BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markaveisla undir síðdegissól

16.09.2024 image

Það var ekki fyrr en það haustaði að sumarið kom. Sól skein í heiði – nema náttúrlega í stúkunni á Kópavogsvelli – það var logn og það var blíða. Kjöraðstæður fyrir grannaslaginn á milli Breiðabliks og HK, síðdegis sunnudaginn 15. september. Tíðindamaður blikar.is hafði að sjálfsögðu lagst í nokkra rannsóknarvinnu fyrir leikinn og stikað Leirdalinn um morguninn í fylgd hæstaréttarlögmanns til að nema stemmninguna í efri byggðum Kópavogs. Þar riðu áður hetjur (Gustarar) um héruð en nú var ekki merkjanleg spenna í lofti. Allt með kyrrum kjörum. Friður ríkir í fjalladalnum, sagði í Hamraborginni. En spurningin var þessi: myndu HK-ingar mæta dýrvitlausir til leiks, rétt eins og þegar þeir tóku Íslandsmeistara FH í bakaríið í handbolta í vikunni? Ætlaði liðið að spilla fyrir stóra bróður eina ferðina enn? Eða endurtæki sagan sig frá því fyrr í sumar þegar okkar menn lögðu HK að velli í Kórnum 0-2?

Titrandi snjallúr

Hér kemur smá útúrdúr. Árla morguns þann 11. apríl 2023 vaknaði nefndur tíðindamaður í Tókýó við mikla skruðninga í snjallúrinu. Eftir þriðja merkið ákvað hinn „jet-legni“ ferðamaður að rifa augun. Klukkan var að nálgast sjö að morgni þar eystra. Hann mundi þá að kvöldið áður – sem reyndar var þá á sama tíma og hann vaknaði – áttu Blikar að hefja titilvörnina á Kópavogsvelli á móti HK. Kannski voru góð tíðindi að berast yfir hnöttinn? Það stóð heima. Breiðablik hafði skorað þrívegis á fjögurra mínútna kafla og var komið yfir 3-2. Langferðalangurinn lokaði augunum aftur sæll og glaður en þá fór fjandans úrið aftur að titra. Og svo aftur. Þarf ekki að orðlengja hvað þessi læti þýddu. Nema hvað skömmu síðar komu skilaboð frá frumburði tíðindamannsins sem er mikill HK-ingur: „Er ekki örugglega netsamband í landi hinnar rísandi sólar?“ Það er kannski óþarfi að rifja það upp í þessum virta og hlutlausa miðli að HK vann einnig seinni leik liðanna í Kórnum sumarið 2023.

Fer Halldór í sögubækurnar?

Tíðindamaðurinn gekk með öðrum orðum ekki að því sem gefnu að Blikar myndu fara með sigur af hólmi á Kópavogsvelli í dag. En það var mikið undir. Toppsætið vissulega innan seilingar en það hékk meira á spýtunni. Með þremur stigum myndi Halldór Árnason þjálfari slá met Heimis Guðjónssonar sem þjálfari á fyrsta ári í 12 liða deild. Heimir hóf ferilinn með því að ná í 47 stig á fyrsta sumri með FH en sigur Blika í dag myndi þýða 49 stig í pokanum góða. Jafnframt yrði það næstbesti árangur okkar manna í 12 liða deild (51 stig Íslandsmeistaraárið 2022 og fyrra meistaraárið 2010 voru þau 44). Tækist Halldóri að skrifa sig í sögubækurnar með sigri? (Það skal tekið fram að Pétur Ómar er hér hinn trausti heimildarmaður að þessari tölfræði). En HK-ingar eru ekki þekktir fyrir að gefa mikið fyrir tölfræði og þeim hefur aldrei leiðst að spilla gleði Blika. Þeir voru líka að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og því kannski engin ástæða fyrir þá að sýna heimamönnum einhverja sérstaka kurteisi.

