BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur sigur í fyrsta leik!

06.04.2025 image

Eins og jafnan áður var tilhlökkun í undirrituðum á leiðinni á völlinn í kvöld á fyrsta alvöru leik ,,sumarsins“. Skrýddur flunkunýrri og fagurgrænni Kyndilbera peysu og tennurnar ný burstaðar. Árskortið klárt í símanum og í fljótu bragði virtist ekki margt geta farið úrskeiðis.
Suðsuðaustan kaldaskítur með dálítilli súld og 7 stiga hita telst sumarveður í byrjun apríl. Algjört draumaveður fyrir leikmenn á þessum árstíma og alveg nógu gott fyrir áhorfendur, enda fjölmenntu þeir á leikinn. Flestir á bandi heimamanna en dágóður hópur Mosfellinga hafði lagt land undir fót til að styðja sína menn, milli þess sem þeir bauluðu á Arnór Gauta, sem lét sér reyndar fátt um finnast.

Gestirnir að stíga sín fyrstu skref í efstu deild knattspyrnu frá stofnun félagsins árið 1909, en heimamenn að hefja sitt 20. tímabil í röð í efstu deild frá því liðið vann sæti þar að nýju með sigri í 1.deildinni 2005. Áður höfðu Blikar lengst leikið 5 ár samfellt í efstu deild 1980 – 1984.
Framför.

Fyrir leik var Kristinn Steindórsson heiðraður, en hann lék á dögunum sinn 300. leik fyrir Blika. 

image

Blikar léku frá suðri til norðurs og hófu leikinn með með látum og eftir hálfa mínútu munaði hársbreidd að þeir settu fyrsta markið þegar Aron átti fasta sendingu fyrir markið en leikmaður gestanna náði að renna sér í boltann í sömu andrá og Óli Valur var að fara að ýta honum í markið. Þar voru gestirnir stálheppnir. Blikarnir voru mjög ákveðnir næstu mínútur og pressuðu gestina út um allt en þeir reyndu að sama skapi að spila sig út úr pressu okkar manna en gekk það misjafnlega og Blikar oftast fljótir að vinna boltann aftur ef hann tapaðist. Pressan á gestina jókst og á sjöundu mínútu gekk rófan. Eftir vel heppnaða pressu Blika varð gestunum á í messunni við eigin vítateig og boltinn barst til Valgeirs hægra megin í teignum sem rauk af stað í þann mund að varnarmaður setti fótinn aftan í hann. Dómarinn ekki í vafa og vítaspyrna réttilega dæmd. 
Höskuldur tók spyrnuna og skoraði af öryggi fyrsta mark Bestu deildar 2025. 1 – 0 fyrir Blika.

image

Áfram héldu Blikar að pressa gestina og aftur kom Aron með fasta fyrirgjöf og enn náði varnarmaður að bjarga á elleftu stundu. Skömmu síðar var Óla Valur í færi en skot hans var varið. Svo kom skot í stöng frá Tobiasi eftir bras hjá gestunum. Skömmu síðar var Óli Valur kominn í gegn en varnarmaður náði að fella hann millimetrum fyrir utan vítateigslínuna. Aukaspyrna Höskuldar var varin. Skömmu síðar þurfti Anton Logi að fá aðhlynningu eftir að vinstri hendin var því sem næst rifin af honum. En hann jafnaði sig og hélt ótrauður áfram. Okkar menn áfram hættulegir og líklegir til að bæta við marki en það lét á sér standa. Svo kom það loks eftir rúmlega hálftíma leik. Eftir gott spil Blika fékk Viktor Karl boltann úti á vinstri kanti og sendi hann inn á vítateig gestanna þar sem Tobias kom á ferðinni og skallaði í fjærhornið, alveg út við stöng. Glæsilegt mark og vel að því staðið. 2 – 0 fyrir Blika.

image

Skömmu síðar var Tobias nálægt því að bæta við marki eftir mikla orrahríð en setti boltann yfir mark gestanna. Það bar næst til tíðinda að dómarinn ákvað að sleppa augljósri vítaspyrnu á gestina þegar Óli Valur bókstaflega rifinn niður í teignum. Þetta var svo augljóst, og minnstu munaði að hann hrykki úr treyjunni. Vér erum enn að klóra oss, eins og þar stendur. En ekkert var dæmt og Blikar fóru því með 2ja marka forystu inn í leikhléð og máttu gestirnir vel við una.

