Léttleikandi Blikar á Lambhagavelli
27.05.2024
Það var ágætis knattspyrnuveður í Úlfarsárdalnum sunnudaginn 26. maí þegar Fram tók á móti Breiðabliki í 8. umferð í Bestu deildinni á „Lambhagavellinum“ Aðstæður voru góðar, völlurinn vel bleyttur – smá austanvindur og sól. Hiti 10 stig og áhorfendur 1.247. Blikar voru í 2. sæti en heilum 6 stigum á eftir Víkingi sem hafði unnið nauman sigur gegn Skagamönnum daginn áður. Vafasamur vítaspyrnudómur réði úrslitum þar. Það var því mikilvægt að missa Víking ekki langt frá sér á stigatöflunni.
Framarar voru bjartsýnir fyrir leikinn. Stefán Pálsson sem skrifar afar skemmtilega pistla á fram.is sagði í grein sinni eftir síðasta leik liðsins gegn ÍA; „ Við tekur skyldusigur gegn Blikum á spínatbeðinu næsta sunnudag“. Framarar voru því brattir og það stefndi í hörkuleik. Sú varð raunin.
Lítið breytt byrjunarlið
Það var ein breyting á liðinu frá því í sigrinum góða gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Halldór þjálfari gaf Kristni Steindórssyni frí og Aron Bjarnason kom inn í byrjunarliðið.
Byrjunarliðið gegn Fram ???? pic.twitter.com/PPDLFcy8DB
— Blikar.is (@blikar_is) May 26, 2024
Leikurinn byrjaði á þreifingum beggja liða en Blikarnir voru meira með boltann. Framararnir lögðu upp með skyndisóknir. Við fengum eins gott færi og þau gerast í knattspyrnu strax á 6. mínútu. Höskuldur átti sprett upp kantinn og frábær fyrirgjöf hans endaði á kollinum á Patrik en var vel varið. Færeyingurinn fékk annað tækifæri en tókst ekki að skora. Sennilega hefur Patrik ekki sofnað vel um nóttina, því hann er vanur að skora úr svona færum.
Framarar áttu sínar sóknir fengu horn á 15. mínútu og góður skalli Guðmundar Magnússonar endaði í netinu. 0-1 og ekki alveg óskastaðan hjá Blikum í stúkunni. Breiðablik var sem betur fer ekki lengi að svara. Á 20 mínútu átti Kristinn Jónsson góða sendingu á Viktor Karl í vítateig Framara. Viktor vippaði yfir varnarmann og lagði boltann í netið. Hrein snilld – en Viktor átti eftir að koma meira við sögu í leiknum. Hann var hreint frábær í þessum leik.
Viktor Karl skorar, staðan er 1-1 eftir 20 min. pic.twitter.com/gCIOrAKinQ
— Blikar.is (@blikar_is) May 26, 2024
Breiðablik hafði nokkra stöðuyfirburði það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan var óbreytt í leikhléi, 1-1.
Blikarnir byrjuðu seinni hálfleik mun betur – en engin umtalsverð færi. Það kom síðan stórmerkileg tilkynning hjá vallarþul sem tilkynnti að ef þú átt bláan Renault bíl sem er illa lagt þá áttu vinsamlega að færa hann. Þetta var alveg ótrúlegur stílbrjótur og sér í lagi þegar leiðrétt bílnúmer var ítrekað gefið upp og leikurinn í fullum gangi. Það er kúnst að vera vallarþulur, við Blikar erum lánsamir þar að eiga Björgvin Rúnarsson í því hlutverki á Kópavogsvelli.
Á 54. mínútu var Kristinn Jónsson kominn í dauðafæri en var felldur – klárt víti en dómarinn sá ekki ástæðu til að grípa þar inn í. (mynd á fotbolti.net)
Það hlaut eitthvað að gefa undan og sókn okkar þyngdist enn meir þegar Oliver Sigurjónsson kom inn á 55. mínútu og þeir Ísak Snær og Kristinn Steindórsson á þeirri 67. Á 73. mínútu komumst við í skyndisókn og eftir frábært spil sendi Viktor Karl boltann á Aron Bjarnason sem skoraði örugglega.
2-1 fyrir Breiðablik! Aron Bjarna með markið. pic.twitter.com/t9AYKnQtq4
— Blikar.is (@blikar_is) May 26, 2024
Eftir þetta höfðu Blikarnir tögl og hagldir og bættu við 2 mörkum á 83. og 85. mínútu. Viktor Karl kórónaði stórleik sinn með sínu öðru marki og það var frábært að sjá Ísak Snæ opna markareikning sinn með frábæru skoti. Hann er óðum að komast í sitt fyrra form og sýndi góða takta.
3-1 fyrir Breiðablik! Viktor Karl með sitt annað mark í dag. pic.twitter.com/QY3SKChYvH
— Blikar.is (@blikar_is) May 26, 2024
4-1! Ísak Snær með markið! pic.twitter.com/UCncsi6H1L
— Blikar.is (@blikar_is) May 26, 2024
Áhugaverð tölfræði
1-4 sigur á útivelli gegn Framliði sem í 7 leikjum hafði aðeins fengið á sig 5 mörk eru frábær úrslit og það virðist vera góð stígandi í liðinu. Með þessum 4 mörkum okkar höfum við skorað 21 mark í 8 leikjum – sem er harla gott. Það er merkilegt að nú þegar hafa 13 leikmenn skorað fyrir Breiðablik – sem er mikill styrkur og sýnir breiddina í hópnum.
Hinn íslenski El Clasico fimmtudaginn 30. maí 2024
Það verður sannkallaður risaslagur á Kópavogsvelli núna strax á fimmtudaginn. Þá fáum við Íslands- og bikarmeistar Víkings í heimsókn. Með sigri í þeim leik getum við komist á toppinn í Bestu deildinni. Svo vitnað sé í áðurnefndan Stefán Pálsson þá er sagnfræðingurinn ekkert að skafa af hlutunum. Hann segir þar á heimasíðu Fram að „Breiðablik er besta lið sem við höfum mætt í ár og það sást í kvöld“.
Við höfum því alla burði til að sýna það á fimmtudaginn að við erum besta knattspyrunlið Íslands. Strákarnir eiga skilið risa stuðning eftir frábæra frammistöðu í vor. Það er til mikils að vinna.
Áfram Breiðablik
-HG
Deloitte Skýrslan@FRAMknattspyrna ???? @BreidablikFC
— Besta deildin (@bestadeildin) May 30, 2024
Hápunkta leiksins má finna á Youtube rás okkar:https://t.co/chSQTL0Jxb pic.twitter.com/rHwsrbbKkz