Fyrir leik var Hákon Sverrisson heiðraður fyrir þrjátíu ára þjónustu við Breiðablik, innan vallar sem utan. Og ekki að ástæðulausu.

image

Fyrir leikinn gegn HK þakkaði knattspyrnudeild Breiðabliks Hákoni Sverrissyni fyrir óeigingjarnt starf fyrir félagið í 30 ár nú síðustu 8 ár sem yfirþjálfari. Hákon er að minnka við sig í starfi fyrir knattspyrnudeild Breiðabliks og er að hefja störf við kennslu í Menntaskólanum í Kópavogi. Hann mun áfram vinna að faglegu starfi innan yngri flokka félagsins. Félagið óskar Hákoni farsældar í kennslunni en um leið er mikil ánægja með að hann muni starfa áfram með okkur. Á mynd með Hákonu eru þau Hlynur Höskuldsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, og Birna Hlín Káradóttir, varaformaður stjórnar knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Leikmenn beggja liða léku með sorgarbönd til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur.

Lið okkar manna sem gekk inn á völlinn var þannig skipað:

Sviptingar og óþarfa gjafmildi

Blikar hófu leikinn á móti sól sem var kannski við hæfi því að maður var „miklu meira en spenntur“. Strax á annarri mínútu fékk HK hornspyrnu og skapaðist stórhætta við mark okkar manna. Þarna hringdu einhverjar viðvörunarbjöllur. Tveimur mínútum síðar var brotið harkalega á þeim prúða pilti, Höskuldi Gunnlaugssyni, svo það var ljóst að lið fólsins var mætt til leiks. Okkar menn létu þetta ekki á sig fá heldur bitu í skjaldarrendur og eftir hraða sókn barst boltinn til Viktors Karls í miðjum teig HK og einhvern veginn tókst honum að lauma knettinum í fjærhornið. 1-0 og átta mínútur á klukkunni – allt í sóma. Útlitið bjart í þessu mikla sólskini.

En HK veit sem er að það vinnur enginn skák með því að gefa hana. Fjórum mínútum eftir að okkar menn náðu verðskuldað forystunni áttu gestirnir skalla í hliðarnetið svo að kliður fór um stúkuna. Blikar héldu þó áfram að herja á mark andstæðinganna en þeir vörðust drengilega. Þegar 24 mínútur voru á klukkunni var dæmd hendi (sem ætti auðvitað að vera hönd) á Höskuld úti á miðjum velli sem mörgum fannst umdeilanlegt en upp úr aukaspyrnunni jafnaði HK leikinn. Mjög óvænt. En eins og þetta væri ekki nóg þá áttu okkar menn stórundarlega sendingu til baka litlu síðar sem leikmaður HK nýtti sér og skoraði auðveldlega fram hjá Antoni Ara í markinu. Skyndilega var staðan orðin 1-2. Og nokkkrum mínútum síðar skölluðu gestirnir í slánna. Var allt að fara til fjandans?

Kristófer grípur tækifæri

Í hálfleik var þungt yfir stuðningsmönnum Blika. Einhver vitnaði í einn ástsælasta tengdason Kópavogs, Einar Kárason, í Gulleyjunni: „Ef lífið er þjáning þá er líf á þessari eyju.“ Annar talaði um að okkar lið væri miklu sterkara á pappírnum en var óðara kveðinn í kútinn með tilvísun í knattspyrnustjórann Brian Clough: En því miður er leikurinn spilaður á gervigrasi.

Það var eins og okkar menn kæmu inn í seinni hálfleik „með vængi í skónum“ (svo vitnað sé í ljóð eftir vinkonu tíðindamannsins, Valgerði Ben úr Kastalagerðinu). Aron átti hörkuskot yfir strax í upphafi hálfleiksins sem var kannski ekki klókt því að gestirnir tóku sér um þetta leyti afar góðan tíma í öll útspörk, svo góðan að með sama áframhaldi hefði þeim dugað að taka tuttugu og sjö markspyrnur til að tryggja að boltinn væri aldrei í leik. Á 50. mínútu lenti Kristófer, sem hafði verið mjög líflegur, í afar harkalegri tæklingu úti á miðjum velli, lá óvígur eftir og þurfti aðhlynningu. Í kjölfarið varð hann að fara út af um stund, eins og lög gera ráð fyrir. Dómarinn dró hins vegar nokkuð að hleypa honum aftur inn á svo að það voru 53 mínútur á klukkunni þegar hann fékk loksins að vera aftur með. Og sá greip tækifærið. Tók boltann, brunaði upp og lúðraði honum í fjærhornið. Staðan orðin 2-2 og landið heldur betur tekið að rísa aftur.

