menn með einstaklingsgæði hér og þar. Enginn sem skoðað hafði liðið nefndi þó þessa ægilegu skapsmuni í viðtölum fyrir leik.

Þetta  var græna liðsheildin sem Óskar stillti upp í byrjun leiksins í kvöld. Okkar traustustu menn um þessar mundir, vilja margir meina, þó aðrir kynnu að sakna Kidda Steindórs.

image

Liðin spiluðu ekkert ósvipaðan fótbolta framan af. Við spiluðum okkur í færi mjög snemma leiks og þeir gerðu það með svipuðum hætti á móti. Það gekk ekki allt upp hjá okkur en vorum minna ónákvæmir en andstæðingarnir. Héldum þess vegna boltanum svolítið betur og þeir brenndu af úr aðeins betra dauðafæri en okkar menn. Það tók okkar menn alveg hálfan hálfleikinn að fatta hvað þyrfti til en þá vantaði svolítið upp á framkvæmdina. Dagur Dan fannst mér besti maður hálfleiksins en enginn á vellinum var eins frekur á boltann og hann og hann skilaði honum betur frá sér en margur annar. Markaleysið í hálfleik var hinsvegar alveg verðskuldað af beggja hálfu.

Þetta verður þolinmæðisverk

„Þetta verður þolinmæðisverk,“ sagði skarpur maður í hálfleiksspjallinu og Ésús, guð og allir englarnir – hvílíka þolinmæði sem þurfti í þennan ævintýralega seinni hálfleik. Meira að segja jafnaðarmaðurinn og jafnaðargeðsmaðurinn ég var farinn að púa og herma eftir sjúkrabíl löngum köflum úr stúkunni þegar tafirnar, leikaraskapurinn, uppsteytinn, látalætin og annað sem hópslysaæfingum fylgir ágerðust sífellt meir eftir því sem á þann hálfleik leið.

Okkar menn fóru vel af stað. Fundu betri stöður til að gefa fyrir úr en eins og fyrri hálfleiknum vantaði annað hvort ákafa inn í teiginn eða gæði í að tía upp fyrir skot eða skalla úr teignum eða rétt utan hans – eða hvort tveggja. Á sama tíma var ógnin að okkar marki engin.

Hefst þá mannfall Svartfellinga fyrir alvöru. Eftir atlögur að leikaraskap eða ógnandi hegðun allan leikinn fjúka tveir Podgoritsapiltar útaf í fyrri hluta síðari hálfleiksins. Merkilegt nokk hafði þetta ekkert mikil áhrif á árangur okkar manna, kannski einmitt vegna þess að vandamálið hafði ekki verið að komast upp völlinn heldur vinnubrögðin þegar þangað var komið.

Anton Ari maður leiksins

Ég ætla að velja Anton Ara mann leiksins, ekki vegna annríkis heldur vegna augnabliksins á 71. mínútu þegar hann varði frá Mijovic sem var kominn einn inn fyrir í átta útispilara liði á móti tíu. Það hefði verið helvítis hörmungur að fá á sig mark í þeirri stöðu, jafnvel þótt útimarkamörk telji ekki lengur meira heimamörkin.

Sjúkett og takk!!!

Manni fannst Óskar soldið seinn að skipta ferskum fótum inn í þessa sérkennilegu leikfimi skapsmuna, geðslags og fótbolta sem fram fór á vellinum um þessar mundir en skömmu eftir bjargræði Antons Ara kom Kiddi inn fyrir besta mann fyrri hálfleiksins og skömmu síðar Omar fyrir Jason Daða, sem tókst betur að opna fyrir í upphafi síðari hálfleiks en í þeim fyrri.

Hraðari taktur

Við þetta hertist aðeins takturinn í pressunni og viti menn! Þegar tvær mínútur voru eftir af reglubundnum leiktíma tókst Högga loksins að tía rétt upp út í teiginn og téður Kiddi smeygði tuðrunni í nærhornið. Kiddi hafði fengið svipað færi skömmu áður sem fór í varnarmann og í horn.

Vúhúúúú gargaði ég við hliðina á minnismerkinu af Valda gamla en taugaspenningur hafði valdið því að ég gat ekki lengur setið í stúkunni með þeim hreyfingarhindrunum sem slík nærvera skapar.

Ákafi okkar manna í að leikurinn hæfist að nýju var sá sami og var búinn að vera allan hálfleikinn í að innköst gestanna væru tekin innan tíu mínútna frá því þau voru dæmd og það skilaði sér. Í handboltasókn Breiðabliksliðsins númer 2.108 fyrir utan vítateig Svartfellinga skaut Oliver sér inn fyrir manninn sinn, inn fyrir vítateiginn, varnarmaðurinn klaufast, brýtur á næstbesta manni síðari hálfleiks (mundu að mér finnst Anton Ari vera maður leiksins) og við fáum víti.

Þar sem ég stóð ennþá við hliðina á Valda, strunsandi fram og til baka, að fylgjast með frágangi grillsvæðis bestu boltaborgara landsins fyrir aftan mig, troðandi í pípuna, sé ég úr návígi hvar fyrirliðinn notar tafatíma fórnarlambanna á hópslysaæfingunni til að krjúpa og hnýta þvenginn á skotskónum – vel og vandlega. Skarphéðinn Njálsson gerði einmitt það sama áður en hann stökk yfir Markarfljót forðum tíð.  The rest is history; Þráinn Sigfússon dauður og 2-0 fyrir Breiðablik.

image

(Ójá, ég gleymdi víst að nefna að sóknarákafi okkar manna þarna í uppbótartímanum, rétt fyrir vítið, espaði þjálfara gestanna til að æða inn á völlinn og hindra að við tækjum innkast með eðlilegum hætti. Hann var á gulu blessaður fyrir að býsnast óhóflega yfir slökum undirtektum dómarans við leikhæfileikum sinna manna.)

Hollur baggi

Það eru ekki bara mörkin tvö sem eru gott nesti í leikinn eftir viku. Yfirvegun okkar manna – inni á vellinum og í skýlinu (þú tekur eftir að ég undanskil sjálfan mig og fleira stúkufólk) – gagnvart þessu dæmalausa rugli sem við mættum er ekki síður hollur baggi að taka með að heiman.

„Þetta verður þolinmæðisverk,“ sagði spekingurinn í hálfleik í kvöld. Nú er bara hálfleikur í viðureigninni og allir góðir straumar fylgja strákunum út.

Ef það tekst að klára piltana frá Podgorica eftir slétta viku taka áfram við leikir við austanvert Miðjarðarhafið, annað hvort við Istanbul Besaksehir frá Tyrklandi eða Maccabi Netanya frá Ísrael. Fyrri leikur þeirra liða fór fram í Başakşehir-hverfinu Evrópumegin í Istanbúl síðdegis í dag og lauk með 1-1 jafntefli. Ég heyrði á tal fólks í kvöld sem vildi frekar fá Tyrkina, takist að halda forystunni gegn Svartfellingum, einfaldlega vegna mismikils kostnaðar við þátttökuna.

Mörkin, rauðu spjöldin og læti eftir leik í Kópavogi má sjá hér að neðan.

Áður er að leiknum í Svartfjallalandi kemur er þó útileikur á móti einu vandamálastórvelda þessa sumars; FH í Kaplakrika á sunnudagskvöldið kemur klukkan 19:15.

Eiríkur Hjálmarsson

Myndaveisla í boði BlikarTV

image

Til baka