BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Úrslitakeppni BD 2024: Breiðablik - ÍA

20.09.2024 image

Heimaleikir Blika eru þrír. Gegn ÍA, Val og Stjörnunni. Árangur m.v. síðustu 5 í Bestu heima og úti. 

Eftir annan besta árangur Breiðabliks frá upphafi í hefðbundnu 22 leikja mót er komið að fyrsta leik í efri hluta úrslitakeppni Bestu deilar karla 2024 þegar Skagamenn mæta á Kópavogsvöll.

Flautað verður til leiks kl.19:15 á mánudaginn.

Miðasala á: Stubbur

Halldór Árnason sló nýliðamet á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns í fjögur ár. Dóri slær nýliðamet Heimis Guðjónssonar í stigafjölda í hefbundinni tvöfaldri umferð í 12 liða deild með því að landa 49 stigum. Heim­ir tók við liði FH fyr­ir tíma­bilið 2008, eft­ir að hafa verið aðstoðarþjálf­ari Ólafs Jó­hann­es­son­ar í nokkur ár - á fyrsta ári Heimis fékk FH liðið 47 stig sem dugði liðinu til að standa uppi sem Íslands­meist­ari þá um haustið. 

Blikaliðið er í 1. sæti eftir fyrstu tvær umferðirnar og er svo 2. sæti í 17 umferðir af 20. Breiðabliksliðið er taplaust í 9 síðustu umferðirnar og endar 22 leikja mótið í 2. sæti vegna lakari markatölu en Víkingur R. Lokastaðan 2024 eftir 22 leiki:

image

Sagan & Tölfræði

Innbyrðis leikir Breiðabliks og ÍA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 127. Skagamenn leiða með 64 sigra gegn 40 sigrum Blika - jafnteflin eru 23. 

Frá 1965 til 2000 unnu Skagamenn nánast alla mótsleiki liðanna þ.m.t. 20 leiki af 35 innbyrðis leikjum liðanna í Litlu bikarkeppninni sem Albert Guðmundsson átti stóran þátt í að setja á laggirnar, en hann var á þeim tíma spilandi þjálfari Hafnfirðinga (ÍBH). Albert gaf sem sgat farandbikar til keppninnar. Mótið var hugsað sem æfingamót fyrir „utanbæjarliðin" áður en Íslandsmótið hæfist, til mótvægis við Reykjavíkurmótið. Keppnin stóð yfir í 34 ár - frá 7. maí árið 1961 og lauk í maí 1995. Samtals vou spilaðir 850 leikir í Litlu bikarkeppninni. Árið 1996 hófst síðan nýtt mót, Deildabikarkeppni KSÍ (Lengjubikarinn), og hún tók því raun við af Litlu bikarkeppninni en þar voru hinsvegar öll lið með, utan Reykjavíkur sem innan. Skagamenn sigruðu Breiðablik 3-1 í fyrsta úrslitaleik Deildabikarsins sem leikinn var á grasvelli FH-inga í Kaplakrika um miðjan maí 1996. 

Lengjubikarinn (Deildabikar KSÍ) - Úrslitaleikur 2024

Fyrir keppnistímabilið 2024 lék Blikaliðið 7 leiki í Lengjubikarnum þ.m.t. úrslitaleikinn gegn Skagamönnum á Kópavogsvelli í lok mars. Með sigrinum tryggðum við okkur titil í mótinu í þriðja sinn og í fyrsta sinn síðan árið 2015. 

Tíðindamaður blikar.is skrifar "Sigur okkar stráka var í raun og veru aldrei í hættu.  Mörkin okkar voru hverju öðru glæsilegra og lofar þessi leikur góðu fyrir Íslandsmótið sem hefst eftir rúma viku. Við tókum forystuna með glæsilegu skallamarki frá Kristóferi Inga Kristinssyni á 23. mínútu eftir flotta fyrirgjöf Arons Bjarnasonar. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson bætti við öðru marki á snilldarhátt úr aukaspyrnu. Í seinni hálfleik komu tvö sannkölluð draumamörk. Fyrra markið setti Jason Daði eftir lúmska sendingu Andra Yeomans. Móttaka og vippa Jasons var á heimsmælikvarða! Og ekki var fjórða markið síðra. Höskuldur og Kiddi Steindórs léku sér að vörn Skagamanna og fyrirliðinn setti knöttinn örugglega í markið eftir að Kiddi hafði vippað knettinu skemmtilega yfir fjóra gulklædda varnarmenn.  Öruggur 4:1 sigur Blikaliðsins staðreynd."

