BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mjólkurbikarinn 2023 / 8-liða úrslit: Breiðablik - FH

03.06.2023 image

Við fáum Fimleikafélag Hafnarfjarðar í heimsókn í Kópavoginn í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ - Mjólkurbikarnum 2023. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl. 20:00!

Græna stofan verður opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala hér á Stubbur app

Athugið að þetta er bikarleikur þannig að árskort & Blikaklúbbsskírteini gilda ekki á leikinn. 

Leikurinn verður sýndur í beinni á RÚV fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Í leikhléi geta Blikaklúbbsfélagar fengið kaffi og meðlæti í nýju tjaldi sem er búið er reisa fyrir utan stúkuna norðvestan megin.

Mætum í grænu. Fyrir þá sem ekki eiga neitt grænt þá verður Blikaklúbburinn með sölu á Blikavarningi. Þar er hægt að kaupa húfur, trefla, peysur, flísteppi og annan varning í Blikalitunum! 

Leið liðanna í 8-liða úrslit 2023

Breiðablik

Í 32-liða úrslitum 19. apríl vinna Blikar nokkuð öruggan 0:2 sigur á Fjölnismönnum í Egilshöll. Nánar hér. Í 16- liða úrslitum 18. maí vinna okkar menn mikilvægan 0:3 sigur á 1. deildarliði Þróttar á þeirra heimavelli í laugardalnum. Mikilvægur sigur í Mjólkurbikarnum. Nánar hér.

FH

Í 32-liða úrslitum 20. apríl vinnur FH 1:3 sigur á Ægismönnum á JÁVERK vellinum á Selfossi. Nánar hérÍ 16- liða úrslitum 17. maí vinna FHingar 2:1 sigur á Njarðvíkingum á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Nánar hér

Sagan

Innbyrðis leikir Breiðabliks og FH í öllum mótum eru nú 120. FH er í þriðja sæti yfir andstæðinga sem Blikar hafa mætt oftast frá upphafi ... Keflvíkingar eru efstir með 129 leiki og ÍA í öðru sæti með 124 leiki.

13.06 18:00
1964
Breiðablik
FH
1:1
4
6
B-deild | A-riðill
Vallargerðisvöllur | #

Fyrsti mótsleikur Breiðabliks og FH var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar.

Bikarsagan

Aðeins þrisvar hafa liðin mæst í Bikarkeppni KS sem var fyrst leikin árið 1960. 

Leikurinn á mánudaginn er í fyrsta sinn sem liðin mætast í 8-liða úrslitum. Fyrri innbyrðis leikir hafa verið í 2.umf (1964), undanúrslit (2007) og 32-liða úrslit (2010). 

Leikirnir þrír:

03.06 02:32
2010
Breiðablik
FH
2:4
3
1
Bikarkeppni KSÍ | 32-liða úrslit. 1:1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. FH vinnur vítaspyrnukeppnina 1:3.
Kópavogsvöllur | #

Bikarmeistarar Breiðabliks - verðandi Íslandsmeistarar og Íslandsmeistarar FH - verðandi bikarmeistarar, áttust við í sögulegum leik í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ á Kópavogsvelli 3. júní 2010. Leiknum lauk með 1:1 jafntefli. Guðmundur Pétursson setti mark Blika á 71. mín en Björn Daníel Sverrisson jafnaði leikinn í 1:1 aðeins mínútu síðar. Leikurinn fór í framlengingu en ekki voru skoruð fleiri mörk. Það var hiti í mönnum eins og of er þegar þessi lið mætast. Jörundur Áki, aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar fékk rautt spjald á 116. mín og Tommy Nilsen fauk útaf á 120. eftir annað gula spjaldið - fékk fyrra gula spjaldið á 117. mín. Nokkrir núverandi leikmenn beggja liða voru á leikskýrslu fyrir 13 árum síðan. Arnór Sveinn Aðalsteinsson var í byrjunarliði Blika. Andri Rafn Yeoman kom inná í liði Blika og það gerði einnig, núverandi leikmaður FH. Finnur Orri Margeirsson. Kristinn Steindórsson kom ekki við sögu í leiknum.

