Í takt við tímann!
06.06.2023
Blikar unnu harðsóttan 3:1 sigur á FH í Mjólkurbikarnum í gærkvöldi. Leikurinn var mjög kaflaskiptur. Við náðum litlum takti í fyrri hálfleik en komum sterkir til leiks í síðari hálfleikinn og unnum að lokum verðaskuldaðan sigur. Þar með er Blikaliðið komið í 4-liða úrslit og verða andstæðingar okkar þar annað hvort KA/Grindavík, KR/Stjarnan eða Víkingur.
Byrjunarlið Blika var þannig skipað:
Byrjunarliðið gegn FH í Mjólkurbikarnum er kárt! pic.twitter.com/6ABsbZPjvh
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) June 5, 2023
Í fyrstu kennslubók í dansi ,, Dönsum saman“ sem kom út íslensku á vegum Dansskóla frú Rigmor Hansen árið 1931 segir að mikilvægt sé að báðir dansaðilar séu samstíga í dansinum þ.e. takturinn verði að vera í lagi. Því miður fylgdu leikmenn Blikaliðsins ekki ráðleggingum frú Hansen í fyrri hálfleik og var spilamennskan í litlum takti hjá flestum leikmönnum liðsins. Niðurstaðan varð auðvitað sú að FH-ingar skoruðu eitt mark í hálfleiknum en heimapiltar ekkert.
Þjálfararnir sáu sitt óvænna og settu taktmeistarana Gísla Eyjólfsson og Klæmint Olsen inn á eftir leikhléið. Og viti menn, þá fóru hlutirnir að gerast. Hliðar saman hliðar og snúningar út um allan völl. Leikmenn Blikaliðsins fundu taktinn að nýju og gamli unglingadansmeistarinn Oliver Sigurjónsson rifjaði upp silfurdansinn sinn á Íslandsmeistaramótinu í 10 dönsum árið 2008 þegar hann heillaði dómarana með trylltum cha, cha, cha rytma ásamt Rebekku Helgu Sigurðardóttur dansfélaga sínum. En nú voru þetta Gísli og Klæmint sem voru stjörnur kvöldsins. Þeir dönsuðu um allan völl í vínarkrus og vals og ræl og réðu Hafnfirðingar ekkert við þá félagana. Klæmint smellti inn léttu jöfnunarmarki eftir að Ágúst Hlynsson hafði dansað upp hægri kantinn og sent knöttinn með þéttri bogspyrnu inn í vítaeig andstæðínganna. Í takti við Blika á þessu tímabili komu síðan sigurmörkin ekki fyrr en í uppbótartíma.
69. Ó er Klæmint að skora ó… 1-1 pic.twitter.com/0SOXeirGLR
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) June 5, 2023
Á 91. mínútu tók Davíð Ingvars rólegan vals við vítateig FH-inga og renndi knettinum þéttingsfast í gegnum klof hægri bakvarðar fimleikafélagsins án þess að markvörðurinn kæmi í veg fyrir boltinn færi í hornið.
Davíð Ingvarsson kom Breiðablik í 2-1 með hnitmiðuðu skoti. Breiðablik elskar að skora í uppbótartíma þessa dagana. pic.twitter.com/WSmioSmGcJ
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) June 5, 2023
Skömmu áður en dómarinn flautaði síðan til leiksloka tók Gísli Eyjólfsson, stundum nefndur Fred Astair fótboltans, til sinna ráða. Hann dansaði með boltann í gegnum ráðvillta FH-vörnina og sendi svo knöttinn leifturhratt á Klæmint sem átti ekki í erfiðleikum með að koma knettinum í markið. Tær snilld og góður 3:1 sigur staðreynd.
Vá! Vá! Vá! Ótrúleg syrpa hjá Gísla Eyjólfssyni áður en hann finnur Klæmint Olsen sem skorar þriðja mark Blika. Breiðablik er komið í undanúrslit pic.twitter.com/3dCLU8zCfp
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) June 5, 2023
Óvænt stjarna kvöldsins var hins vegar Jóhannes Guðmundsson öryggisvörður, oftast kallaður Jói af vinum sínum, sem sýndi snilldartakta þegar hann tæklaði unga boðflennu sem hafði komist inn á leikvanginn eftir að leiknum lauk. Drengurinn hljóp hratt í átt að dómurum og leikmönnum og sá Jóhannes sitt óvænna og tók ameríska varnardýfu á piltinn. Tæklinginn heppnaðist fullkomlega hjá Jóa og náði hann góðri fellu. Áhorfendur tóku andköf þegar þeir báðir skullu á gervigrasinu en sem betur fer komu þeir báðir óskaddaðir frá byltunni. Jóa var vel fagnað þegar hann druslaði ólátabelgnum valdsmannslega út af leikvanginum.
Ljóst er að öryggisteymið er vel þjálfað enda veitir ekki af þegar von er á Buducnost frá Svartfjallalandi í Evrópukeppninni síðar í mánuðinum!
Næsti leikur hjá Blikaliðinu er aftur gegn FH en nú á erfiðum grasvelli þeirra heimapilta á laugardaginn kl.15.00. FH sýndi í fyrri hálfleik að þeir eru engin lömb að leika sér við og við þurfum að ná takti við leikinn strax frá upphafi!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP
Fyrir leikinn gegn FH fékk Alexander Helgi Sigurðarson viðurkenningu frá Flosa Eiríkssyni fyrir 100 spilaða leiki fyrir knattspyrnudeild Breiðbliks. pic.twitter.com/QIkhugB8jA
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) June 5, 2023