BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hrikaleg mikilvægt stig!

01.09.2025 image

Víkingur og Breiðablik gerðu 2:2 jafntefli í háspennuslag í Víkinni í gær. Leikurinn bauð upp á allt það sem hágæðaskemmtun getur boðið upp á. Flotta knattspyrnu, falleg mörk, frábært veður, umdeild atvik og toppmætingu. Blikaliðið sýndi mikinn karakter að jafna leikinn þrátt fyrir að vera manni undir í rúman hálftíma. Hrikaleg mikilvægt stig og sálræn innspýting fyrir Blikaliðið. Nú fer landið að rísa!

Veðurguðirnir sýndu sínar bestu hliðar í Fossvogsdalnum í gær. Léttur andvari, 15 stiga hiti og sól. Áhorfendur létu sig ekki heldur vanta og samkvæmt talningu heimamanna mættu rúmlega 2.200 manns á leikinn. Þá komu palletturnar góðu sér vel og ef pistahöfundi brást ekki sýn þá sást bregða í græna málningu á sumum þeirra 😊 Góðar minningar frá 0:3 sigri okkar pilta síðasta haust!

Leikurinn byrjaði með látum þegar Tobias skallaði knöttinn í net Víkinga eftir að Damir hafði framlengt aukaspyrnu Höskuldar á áttundu mínútu leiksins. Mikilvægt mark fyrir Danann geðþekka sem hefur liðið fyrir markaþurrð í undanförnum leikjum í Bestu deildinni.

En Adam var ekki lengi í Paradís því heimapiltar jöfnuðu leikinn rúmum tíu mínútum síðar. Einhvern fannst manni að varnarmenn Blika hefðu getað komið í veg fyrir þetta mark en skítur skeður.  Það sem eftir lifði hálfleiksins var baráttan í fyrirrúmi og eins og venjulega spila þeir röndóttu mjög fast. Dómarinn sýndi þeim þrjú gul spjöld í leiknum og hefðu þau mátt vera fleiri. En fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.

Sama baráttan var upp á tengingnum í síðari hálfleik. Víkingar meira með knöttinn en við vörðumst vel með besta mann vallarins Anton Ara á milli stanganna. Þvílík frammistaða hjá markverði okkar! Hann varði meðal annars tvívegis meistaralega frá besta skotmanni deildarinnar, Gylfa Þór Sigurðssyni, og í annað skiptið greip hann spyrnuna!

En á 52. mínútu varð umdeild atvik. Viktor Karl fékk sendingu frá Antoni Ara skammt frá vítateig okkar og var dálítið seinn  að leika knettinum frá sér. Ófyrirleitinn Víkingur sá sér leik á borði og henti sér á okkar mann. Með bolabrögðum rændi hann knettinu og ýti Viktori Karli frá sér. Eins og við mátti búast skrikaði honum fótum og tók andstæðinginn með sér í fallinu. Það má alveg dæma á okkar pilt en öllum til furðu, ekki síst Víkingum, sýndi hann Viktori Karli rauða spjaldið. Pistlahöfundur hefur verið knattspyrnudómari lengur en þau ár sem þessi dómari hefur lifað og er algjörlega ósammála þessum dómi. Gult spjald hefði verið ásættanlegt en þetta var aldrei brottrekstrarsök. En dómarinn ræður og fljótlega eftir þetta náðu Víkingar forystu með ljótu marki.

Héldu nú flestir að björinn væri unninn fyrir Fossvogsliðið en okkar piltar og þjálfarateymið voru á öðru máli. Okkar drengir bitu í skjaldarendur og fengu góðan liðsstyrk í Ásgeiri Helga og Ágústi Þorsteins sem komu inn sem varamenn. Það skilaði sér þegar Arnór Gauti kassaði knöttinn inn eftir sendingu frá, jú engum öðrum en Damir! Það er ekki á hverjum degi sem miðvörður á tvær stoðsendingar í leik.

Damir kórónaði þannig frábæran leik sinn í dag og þvílík viðbót sem þessi drengur er í Blikaliðið. Svo má ekki gleyma því að þetta var 400 leikur  Damirs í græna búningnum! Sjá hér.

Einnig er mikilvægt að geta þess að þetta var fyrsta mark Arnórs Gauta í efstu deild! Og menn sáu tári bregða fyrir á hvarmi harðjaxlsins Rikka Jóns, afa Arnórs Gauta, en Rikki spilaði 109 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks á árunum 1968-1975 og skoraði 9 mörk.

Þrátt fyrir nokkur álitleg tækifæri á báða bóga sáu ekki fleiri mörk dagsins ljós. Niðurstaðan 2:2 jafntefli sem hljóta að teljast góð úrslit fyrir okkur. Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir gríðarlega baráttu í leiknum. Það er ekki sjálfgefið að koma úr erfiðu Evrópudæmi seint á föstudag og spila svo erfiðan útileik á sunnudegi. Þetta gefur Blikaliðinu vonandi byr undir báða vængi eftir frekar mikla þurrkatíð í deildinni að undanförnu.

Hrósa verður öllu liðinu fyrir vinnusemina í leiknum. Einnig fær þjálfarateymið kúdos fyrir skynsamlega breytingu á taktík í síðari hálfleik og senda inn ferskar fætur í baráttuna. Þegar hefur verið minnst á frábæra frammistöðu Antons Ara í leiknum. Nokkrar markvörslur hans í voru ekki af þessum heimi! Svo verður að hrósa Valgeiri fyrir óþreytandi elju allan leikinn. Hann seldi sig einu sinni í síðari háflleik en sem betur fer kom það ekki að sök. En í heild var hann eins og þeytispjald um allan völl. Það væri gaman að sjá hlaupatölurnar hans í leiknum.

Stuðningsmannahópur Blika Kópacabana skilaði líka góðu dagsverki. Hilmar Jökull og félagar sungu og trölluðu allan leikinn og gáfust aldrei upp. Fengu líka hinn almenna Blika í stúkunni til að taka undir og það skilaði sér út á völlinn til strákanna. Nú fær Blikaliðið langþráða hvíld í landsleikjahléi og svo hefst baráttan á nýjan leik gegn Skagamönnum á Skipaskaga fimmtudaginn 11. September kl. 17.00.Þar ætla allir sannir Blikar að mæta til að hvetja þá grænklæddu til sigurs!

AP

Til baka