Mölbrotnir við Genfarvatn
02.10.2025


Enn á ný höfum við hafið leik í lokakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Nú er fyrirkomulagið breytt frá því þegar við kepptum seinast á þessu stigi keppninnar árið 2023. Í þetta skiptið leikum við ekki heima og að heiman við sömu þrjá andstæðinganna heldur spilum sex leiki og þá alltaf við nýjan mótherja.
Í dag riðum við á vaðið gegn Lausanne Sport frá 140.000 manna borginni Lausanne sem er við hið undurfagra Genfarvatn í frönskumælandi hluta Sviss. Haust í Sviss við Genfarvatn, ég hefði viljað fá frumkvæði frá klúbbnum til að hvetja okkur stuðningsmenn til að fylkja sér á bakvið liðið og fylgja því út. Einföld leit sýnir að flogið er til Basel á miðvikudögum og laugardögum og kostar ekki mikið. Frá Basel er svo stutt lestarferð til Lausanne. Það þarf að reyna að byggja stemningu í kringum liðið, sérstaklega er í harðbakkann slær.
Engum dylst að það er ládeyða yfir meistaraflokki karla, þetta hefði verið gott tækifæri til að þjappa okkur stuðningsmönnum betur saman með liðinu. Það er þó spurning hvort að aðsóknin hafi verið lítil en ella því við komum skítkaldir inn í þennan leik. Árangurinn í deildinni minnir á tímana þegar ekki var hægt að minnast á Breiðablik án þess að lélegur og lífseigur brandari um hvað sé grænt og fellur á haustin fylgdi með. Seinast þegar við unnum ekki átta leiki í röð í deildinni árið 2001 féllum við niður í 1. deild og máttum dúsa þar í fjögur ár frá 2002 til 2005. Það jákvæða í þessari eyðimerkurgöngu er þó að við höfum átt góðar frammistöður í toppslögunum gegn Val og Víking en dómararnir settu sjálfa sig í kastljósið og glutruðu sigurvonum okkar þar.
Það er þó kaldhæðni örlaganna að við mætum í svipaðri stemningu til leiks í lokakeppni Sambandsdeildar Evrópu árið 2023 og 2025, skítkaldir með áþreifanlegt andleysi innan sem utan félagsins nema nú virðumst við ætla fullkomlega að missa af Evrópusæti í deildinni og getum varla keypt okkur mörk.
Dóri byrjar með liðið í 5 manna vörn og ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Ég má ekki hugsa til leikjanna gegn KA, Zrinjski Mostar og Vestra (n.b. þar kom seinasti sigur okkar í deildinni (það var 19. júlí)), þessir þrír leikir voru þeir einna leiðinlegustu leikir sem ég hef Blikana mína spila í að verða 6 ár. Í dag var Anton Logi kominn í hafsentinn, Dóri hlýtur að muna hvernig honum var enginn greiði gerður að spila þar í riðlakeppninni 2023.
Við byrjuðum þennan leik þó sterkt í okkar algrænu búningum, sem mér fannst ansi flottir. Kristófer Ingi var snemma leiks í góðu færi og svo fínni stöðu. Maður hugsaði hvort andleysið væri bara gegn liðunum sem eru fyrir neðan okkur í Bestu deildinni og menn ætluðu að berjast eins og ljón við Genfarvatnið. En, berin verða fljótt súr og á 7. mínútu skora Lausanne fyrsta mark leiksins. Veikleikar þess að vera í 5 manna vörn koma þarna bersýnilega í ljós. Sóknarmenn andastæðingsins á auðvelt með láta týna sér á milli manna og varnarmennirnir eru gjarnir á ábyrgðarleysi í að dekka sóknarmennina í þeirri trú að næsti maður sé að dekka hann. Það gerðist í fyrsta markinu þegar sóknarmaðurinn stakk sér á milli Damirs og Viktors Arnars. Það var svipuð staða þegar það kom stungusending úr öftustu línu Lausanne-manna sem ég hélt að yrði aldrei vesen en Damir virðist ekki ætla að fara í kapphlaupið, mögulega því hann hélt að Viktor Örn eða Anton myndu gera það, fyrr en alltof seint. Ansi einfalt og staðan orðin 2-0 og 11 mínútur búnar af leiknum. Við þetta mölbrotnuðum við, Lausanne liðið var með tögl og haldir á leiknum og Blikarnir mínir voru í skelinni og sáu aldrei til sólar.. Eftir 33. mínútna leik gerði Valgeir sig sekann um slæm mistök og missti boltann sem aftasti varnarmaður og Lausanne skorar mark, sem ég var reyndar alveg viss um að yrði dæmt af í VARsjánni vegna rangstöðu en allt kom fyrir ekki. Staðan orðin 3-0 og leikurinn algjörlega búinn. Við byrjuðum aðeins að anda að marki þeirra undir lok hálfleiksins en vorum ekkert sérstaklega líklegir.
Engar skiptingar voru gerðar í hálfleik og við komum ágætlega ferskir út í seinni hálfleikinn. Vorum að fá mikið af fínum stöðum en eins og sagan hefur verið í allt sumar þá eigum við bara mjög erfitt með að koma boltanum inn í markið og það sérstaklega í opnum leik. Við vorum mun öflugri í seinni hálfleik en það spilar inn í að Lausanne voru orðnir farþegar í þessum leik og vildu bara sigla sigrinum þægilega heim í höfn. Sem þeir og gerðu. Ásgeir Helgi, Óli Valur, Tobias Thomsen, Gabríel Snær og Arnór Gauti komu inn á sem varamenn en náðu ekki að setja mark sitt á leikinn.
Leikurinn var aldrei spennandi fyrir utan þessar fyrstu fimm mínútur en liðið er of brothætt andlega til að geta lent undir á meginlandi Evrópu og komið tvíeflt til baka. Þess,í stað fáum við annað mark í grímuna á okkur og leikurinn er gott sem búinn. Ég verð því að setja stórt spurningarmerki við að Dóri reyni að gaslýsa okkur stuðningsmenn í viðtali við fótbolti.net eftir leik þar sem hann sagði: “Markmiðið er auðvitað að vinna og fái stig en við erum líka með markmið um að geta spilað við þessi lið á jafningjagrundvelli, eins og mér fannst við gera í dag”. Þetta gefur engan vegin rétta mynd af leiknum því Lausanne setti eins mikla, eða litla, orku í þetta verkefni og þeir þurftu. Við stuðningsmenn horfðum á liðið okkar vera tekna í bakaríið og sáum þá ekki standa í Lausanne nema aðeins í blábyrjun og svo í seinni hálfleik, þremur mörkum undir.
Nóg af stigum í pottinum en við getum ekki verið saddir og sáttir með að vera með í þessari deildarkeppni, við verðum að sækja stig og sigra. Víkingur hækkaði ránna hátt seinasta vetur og við verðum að hafa hungur, gleði, anda og ástríðu til að gera góða hluti. Það þarf þó eitthvað að gera til að ná andanum upp, best væri að sigra Fram á sunnudaginn því sigrar næra og í kjölfarið mega menn fara í móralskan. Fá hér með skriflegt leyfi til þess komi iðnaðarsigur gegn Frömmurum.
FS