BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sítrónugulur góður dagur

26.08.2024 image

Sól skein í heiði sunnudaginn 25. ágúst á Skipaskaga þegar leikmenn Breiðabliks og ÍA gengu inn á fagurgrænan og skraufþurran völl heimamanna. Samkvæmt vísindalegum mælingum voru tveir metrar á sekúndu og hiti 10,7 gráður þegar flautað var til leiks. Rétt er að taka fram þegar í upphafi að hér er átt við kaupstaðinn, ekki samnefnt ræktunarbú sem hefur það markmið að búa til stór, falleg og léttbyggð hross með mikla hæfileika og gott geðslag.

En aftur að málefni dagsins. Piltarnir úr þessum gamla útgerðarbæ hafa verið á mikilli siglingu og lögðu meðal annars stjörnum prýtt lið Víkings á útivelli fyrir sex dögum. Okkar fóru líka í gegnum göngin fullir sjálfstrausts, nýbúnir að gjörsigra hið sögufræga lið Fram og deildu þannig toppsætinu með nefndu stjörnuliði. Ekki spillti fyrir að Blikastelpur rúlluðu upp Víkingi fyrr um daginn og stuðningsmennirnir á pöllunum voru vígreifir eftir hið glæsilega mót Breiðablik Open á föstudaginn.

Það mátti því búast við harðri viðureign undir Akrafjalli.

Stöðubarátta

Damir var ekki á skýrslu – væntanlega meiddur eftir síðasta leik – og Kristinn Steindórsson í banni. Obbekjær og Viktor Karl komu inn í þeirra stað en að öðru leyti var liðið þannig skipað:

Heimamenn komu vel stemmdir til leiks. Þeir gerðu harða hríð að marki Kópavogspilta en afmælisbarn dagsins, Anton Ari (30), varði í tvígang vel á upphafsmínútunum. Að öðru leyti fór leikurinn rólega af stað. Hvorugt liðið skapaði sér nein teljandi færi. Á þrítugustu mínútu tók Höskuldur hins vegar hornspyrnu, heimamaður flikkaði boltanum snyrtilega aftur fyrir sig og stefndi allt í glæsilegt sjálfsmark þegar bjargað var á línu. Fyrri hálfleikur einkenndist með öðrum orðum af mikilli stöðubaráttu. Heimamenn þó öllu líklegri.

Guð og gæfan

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum. Að vísu setti Obbekjær boltann algjörlega fumlaust í netið af stuttu færi eftir sjö mínútur en rangstaða dæmd. Nema hvað. Sex mínútum síðar óð ÍA-maður upp vinstri kantinn, fram hjá manni og öðrum, eins og í ljóði eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur um heimaliðið: „Þjóta í hópum / þrekmenn kátir / ótrauðir áfram veg.” Skagaþrjóturinn sendi fyrir og þar skallaði félagi hans boltann af miklu harðfylgi í markið. Nú voru góð ráð dýr. Og ekki laust við að tíðindamaður hins trausta miðils velti fyrir sér hvort „guð / [væri] fastur í húsarústum // sítrónugulum á góðum degi,“ svo vitnað sé aftur í Akranesskáldið Sigurbjörgu. Höfðu guð og gæfan yfirgefið okkar menn?

Glímt við trukkaflota

Skömmu síðar gerði Halldór breytingar á sínu liði. Kristófer Ingi kom inn á fyrir Davíð og Patrik fyrir Viktor Karl. Þetta hleypti nýju lífi Blika. Dró nú heldur betur til tíðinda. 82 mínútur á klukkunni. Skagamenn búnir að leggja gjörvöllum bílaflota ÞÞÞ fyrir framan markið. Og allir fastir í lága drifinu. Skagamenn afar hægir í öllum sínum aðgerðum.  Það var varla að blóðið hnigi í þeim þegar þeir tóku innkast eða markspyrnu. Þeim lá með öðrum orðum ekkert á. Berst þá ekki boltinn inn í teig Akurnesinga utan af hægri kanti þar sem Kristófer Ingi  kemur aðvífandi, stingur sér fram fyrir einn sextán hjóla trukkinn og skorar af miklu harðfylgi. 1-1.

image

Fyllsta kurteisi

Aftur gerði Halldór breytingu og setti Stokke inn á fyrir Andra Rafn sem var alblóðugur um munninn. Einhver hefði sagt að þetta væri eins og í einni glæpasögunni í Akranesbálki Evu Bjargar Ægisdóttur, Strákar sem meiða. Þessi skipting benti til þess að Blikar væru ekki að spila upp á jafntefli, enda toppsætið í húfi. Skiptur hlutur væri ágætur úr því sem komið var – en ekki nóg. Aron átti sendingu eða skot utan af kanti sem stefndi lóðbeint yfir markmann ÍA í hornið fjær, svo mjög að Ísak Snær var farinn að fagna – en knötturinn lenti á ofanverðri þverslánni.

90 mínútur á klukkunni. 360 sekúndum bætt við. Blikar fengu hornspyrnu. Heimamenn náðu boltanum og brunuðu af stað og heldur fáir til varnar, enda búið að henda öllum fram. Ætluðu þeir að stela sigrinum? Patrik ákvað hins vegar að ganga gegn því sem talið er helsta einkenni Færeyinga, að vera „blíir og góir“, og tók þann sem rauk af stað með boltann ljúfmannlega niður og af fyllstu kurteisi. Að vísu var dómarinn ekki sammála aðferðinni og skenkti honum gult spjald.

Af fornfrægum stórveldum

Klukkan tifaði. Enn sóttu Blikar. Gáfu fyrir, en vörubílastöðin sturtaði boltanum út á kant þar sem Kristinn Jónsson var fyrir. Hann sendi óðara í áttina að teignum. Höskuldur var nánast felldur við vítateiginn og tóku margir að gráta það gullna, glataða færi, minnugir marks Patriks á móti Fram, nema hvað boltinn barst í sömu svifum inn í teiginn, Ísak teygði sig í hann og var keyrður niður, enda kannski varla við öðru að búast með ellefu trukka úr flota ÞÞÞ í kringum sig.

210 sekúndur liðinar af uppbótartímanum.

Höskuldur fór á punktinn, alveg ískaldur, enda hitinn kominn niður í 9,2 gráður, rakastigið 72 prósent – en öryggi fyrirliðans var aftur á móti ríflega hundrað prósent.

Þetta er líklega það næsta sem okkar menn hafa komist því að skora flautumark í sumar. 1-2.

image

Glæstir sigrar Blika á Val, Fram og Skagamönnum í síðustu leikjum – þessum fornfrægu stórveldum í íslenskrar knattspyrnusögu – sýna svo ekki verður um villst að það er töggur í okkar mönnum. Enda lýgur taflan ekki. Breiðablik er í efsta sæti í Bestu deildinni – þó að Víkingar eigi að vísu leik til góða. En þeir þurfa að þá líka að sigra í þeim leik – hvenær svo sem hann kann að fara fram.

Gestirnir í stúkunni sungu afmælissönginn fyrir Anton Ara í lokin á þessum sítrónugula góða degi en hann hefur sannarlega komið sterkur inn í undanförnum leikjum. Næst mæta okkar menn KA nyrðra. Það gæti orðið afar áhugaverður leikur!

PMÓ

Til baka