BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sýnd veiði en ekki gefin

03.07.2022 image

Blikar lögðu land undir fót, eða réttara sagt óku í langferðabifreið og sigldu svo til Eyja, að etja kappi við heimamenn á eyjunni fögru á laugardegi s.k. Goslokahátíðar.
Og þó þetta væri 12. leikur okkar manna var þessi leikur  í 11.umferð Bestu deildarinnar, því leikurinn við KR á dögunum var úr 12. umferð. Þetta skiptir ekki öllu máli en, rétt að taka þetta fram til að hafa skikk á hlutunum svo óstöðugir ærist ekki, séu þeir í sokkunum öfugum í onálag.
Í Eyjum var veður hið besta, sól og 12 stiga hiti á celsíuskvarðanum. Blés úr öllum áttum sitt á hvað eins og svo oft í og við Herjólfsdal en mest þó af norðvestan. Völlurinn skraufþurr. Það kom ekki á óvart. Staða liðanna mjög ólík, Blikar á toppnum með 30 stig en heimamenn á botninum með aðeins 3. Fjöldi Blika mættur á völlinn og létu vel í sér heyra með Kopacabana og gjallarhornið í fyrirrúmi.

Byrjunarlið okkar manna var svona:

image

Viktor Örn, Jason og Gísli í byrjunarliðinu að nýju í stað Mikkels, Viktors Karls og Olivers, sem var ekki í hóp. Aðrir á bekknum Brynjar Atli, Elfar Freyr, Adam Örn, Andri Rafn og Omar. Ekki amalegur bekkurinn hjá Blikum.

Leikurinn hófst með látum og Blikar fljótlega komnir í færi þangað til flaggið fór á loft í fyrsta sinn, en ekki það síðasta. Svo fengu heimamenn sénsinn en ekkert varð úr. Á 10. mínútu fengu Blikar svo dauðafæri en markvörður ÍBV varð vel frá Ísaki, Jason hirti frákasti og náði skoti en þá bjargaði varnarmaður á línu og enn var frákast, sem Ísak náði en hann var réttilega dæmdur rangstæður. Blikar með yfirhöndina en heimamenn gáfu ekkert eftir og djöfluðust í okkar mönnum og gáfu lítinn tíma. Næsta hálftímann var þetta sitt á hvað. Blikar meira með boltann og áttu slatta af lofandi upphlaupum og komust í færi en vantaði að reka endahnútinn á sóknirnar. Ýmist klikkaði ,,lokasendingin“ eða þá skotin ekki alveg nógu góð til að sleppa framhjá markverði heimamanna. Heimamenn fengu, eins og Blikar slatta af hornspyrnum, en þær sköpuðu litla hættu, enda okkar menn grimmir inni í eigin teig, sem fyrr. Sóknarmenn Blika fengu lítinn frið og voru í stöðugum pústrum við heimamenn og oftar en ekki komust varnarmenn upp með að toga og ýta en mjögt oft leyst úr málum með því að dæma á sóknarmenn okkar. Skrýtnir dómar og eiginlega framhald af arfaslakri dómgæslu þessa sama dómara uppi á Skaga um daginn. Undirritaður skilur ekki hvað þessi dómari fær jafnan góða krítik hjá sérfræðingunum á miðlunum. En nóg um það, og kannski síðar.
Hálfleikurinn rann sitt skeið án frekari stórtíðinda en Blikar örugglega súrir að hafa ekki náð marki þegar þarna var komið.

Í Eyjum hefst lundaveiðtímabilið ekki fyrr en um næstu mánaðarmót, en samt er um fátt meira talað á þeim bænum. Gríðarleg eftirvænting hjá heimamönnum að þessu sinn þar sem það verður nú helmingi lengra en í fyrra, eða 2 vikur. Annars var kaffið gott og kleinurnar sömuleiðis. Leikurinn í járnum.

Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri. Blikar heldur meira með boltann en engin færi fyrstu mínúturnar. En á 10. mínútu eða þar um bil voru Blikar stálheppnir að lenda ekki undir en Anton Ari kom í veg fyrir það með tvöfaldri markvörslu. Skömmu síðar komust Blikar í gott færi eftir hraða sókn en skot Höskuldar var varið. Skömmu síðar gerðu Blikar tvöfalda skiptingu. Kristinn og Anton Logi fóru af velli og inn komu Viktor Karl og Omar Sowe. Áfram hélt barningurinn en Blikar gerðu svo harða hríð að marki heimamanna, fyrst var það Omar með gott skot sem varið var í horn og skömmu síðar var mikið at í vítateig ÍBV sem lauk með því Gísli átti skot úr mjög erfiðri stöðu en boltinn fór hátt yfir markið. Svo hitnaði vel í kolunum þegar mjög gróflega var brotið á Ísaki og sá brotlegi hlammaði sér svo ofan á hann í þeim eina tilgangi að meiða hann. Ísak brást heldur illa við þessu og kom til snarpra handalögmála á staðnum. Áfram hélt leikurinn og baráttan sem fyrr í fyrirrúmi en minna um falleg tilþrif, þó þau sæjust. Bæði lið fengu slatta of horn- og aukaspyrnum en náðu ekki að nýta til marka. Litlu munaði þó að Eyjamenn gerðu sér mat úr síðustu hornspyrnu Blika þegar þeir geystust í skyndisókn sem lauk með því að örþreyttur sóknarmaður átti mislukkað skot af 35 metra færi sem fór fram hjá marki okkar manna. Þarna hefði getað farið illa.
Þar með lauk þessum baráttuleik og enn eitt jafnteflið í Eyjum staðreynd.

Við fengum færi til að klára þennan leik en það var stöngin út að þessu sinni. Í lokin hefðu svo heimamenn getað stolið þessu en það hefði verið ósanngjarnt.
En það vantaði sannarlega hvorki vilja né baráttu hjá okkar mönnum í þessum leik, og á meðan svo er þarf engu að kvíða. Gæðin skila sér svo næstum alltaf.

Nú halda Blikar til Andorra þar sem þeir mæta heimamönnum n.k. fimmtudag og svo aftur 14.júlí í Smáranum.

Það verður örugglega spennandi og skemmtilegt.

Áfram Breiðablik

OWK

Til baka