Lágskýjað í efri byggðum
23.06.2023
Föstudagskvöldið 23. júní var heldur lágskýjað yfir Kórnum og það rigndi bæði yfir HK-inga og Blika þegar leið að leik liðanna í Bestu deildinni. Við vorum sein fyrir, urðum að leita að stæði og enduðum á að leggja í Hamraenda þar sem standa glæsileg hesthús í röðum. Og við hlið bílsins var hestakerra með mynd af Rúnu Einarsdóttur á Orra frá Þúfu, hvorki meira né minna, kynbótajöfri íslenskrar hestamennsku. Þar sem við gengum út götuna rifjuðum við upp að í einu húsi er Hrafn frá Efri-Rauðalæk, sonarsonur Orra, aðeins lengra er annar sonarsonur hans, Þór frá Meðalfelli, og þegar nær dró Kórnum hefði langafabarn hans átt að vera, Fúga frá Krossanesi, ef hún væri ekki í sumarfríi í Skagafirði.
Það er kannski við hæfi að hefja pistilinn á umræðu um hrossarækt því að bæði Breiðablik og HK hafa alið upp margan knattspyrnumanninn. Þess er skemmst að minnast að helmingurinn af útileikmönnum Íslands í leiknum gegn Portúgal á dögunum kom frá þessum félögum (4 + 1). Það má því líkja félögunum við fyrirtaks ræktunarbú.
Eins og til að undirstrika þetta þá voru allir útileikmenn Breiðabliks uppaldir hjá félaginu:
Byrjunarliðið í dag. Allir útileikmenn liðsins hafa gengið í gegnum Hákon Sverrisson skólann í Smáranum; eða með öðrum orðum, eru uppaldir í Breiðablik???????? pic.twitter.com/ZsQpM3TyKF
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) June 23, 2023
Mættir í ranga höll?
Leikurinn hófst á því að Stefán Ingi var sparkaður niður eftir 19 sekúndur og þegar 1.59 stóð á klukkunni kom fyrsta hvatningaróp Gunnars Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Það stefndi þannig í skemmtilega og líflega kvöldstund.
Því er ég búinn að skrifa á þriðja hundrað orð án þess að minnast á gang leiksins? Þar er því til að svara að það var svolítið eins og Blikar hefðu farið hallavilt þarna í efri byggðum eftir langt og strangt ferðalag úr Smáranum, hefðu sem sagt ekki mætt í Kórinn heldur Sprettarahöllina til að gera æfingar. Þar vinna hestamenn gjarnan á litlu svæði, láta hrossin feta í hringi til að fá þau til að fella höfuðið, fara í krossgang, sniðgang, ganga afturábak, brokka í litla hringi osfrv. Markmiðið með þessu er að fá hrossin til að líta sem best út þegar komið er út á keppnisvöllinn. Sem sagt: Blikar voru mikið í reitabolta inni í eigin vítateig, á afar litlu svæði, og lítið að gerast framávið. Eftir 20 mínútna leik taldist tíðindamanni Blikar.is til að liðið hefði verið 89,5% með boltann en ekkert skot átt á mark heimamanna.
Eins og óþolandi yngra systkini
Þá gerðist það. Ég hef stundum sagt að HK er eins og óþolandi yngra systkini. Þar er ég ekki endilega að vísa í það þegar æskuvinur minn faldi allt snyrtidótið fyrir eldri systur sinni svo að hún mætti of seint í skólann – ómáluð. En þeim finnst amk ekkert sérstaklega leiðinlegt að leggja stein í götu Blika þegar þeir þurfa nauðsynlega á stigum að halda. Þegar 25 mínútur stóðu á klukkunni fengu heimamenn sem sagt aukaspyrnu fyrir utan teig gestanna, það myndaðist þvaga við markið og að lokum sat boltinn í netinu. 1-0 fyrir HK.
Það var engu líkara en Blikar söknuðu Damirs í vörninni sem hefur fullkomnað þá list að senda langa bolta kanta á milli og sprengja þannig upp þrönga stöðu. Hann var sem sagt í banni í þessum leik. (Það kemur þessum leik ekki beint við en örfáum dögum eftir að goðsögnin Rúna Einarsdóttir braut í blað í íslenskri hestamennsku þegar hún leiddi Orra frá Þúfu inn í sviðsljósið, fjögurra vetra gamlan í maí 1990, fæddist þessi mikilvægi leikmaður Blika.)
Klórað í bakkann
Eitthvað urðu Blikar að gera. Á 34. mínútu átti Viktor Karl skot fyrir utan teig sem var varið í horn. Fyrsta horn okkar manna. Skipti þá engum togum að Höskuldur gaf boltann beint á kollinn á Stefán Inga sem skallaði glæsilega í netið.
"Hann ætlar að kveðja með stæl!" segir @GummiBen þegar Stefán Ingi jafnar fyrir Breiðablik. 1-1!! #bestadeildin #bestasætið pic.twitter.com/wX18lyV5GZ
— Stöð 2 Sport (@St2Sport) June 23, 2023
Þremur mínútum síðar geystist Gísli í gegn á takthreinu tölti, boltinn barst á Viktor Karl sem féll við og fékk gult fyrir leikaraskap. Og Blikamegin í stúkunni sögðu gestir hverjir við aðra: Nú tökum við þetta! Nema hvað, mínútu síðar fékk HK sína aðra sókn í leiknum, boltinn var sendur fyrir og skallað í mark. 2-1.
Það sem eftir lifði hálfleiks áttu okkar menn nokkur sæmileg færi en án þess að ógna marki efri byggðar manna neitt sérstaklega. Heimamenn voru farnir að gerast nokkuð fótalúnir því að þeir hnigu niður við minnstu snertingu en risu síðan alheilir upp skömmu síðar.