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá 1971 eru 63. Vinningshlutfallið fellur með Skagamönnum - 33 sigrar gegn 21 - jafnteflin eru 9. 

Frá endurkomu Blikaliðsins upp í efstu deild árið 2006 fellur sigurhlutfallið með Blikum: 14 sigrar, 6 töp og 5 jafntefli

Innbyrðis leikir leiðanna í Bestu deild 2024:

Hópurinn

Skagapilturinn Oliver Stefánsson sem hefur leikið í grænu Breiðablikstreyjunni. Okkar maður, Ísak Snær Þorvaldsson, lék með Skagamönnum frá miðju ári 2020 og allt árið 2021.

image

Leikmannahópur Breiðabliks 2024

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn ÍA er fæddur í New Jersey í Bandaríkjunum en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Íslands þegar hann var fjögurra ára gamall. Hann ólst upp í Fellunum í Breiðholti og spilaði fótbolta með Leikni en var hrifnari af handbolta sem hann stundaði af kappi hjá ÍR. Þegar lífsins alvara skall á uppgötvaði Erik að hann gæti ekki borgað reikningana með handboltaiðkuninni, þrátt fyri að vera temmilega efnilegur, en kannski ekki alveg nægilega góður. Keppnisskapið hefur þó fylgt alla tíð síðan og gerir hann flest allar athafnir daglegs lífs að keppni, þótt það sé ekki nema að skreppa út í búð, iðulega í ímynduðum kappakstursleik við aðra í umferðinni og leggur hann jafnan áherslu á að vera á undan kassastarfsmanninum að setja í pokann í Bónus.

Erik kynntist starfi Breiðabliks í kringum 1995 þegar börnin fóru að stunda knattspyrnu, fyrst Ívar Erik sem hætti efnilegur eins og pabbi sinn og svo Andri Rafn sem er enn iðinn við kolann hjá Blikum. Margrét Dís mætti einnig á nokkrar æfingar en fannst fótboltann ekki jafn skemmtilegur og strákunum en hún fann taktinn síðar betur í fimleikum. Erik tók þátt í yngra flokka starfi sem umsjónarmaður og má að segja að hann hafi nánast séð alla Blikaleiki síðan þá, en hann fylgir liðinu um allt land og út fyrir landsteinana sömuleiðis.

Erik Yeoman - Hvernig fer leikurinn?

Það er alltaf erfitt að mæta ÍA, alveg frá fyrstu leikjunum í 7.flokki á Lottómótinu og upp úr þar sem dómararnir á Skaganum voru oft ansi hliðhollir heimamönnum í rokinu. Það verður  þó ekki tekið af Skagamönnum að þeir mæta í alla leiki með mikla orku og berjast af krafti allan tímann. Sem betur fer erum við á heimavelli í þessum leik þar sem fótboltinn mun sigra baráttuna svo lengi sem Blikar mæti í leikinn af baráttu. Ég held að Dóri haldi áfram þeim frábæra árangri sem hann hefur náð til þessa og sigli heim 2-1 sigri þar sem Andri Rafn skorar sjaldséð lokamark á lokamínútu leiksins með flugskalla. Verst þykir mér þó að missa af veislunni og neyðast til að horfa á leikinn í fjarlægð þar sem ég verð hjólandi um bakka Dónár í brakandi blíðu.

Áfram Breiðablik! Titilinn heim!

SpáBlikinn Erik Yeoman klár í hjólreiðatúr við bakka Dónár

Dagskrá

Flautað verður til leiks kl.19:15 á mánudaginn.

Miðasala á: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs. 

Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik. Píluspjöld í boði. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur úr síðasta leik liðanna á Akranesi í lok ágúst í sumar: 

Til baka