Almannarómur í hálfleik var að 4 marka forysta hefði verið hæfileg og mikil ánægja með af hve miklum krafti liði mætti til leiks. En gestirnir höfðu með mikilli baráttu og talsverðri heppni haldið tjóninu í lágmarki. Veðurglöggir töldu að það myndi lægja í seinni hálfleik en reyndust ekki mjög glöggir. En kaffið var gott eins og jafnan þegar við höfum forystuna.

Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri. Blikar frískir og með góða pressu og gestirnir áttu í vök að verjast. Okkar menn fengu ekki mörg færi en komu sér í góðar stöður og voru líklegir til að bæta við 3j markinu. Sóttu nú mun meira upp hægri kantinn en í fyrri hálfleik og náðu að opna vörn gestanna ítrekað en það vantaði endahnútinn á sóknirnar. Blikar skelltu í þrefalda skiptingu eftir korter. Andri Rafn kom inn fyrir Gabríel, Ágúst Orri kom inn fyrir Viktor Karl og Kristinn Steindórs fyrir Aron Bjarna. Blikar héldu áfram að þjarma að gestunum og skoruðu að því er virtist löglegt mark en dómarinn sá eitthvað athugavert og dæmdi markið af.
Skömmu síðar var Oliver Sigurjónssyni skipt af velli í liði gestanna og hann fékk það sem kallað er standandi lófaklapp frá stúkunni. Það var fallegt og verðskuldað.
Blikar skiptu svo Ásgeiri Helga inn fyrir Anton Loga eftir að sá síðarnefndi hafði fengið boltann í andlitið. Leikurinn hafði nú róast og Blikar voru ekki alveg jafnfrískir og framan af og freistuðu þess að sigla þessu heim. Enn var pláss fyrir skiptingu og Viktor Elmar Gautason kom inn fyrir Tobias þegar komið var fram á 90. mínútu og hann hefði með smá meiri ákveðni getað sett mark skömmu síðar. Blikar hleyptu þá af úr þrískotabyssunni en tókst ekki að skora. Sérlega ánægjulegt að sjá Viktor Elmar á ný í takkaskóm en hann hefur glímt við langvinn og erfið meiðsli.
En það voru gestirnir sem fengu síðasta færið, og þeirra langbesta í leiknum, í blálokin en Anton Ari varði skot af stuttu færi á stórbrotin hátt. Anton vel vakandi alveg til enda þó dagurinn hafi verið með rólegra móti hjá honum. Vel gert.

Sanngjarn sigur okkar manna í höfn og þetta var fín frammistaða. Kraftmikil byrjun á báðum hálfleikjum og góð barátta allan leikinn. Færin hefðu átt að gefa fleiri mörk en það er eins og það er.
Góður bragur á liðinu og menn að ná að tengja vel saman og leikskilningur og samvinna til fyrirmyndar lengst af. Dampurinn datt aðeins úr þegar leið á seinni hálfleik en það kom ekki að sök og sigurinn öruggur.
Þokkalega góð stemmning hjá þeim 2.180 áhorfendum sem mættu á svæðið og sáu skemmtilegan leik.

Næsti leikur Blika er útileikur gegn Fram í Úlfarsárdal næsta sunnudag kl. 19:15. Okkar menn eiga harma hefna frá snýtingunni í Lengjubikarnum í vetur.
Við verðum vitni að því.

Áfram Breiðablik!

OWK.

@breidablikfc

LETS GO ????

♬ original sound - Breidablik FC

Til baka