Ertu inni eða úti?

Fjórum mínútum seinna urðu straumhvörf í leiknum. Vendipunktur. HK-ingur komst í álitlega stöðu og vippaði snyrtilega yfir Anton Ara í markinu. Ætluðu efri byggðar menn eina ferðina enn að spilla gleðinni? Nei, sagði Viktor Örn. Nú er nóg komið. Hann tók á rás og náði með ótrúlegum hætti til boltans, þrumaði honum upp í slánna og ... ertu inni eða úti? Úti! Strax í kjölfarið óð Aron upp hægri kant og skoraði glæsilegt mark. Staðan orðin 3-2 en aðeins 20 sekúndum áður hefði það hæglega getað verið á hinn veginn.

Okkar menn voru ekki hættir. Á 60. mínútu var Aron á auðum sjó á markteig en boltinn fór af varnarmanni aftur fyrir. Kristinn Jónsson tók hornspyrnuna, lyfti boltanum snyrtilega á fjærstöngina þar sem fyrirliðinn prúði, Höskuldur, var mættur og skallaði glæsilega í netið. 4-2.

Áfram héldu sóknir léttleikandi Blika og fimmta markið lá í loftinu. Gestirnir höfðu þó ekki gefist upp. Þeir tóku aukaspyrnu við vítateigshornið og stefndi knötturinn í vinkilinn fjær en Anton Ari kýldi boltann frá af festu og öryggi – jafnvel þótt HK-trukkur keyrði inn í hann af töluverðu afli.

Enn skorað

Á 75. mínútu gerði Halldór tvöfalda skiptingu. Kristinn Steindórs og Kristófer fóru á velli fyrir Oliver og Stokke. Skömmu síðar tóku okkar menn markspyrnu með hefðbundnu spili á ystu nöf á markteig, svo að stúkan skellti í sig sprengitöflunum í einum kór, en þessu lauk með því að Anton Ari sendi háan bolta fram, Stokke skallaði hann snyrtilega aftur fyrir sig þar sem Davíð kom á öðru hundraðinu og óð upp kantinn, sendi fyrir þar sem Aron var mættur og skoraði fimmta markið.

Á 80. mínútu leystu Patrik og Tumi Viktor Karl og Davíð af hólmi. Patrik var greinilega mjög peppaður fyrir því að bæta við sjötta markinu því að hann átti skot fram hjá mínútu eftir að hann kom inn á og litlu síðar reyndi hann að skjóta yfir markmanninn af eigin vallarhelmingi en boltinn fór naumlega fram hjá. Undir lokin kom Damir inn á við mikinn fögnuð áhorfenda fyrir Andra Rafn. Okkar menn héldu áfram að sækja en samt voru það HK-ingar sem tróðu inn sárabótarmarki í lokin og 5-3 niðurstaðan.

Halldór fer í sögubækurnar

Fjörugum og stórskemmtilegum leik var lokið, þar sem okkar menn voru með tögl og hagldir, fyrir utan smá kafla í fyrri hálfleik. Halldór Árnason hefur skráð sig í sögubækurnar með besta árangur þjálfara á fyrsta ári í 12 liða efstu deild. Blikar eru á toppnum með 49 stig en það kemur ekki í ljós fyrr en að loknum leik Víkings og Fylkis hvort Fossvogspiltar fara upp fyrir þá með sigri en aðeins á markatölu. Fram undan er úrslitakeppnin sem verður (loksins) æsispennandi.

Eitt er þó víst – HK-ingum tókst ekki að leggja stein í götu Blika á þessari leiktíð, þrátt fyrir hetjulega baráttu og einbeittan brotavilja. Gangi þeim sem allra best í fallslagnum.

PMÓ

@breidablikfc

Kópavogur er GRÆNN ????

♬ original sound - Breidablik FC

Til baka