BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sardana dansinn dugði ekki til!

15.07.2022 image

Blikahraðlestin er komin áfram í Sambandsdeild Evrópu eftir góðan 4:1 sigur á liði Santa Coloma frá Andorra á Kópavogsvelli í gær. Sigurinn var nokkuð torsóttur enda börðust fjallaljónin frá Andorra hetjulega gegn Blikaliðinu framan af leik. En getumunur liðann var töluverður og að lokum tryggðum við okkur öruggan sigur. Við mætum því liði FK Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi í næstu umferð. Fyrri leikurinn verður á Kópavogsvelli næsta fimmtudagskvöld þ.e. 21. júlí kl. 19:15 en síðari leikurinn ytra viku síðar.

En þá að leiknum í gær. Þekktasti þjóðdans Andorra er kallaður Sardana. Dansararnir mynda hring eða langa röð og halda höndunum hátt upp í loftið til að framkvæma þennan hæga en þokkafulla dans. Lið Santa Coloma sýndi afbrigði af þessum dansi í leiknum í gær, svokallað Marratxa afbrigði. Sjá hér. Sá dans er töluvert hraðari en hinn hefbundni Sardana. Þetta virtist slá Blikaliðiðið töluvert út af laginu enda undirbjuggu þjálfararnir, Óskar Hrafn og Halldór, Blikaliðið undir hefðbundinn Sardana varnarleik.

Byrjuanrlið Breiðabliks: 

image

Blikaliðinu gekk því erfiðlega að  brjótast í gegnum dansandi varnarmúr gestanna. Reyndar fengum við nokkur ágæt tækifæri í fyrri hálfleik til að komast yfir en bæði Viktori Karli og Gísla brást bogalistin til að skora mark þrátt fyrir úrvalsfæri. Í staðin fyrir að komust gestirnir yfir á þrítugustu mínútu með ótrúlegu marki. Einn sóknarmanna Santa Coloma hætti í Marratxa taktinum og sendi knöttinn með Kung Fu sparki (sjá hér) yfir Anton Ara sem hafði hætt sér örlítið of framarlega í teiginn.

Markið kom eins og blaut tuska framan í leikmenn og áhorfendur. En sem betur fer vakti þetta liðið af  vondum draumi og hver annar en markavélin Ísak Snær jafnaði leikinn skömmu fyrir leikhlé með smekklegu marki. Það var því mun léttara yfir mannskapnum í stúkunni þegar gengið var til búningsherbergja.

image

Ísak Snær fagnar hér flautumarki fyrri hálfleiks.

Ljóst er að þjálfararnir hafa lesið yfir hausamótunum á liðinu í leikhléi því það var allt annað Blikalið sem mætti út á völlinn í síðari hálfleik. Hver sóknarbylgjan á fætur annarri skall á dansandi Andorravörninni og eitthvað hlaut undan að láta. Vendipunktur í leiknum kom á 50. mínútu þegar varnarmaður gestanna missti Sardana taktinn og baðaði út öllum öngum í trylltri breakdans sveiflu á marklínu. Sjá hér. Að sjálfsögðu var dæmt tæknivíti á slíka vitleysu og þetta var Andorra mannsins hinsti dans í þessum  leik.  Það var besti maður vallarins Höskuldur Gunnlaugsson sem skoraði af öryggi af vítapunktinum.

image

Bliki leiksins og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson skorar örugglega úr vítinu.

Eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Andri Rafn og Kristinn Steindórs bættu við mörkum með stuttu millibili og af gestrisninni einni saman þá ákvað Blikaliðiðið að láta það nægja. Þjálfararnir skiptu nokkrum leikmönnum inn á til að dreifa álaginu enda er stíf leikjadagskrá framundan.

image

Markahrókurinn Andri Rafn Yeoman fagar (laumu) markinu sem hann skoraði.

image

Kristinn Steindórs að skora eftir að boltinn barst til hans.

Það gladdi sérstaklega margan Blikann í stúkunni þegar Elfar Freyr Helgason skokkaði út á völlinn eftir næstum því tveggja ára fjarveru. Þessi frábæri varnarmaður hefur glímt við erfið meiðsli en vonandi fáum við að sjá meira af honum á næstunni. Einnig fengu Adam Örn, Kristinn Steindórsson, Anton Logi og Omar Sowe að spreyta sig í leiknum. 

image

Omar Sowe með boltann. Hann kom sterkur inn í leikinn að venju.

image

Dagur Dan í hæstu hæðum!

image

Adam Örn fekk mikilvægar mínútur.

Næsta verkefni Blikaliðsins er suður með sjó á sunnudagskvöldið. Við heimsækjum bítlabæinn Keflavík og mætum þar frísku liði heimapilta. Þeir hafa verið á mikilli siglingu á undanförnum vikum. Við eigum ekki góðar minningar frá þessum velli en strákarnir okkar eru staðráðnir í því að bæta fyrir það á sunnudaginn. Þetta verður því hart Kópavogsrapp sem sem strákarnir okkar ætla að sýna gegn bítlabítinu.

Áfram Blikar, alltaf alls staðar!

Kópaaavogur

-AP

Myndaveisla í boði BlikarTV: 

image

Mörkin úr leiknum í boði visir.is: 

Til baka