BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sanngjarn sigur á Skagamönnum

25.09.2024 image

Það var bleikur röðull að setjast á vesturloftinu í Kópavogsdalnum í gærkveldi í þann mund að leikur Blika gegn Skagamönnum í 1. umferð úrslitakeppni Bestu deildarinnar hófst. Aðstæður eins og best var á kosið til knattspyrnu og áþreifanleg spenna í loftinu. Hiti um 6° á Celsíuskvarðanum, heiðskírt og stafalogn. Haustkvöldin verða ekki fallegri.

Nú mega liðin ekki misstíga sig ætli þau að ná markmiðum sínum. Skagamenn í harðri baráttu um að ná 3ja sætinu og þar með tryggja þátttöku í Evrópukeppni á næsta ári og Blikar í harðri baráttu við Víking um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin gerðu 1-1 jafntefli fyrr í sumar á Kópavogsvelli en á Skipasaga fóru okkar menn með öll stigin heim eftir dramatískar lokamínútur þar sem sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á lokasekúndum leiksins. Það mátti því búast við harðri og jafnri viðureign. Sem og varð.

Byrjunarlið okkar manna var á þessa leið og var örlítið breytt frá síðasta leik, Ísak Snær og Arnór Gauti komu inn fyrir Kristinn Steindórs og Kristófer.

Blikar léku frá suðri til norðurs í fyrri hálfleik og voru með boltann meira og minna fyrstu 35 mínúturnar en gekk illa að opna þéttan varnarmúr þeirra gulu. Þó fengu okkar menn 2-3 ákjósanleg færi til þess. Fyrsta færið kom eftir misheppnað útspark markvarðar gestanna og annað eftir laglegt samspil, en í hvorugt skipti náðu menn skoti á mark og þetta var svona meira og minna fyrsta hálftímann eða svo. Og eins og jafnan þegar þessi staða er uppi að Blikar nánast einoka boltann en ná ekki inn marki eru áhorfendur eins og hengdir uppá þráð í samfelldu kvíðakasti og óttinn við skyndisóknir gestanna liggur eins og mara yfir mannskapnum. Það var því nokkur léttir síðustu 10 mínútur hálfleiksins þegar gestirnir fóru að vera meira með boltann og reyndu að sækja. Áttu meira að segja eitt skot sem Anton var ekki í vandræðum með. En Blikar áttu sem sagt ekki skot á mark í fyrri hálfleik og staðan markalaus í hálfleik. Það vantaði altso mark.

Ný uppáhellt hálfleikskaffið rann ljúflega niður og veitti yl í kroppinn. Það kólnar fljótt þegar húmar þessa dagana.

Okkar menn hafa fengið eitthvað verulega hressandi í teið sitt í hálfleik, því það var allt annar bragur á liðinu þegar það hóf seinni hálfleikinn. Meiri ákefð og hraði í öllum aðgerðum og strax sett pressa á gestina. Það var þó ekki þannig að Skagamenn legðu niður rófuna, síður en svo, en okkar menn virtust einhvern veginn grimmari og ferskari en í þeim fyrri. Ísak ógnaði marki gestanna en varnarmaður gestanna komst fyrir skotið en Blikar héldu áfram að herja á gestina og á 55. Mínútu kom fyrsta markið. Boltinn barst til Davíðs á vinstri kantinum og hann sendi fastan bolta fyrir markið og þar kom Aron á ferðinni og reyndi að komast í boltann, en tókst ekki. Það kom reyndar ekki að sök því boltinn fór af varnarmanni gestanna, sem var að passa upp á að Aron kæmist ekki að boltanum,  og í netið. Þarna skilaði pressan sér sannarlega hjá Aroni. Þeir fiska sem róa.

1- 0 fyrir Blika og nú tók leikurinn heldur að æsast. Næstu mínúturnar herjuðu Blikar án afláts á Skagamenn og komust hvað eftir annað í stöður til að bæta við marki eða réttara sagt mörkum. A.m.k. 2 dauðafæri litu dagsins ljós og enn fremur þvældust varnarmenn og markvörður gestanna ítrekað fyrir okkar mönnum þegar markið bókstaflega lá í loftinu. Í vel rúmar 20 mínútur voru Blikar í stórsókn meira og minna en náðu ekki að nýta sér yfirburðina. Alveg upp úr þurru fengu gestirnir svo sitt langbesta færi í leiknum þegar þeir geystust í skyndisókn upp hægri kantinn og voru 3 á móti 2 en fyrirgjöfin var blessunarlega allt of föst og rann hratt og örugglega fram hjá dauðafríum leikmanni gestanna við fjærstöngina og í innkast. Þar mátti litlu muna.

Skömmu síðar heimtuðu okkar menn vítaspyrnu þegar Höskuldi var hrint inn í og við vítateiginn en dómarinn lét það afskiptalaust. Fengum ekkert frá honum í kvöld, svo ekki sé nú meira sagt. En áfram hélt leikurinn. Oliver og Kristófer komu inn fyrir Viktor Karl og Davíð þegar 10 mínútur lifðu leiks og Kristófer var fljótur að láta reyna á markvörð gestanna með þrumuskoti sem var varið. Eftir þetta leystist leikurinn svolítið upp. Blikar héldu fengnum hlut og Skagamenn gerðu sig ekki líklega. Hentu þó í skiptingar til að freista þess að hrista upp í hlutunum en það gekk lítið hjá þeim. Blikar með öll tök á leiknum og létu boltann bara ganga sín á milli í rólegheitum. Kristinn Steindórs og Á síðustu mínútu uppgefins uppbótartíma innsigluðu okkar menn svo sigurinn þegar Ísak Snær skoraði stórglæsilegt mark. Hann fékk boltann eftir lagleg tilþrif Kristins Jóns og sendingu Höskuldar og afgreiddi boltann frá vítateigslínu í slána og inn, við samskeytin. Glæsimark.

Benjamin Stokke og Kristinn Steindórs komu svo inn fyrir Ísak og Aron. Skömmu síðar gall lokaflautið og Blikar fögnuðu góðum sigri og tylltu sér aftur á topp deildarinnar.

Þetta var fínn leikur hjá Blikum. Höfðu lengst af góð tök úti á vellinum og eftir að fyrsta markið kom hertu þeir enn tökin og sigurinn var mjög sanngjarn. Feykimikil barátta og vinnsla í liðinu allan tímann og seinni hálfleikurinn alveg sérlega góður og hefði átt að gefa fleiri mörk og fyrr.
Þetta var það sem fagmennirnir kalla alvöru liðsframmistöðu.

Næsti leikur er í Kaplakrika næsta sunnudag kl. 14:00. Þar eigum við harma að hefna frá í sumar þar sem við áttum alveg afleitan leik.
Þangað mætum við og leggjumst á árarnar með okkar mönnum.

Áfram Breiðablik !

OWK

@breidablikfc

2-0 sigur á ÍA - LETS GO ????????????

♬ original sound - Breidablik FC

Til baka