En það var okkar maður Gunnleifur Gunnleifsson sem vann vítakeppnina fyrir FH og kom sínu liði áfram í 16-liða úrslit með frábærri markvörslu í vítakeppninni. Hann varði þrjár spyrnur okkar manna. FH-ingar fóru svo alla leið og unnu KR-inga í úrslitaleik mótsins um miðjan ágúst. 

Blikar sátu eftir með sárt ennið en gátu einbeitt sér að deildinni sem þeir og gerðu undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, núverandi yfirmanni knattspyrniumála hjá Breiðablik, tryggði Breiðabliksliðið sér um haustið fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í karlaflokki. 

02.09 16:00
2007
FH
Breiðablik
3:1
3
1
Bikarkeppni KSÍ | Undanúrslit
Laugardalsvöllur | #

Liðin mætast í undanúrslitum árið 2007. Aftur er jafnt eftir venjulegan leiktíma. Staðan 1:1 með mörkum frá Ásgeiri Gunnari Ásgeirssyni og Prince Linval Reuben Mathilda. FH-ingar reyndust sterkari í framlengingunni. Skoruðu 2 mörk. Tryggvi Guðmundsson skorði á 100. mín og Atli Guðnason á 120. mín. Tveir núverandi leikmenn Breiðabliks spiluðu leikinn 2007: Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Kristinn Steindórsson voru báðir í byrjunarliði. FH vann svo úrslitaleikinn gegn Fjölnismönnum 2:1. 

13.08 18:00
1964
FH
Breiðablik
2:3
4
1
Bikarkeppni KSÍ | 2. umferð
Hvaleyrarholtsvöllur | #

Vísir 26. ágúst 1964: "FH - og Breiðablik háðu geysiharða baráttu sem Kóapvogspiltarnir unnu með 3:2. Breiðablik fer því í 3. umferð ásamt 3 liðum öðrum, Fram-b og líklega Akureyringum og Vestmannaeyingum, en dregið er um leikina í 3. umferð. Þau tvö lið sem sigra í 3. umferð fara í aðalkeppnina, 2. umferð ásamt 1. deildarliðunum."

Þjóðviljinn 5. ágúst 1964: "Bikarkeppni KSÍ hófst í gær með leik milli Hauka og Víkings suður í Hafnarfirði. Þetta er í fjórða sinn sem slík bikarkeppni er haldin og hefur KR sigrað í öll skiptin. Þáttaka er nú meiri en nokkru sinni fyrr og senda 13 félög alls 19 lið til keppninnar. 1. deldarliðin senda öll A og B-lið, en hin félögin eitt hvert; þau eru: ÍBA, ÍBÍ, ÍBV, Breiðablik, FH, Haukar og Víkingur. Mótið er hrein útsláttarkeppni og það félag sem tapar er þar með úr leik í keppninni. Fyrri hluti mótsins fer fram nú í ágústmánuði, en A-lið 1. deildarfélaganna koma ekki í keppnina fyrr en í síðari hluta mótsins í september."

Leikmannahópurinn

Í liði gestanna eru þrír leikmenn sem hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni.  Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. 

Í okkar liði er það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum. Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.20:00!

Græna stofan verður opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á hér á Stubbur app

Athugið að þetta er bikarleikur þannig að Árskort & Blikaklúbbsskírteini gilda ekki á leikinn. 

Leikurinn verður sýndur í beinni á RÚV fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Í leikhléi geta Blikaklúbbsfélagar fengið kaffi og meðlæti í nýju tjaldi sem er búið er reisa fyrir utan stúkuna norðvestan megin.

Mætum í grænu. Fyrir þá sem ekki eiga neitt grænt þá verður Blikaklúbburinn með sölu á Blikavarningi. Þar er hægt að kaupa húfur, trefla, peysur, flísteppi og annan varning í Blikalitunum! 

Áfram Blikar! Alltaf, alls staðar!

Leikurinn í 32-liða úrslitum 2010 í fullri lengd: 

Til baka