BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á Stjörnunni!

22.05.2024 image

Blikar unnu góðan 2:1 sigur á bláklæddum nágrönnum okkar úr Garðabænum í Bestu deild karla í gærkvöldi. Sigurinn var torsóttur en með seiglu og smá heppni náðum við að landa stigunum þremur sem í boði voru. Það voru þeir Patrik Johannessen og Jason Daði Svanþórsson sem settu mörkin dýrmætu á Kópavogsvelli í gær.

Breiðablik og Stjarnan hafa marga hildina háð í gegnum tíðina. Stjarnan var stofnuð árið 1960 þegar heimaslóð félagsins var nefnd Garðahreppur. Fyrstu áratugina var liðið ekki hátt skrifað og tapaði meðal annars fyrir Augnablik árið 1982 í 4. deild. En smám saman reis stjarna liðsins og undanfarin ár hefur liðið verið eitt af betri liðum á Íslandi. Tölfræðin í innbyrðisliðum þessara leikja er áhugaverð. Liðin hafa spilað 71 leik frá upphafi og höfum við unnið 32 en Stjarnan 27. Jafnteflin eru 12. Í efstu deild eru leikirnir 40. Okkar piltar hafa með sigrinum í gær unnið 21 en Garðbæingar hafa ellefu sinnum haft yfirhöndina.

Við þurftum töluvert að hafa fyrir sigrinum í gær. Við byrjuðum reyndar frábærlega strax á fimmtu mínútu þegar Patrik skoraði gott mark eftir að markvörður gestanna hafði varið skot frá Kristni Steindórssyni. Mjög ánægjulegt var að sjá í leiknum í gær hve Patrik kom frískur inn í byrjunarliðiðið.

En eins og flestir Blikar vita þá meiddist Færeyingurinn knái illa í byrjum móts í fyrra og er fyrst núna að komast í gang. Þetta lofar góðu varðandi framhaldið!

En því miður létum við ekki kné fylgja kviði og Stjarnan tók frumkvæðið í leiknum. En vörnin okkar hélt vel með Kristinn Jónsson fremstan meðal jafningja. Það kom því ekki á óvart að hann var valinn besti maður vallarins, bæði af Blikum og hjá Gumma Ben og félögum i Stúkunni. Undir lok háfleiksins áttum við hins vegar snarpa sókn og eftir að Patrik hafði mistekist að klippa knöttinn í netið barst tuðran til Jasonar Daða sem skoraði með bylmingsskoti.

Damir skrikaði óheppilega fótur rétt áður en dómarinn flautaði til leikhlés og nartaði örlítið i hælinn á sóknarmanni Stjörnunnar. Dómarinn var miskunarlaus og dæmdi víti. Gestirnir náðu því að minnka muninn og staðan 2:1 þegar liðinu gengu til búningsherbergjanna.

Við hófum síðari hálfleik með töluverðum krafti og hefðum átt að gera út um leikinn á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. En það gekk ekki eftir og þeir bláklæddu gerðu harða hríð að okkar marki það sem eftir lifði leiks. Sem betur fer náðu varnarmenn okkar að skalla allt í burtu og ákvörðunartaka þeirra bláklæddu upp við vítateigin myndi ekki fá hæstu einkunn í Knattspyrnuskóla Kristjáns Bernburg í Belgíu. Lokatölur urðu því 2:1 og fögnuðu stuðningsmenn Blika í stúkunni gríðarlega enda 2. sætið okkar í bili.

Það var margt gott í okkar leik í gær en svo annað sem við getum bætt. Boltinn flaut vel á milli manna og Anton Ari átti skínandi leik í markinu. Svo var ánægjulegt að sjá Oliver Sigurjónsson á vellinum á nýjan leik. Áhorfendur hafa saknað þess að fá ekki ,,partý í stúkunni“ dansinn eftir sigurleiki. Við þurfum hins vegar að vera óhræddari að taka boltann niður og spila. Í leiknum í gær vorum við of oft í nauðvörn að dúndra fram í stað þess að róa spilið niður. En aðalatriðið var samt að við náðu í stigin þrjú!

Næsti leikur verður áhugaverður. Þá förum við í grænmetisferð upp í Úlfarsárdalinn á Lambhagavöllinn og mætum einu frískasta liði deildarinnar Frömurum. Okkur hefur gengið vel þar undanfarin ár en Framliðið í ár er mun sterkara en undanfarin ár. Þá er mikilvægt að stuðningsmenn Blika mæti vel og hvetji strákana okkar til sigurs!

-AP

Til baka