Vilji og kraftur
Í hálfleik var mikið um það rætt að spil okkar manna væri með rólegra móti en töldu þó líklegt að það tækist að láta þá fá meiri orku eftir hlé, eins og sagt er á hestamannamáli, eða með öðrum orðum að auka vilja og kraft, efla framhugsun og þar fram eftir götum. Enda skapaðist strax hætta við mark HK á upphafsmínútu síðari hálfleiks. En þá fengu heimamenn sína þriðju sókn og staðan skyndilega orðin 3-1.
Á 57. mínútu heyrði tíðindamaður Blikar.is fyrir aftan sig: „Skorum fyrir sjötugustu og skorum fyrir áttugustu.“ Í sömu svifum áttu okkar menn góða sókn sem endaði með því að skoti frá Gísla var bjargað í horn. Skömmu síðar sóttu Blikar með kjarkaða lund og Stefán Ingi skoraði aftur af stuttu færi 3-2. 59.58 á klukkunni.
Jæja.. þetta er orðið leikur aftur og að sjálfsögðu er það Stefán Ingi sem er að minka muninn fyrir Breiðablik 3-2. GAME ON! #bestadeildin #bestasætið pic.twitter.com/1ZT3Sq5tyG
— Stöð 2 Sport (@St2Sport) June 23, 2023
Enn var von. Nema þá fengu HK-ingar sína fjórðu sókn,óðu upp vinstri kant á rúmu og svifmiklu brokki, gáfu fyrir þar sem einn þverröndóttur skallaði í markið. Staðan orðin 4-2.
Meinfýsin skilaboð
Nú var Óskari nóg boðið og kom með þrefalda skiptingu. Oliver Sigurjónsson, Klæmint og Davíð komu inn á fyrir Alexander, Andra Rafn og Anton Loga. Tíðindamaðurinn spurði sessunautinn á aðra höndina hvort við ættum ekki að veðja á 4-5 sigur okkar manna. „Þá má HK ekki fá aðra sókn,“ sagði sá grandvari maður. Hann er ekki nafngreindur af persónuverndarlegum ástæðum en hann varð Íslandsmeistari með Blikum og reyndar Íslandsmeistari í tennis í þrjátíu ár samfleytt, ef minnið svíkur ekki undirritaðan.
Klæmint var ekki lengi að skapa usla í vörn HK en því var bjargað í innkast. Í svömu svifum bárust skilaboð frá þekktum Stjörnumanni sem stundum hefur verið vikið að í pistlum undirritaðs: „Ertu í Kórnum að njóta?“ Fyrrnefndum sessunauti varð að orði um svipað leyti: „Vita þeir ekki að þeir eru 4-2 undir?“
Langlegudeildin
Ágúst Hlynsson kom inn fyrir Kristin Steindórsson. Og enn fór líkamlegri heilsu heimamanna hrakandi, þeir hrundu niður við minnstu snertingu svo að sessunauti tíðindamannsins á hina höndina varð að orði: „Nú er það langlegudeildin“ og hinn sem ekki hefur verið nafngreindur og er reyndar orðinn bæklunarlæknir stakk upp á því að sjúklingarnir yrðu útskrifaðir hið snarasta.
Þegar leið að lokum leiksins gerðust okkar menn aðgangsharðari við mark andstæðinganna. Klæmint átti skot sem var bjargað í horn, upp úr því kom skot á markið sem varið var með skalla, boltinn var gefinn fyrir en skóflað framhjá. Viktor Örn fór út af fyrir Oliver Stefánsson. En í sömu svifum fengu HK-ingar sína fimmtu sókn – og sitt besta færi fram að því en nú varði Anton Ari. Á sömu mínútu rann okkar maður í vörninni slysalega, enda hafði rignt nokkuð um kvöldið – að vísu fyrir utan Kórinn – og skyndilega var HK-ingur á auðum sjó fyrir miðju marki í sjöttu sókn þeirra og fimmta markið staðreynd.
„Viljinn góður og lundin kjörkuð“
Á leiðinni út úr Kórnum barst skeyti frá HK-ingnum, syni tíðindamannsins, sem hafði ekki haft dug í sér til að mæta á leikinn: „Fotmob er að klikka hjá mér, hver er staðan?“
Þannig fór um sjóferð þá. Það var lágskýjað í Kórnum í kvöld. Rigningin lenti eiginlega öll á Blikum. Á þriðjudag stendur fyrir dyrum Evrópuleikur okkar manna á móti Tre Penne Galazzano frá San Marino. Þá er aftur á móti spáð sólskini. Þar mæta okkar menn vonandi eins og afkvæmum Orra frá Þúfu er lýst í heiðursverðlaunadómi: „Tölt og brokk er einstaklega taktfast, rúmt og lyftingarmikið. Stökkið glæsilegt og ferðgott, viljinn góður og lundin kjörkuð. Afkvæmin eru aðsópsmikil í reið.“ Kannski verður Hákon Sverrisson í kjölfarið kallaður ræktunarjöfur íslenskrar knattspyrnu.
Rétt er að taka fram í öllu þessu stóðhestatali að tölfræðingar hafa sýnt fram á að í hrossarækt skipta merarnar mestu máli. Sextán af átján afkvæmum verði eins og móðirin. Best sé því að eignast góða ræktunarhryssu. Enn betra ef móðir hennar hefur líka fengið fyrstu verðlaun. Aftur á móti séu aðeins sjö prósent afkvæmanna eins og faðirinn.
PMÓ
Skýrslan@hkkopavogur ???? @BreidablikFC
— Besta deildin (@bestadeildin) June 24, 2023
Hápunkta leiksins má finna á Youtube rás okkar:https://t.co/chSQTL0Jxb pic.twitter.com/aPCt4ZwdVS