BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stoltir Blikar í lok Evrópu ævintýris

11.08.2022 image

Skal játa að ég átti nú ekki endilega von á að Blikum tækist að vinna upp forskot Tyrkjanna úr fyrri leiknum, forskot sem mér fannst ekki fyllilega sanngjarnt ef út í það er farið, en það er víst ekki mikið spurt að því.

Þessir andstæðingar eru erfiðir. Svo við setjum hlutina í samhengi þá eru þeir, í 65. sæti á styrkleikalista UEFA, nokkuð langt fyrir ofan aðra andstæðinga sem komu til greina - auðvitað er það miðað við langtíma árangur, en það er ekki svo langt síðan liðið var í meistaradeildinni, vann ma. Manchester United, hefur verið að styrkja sig og ætlar sér stóra hluti.

Ekki er mér neitt illa við Tyrki - frekar en aðrar þjóðir - og þær fáu stundir sem ég hef átt þar hafa verið einstaklega ánægjulegar. En mér þykja stjórnvöld þar í landi ekkert sérstaklega geðfelld og þau virðast vera nátengd þessu félagi. Þannig að það hefði nú verið nokkuð góður bónus ef Blikum hefði tekist að slá þá út.

En að leiknum, hitinn var um 23 gráður, amk. heima í stofunni hjá mér, en ég náði ekki að ferðast með.. og ef ég skil rétt var hitinn eitthvað meiri þarna úti.

Byrjunarliðið var svona:

image

Ísak var meiddur og ferðaðist ekki með, Mikkel, Omar, Andri Rafn og Dagur Dan komu inn.

En leikurinn byrjaði svo sem ekki illa og liðið hélt boltanum ágætlega og vann strax aftur ef hann tapaðist. En eftir fyrsta korterið fór þetta aðeins að snúast við, boltinn að tapast kannski óþarflega oft án (mikillar) pressu og amk. í tvígang voru leikmenn Basaksehir nánast einir í eða við markteig og nokkur horn voru svo sem ekki til að róa taugarnar.

Tvö gul spjöld á Blika, Omar fyrir ansi litlar sakir og Andri Rafn fyrir að stöðva sókn, sennilega réttilega.. nú er ég ekki með tölfræðina á hreinu en ætli þetta sé meira en annað gula spjaldið sem hann fær á ferlinum?

image

Andri Rafn Yeoman í leiknum í kvöld. Andri Rafn er leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 392 mótsleiki - þar af 24 Evrópuleiki.

Samt leit þetta ekkert illa út og Blikar áttu nokkrar fínar sóknir. Rétt þegar ég hélt að það yrði þó jafnt í hálfleik nær Basaksehir fínni sókn, vel útfærð hjá þeim en það voru ekki nema einhverra sentimetra (millimetra) spursmál að Blikum tækist að komast í boltann. En það munar oft um millimetra á þessu stigi.

Gísli fékk svona aukaspyrnu á fínum stað í uppbótartíma, tók sjálfur en kom ekki yfir varnarvegginn - eitthvað var ég að reyna að senda hugskeyti til að koma þeirri hugmynd á framfæri að Höskuldur tæki þetta, en væntanlega hafa þeir verið búnir að undirbúa þetta.

En engan veginn afleitt og ég gat alveg séð fyrir mér að það mætti amk. jafna þennan leik í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði mjög vel, tvisvar var ég búinn að bóka mark, Viktor Karl og Höskuldur hefðu einhvern tíma skorað úr þessum færum – aftur talandi um „millimetra“.

En svo fór aðeins að draga af, fínir kaflar og margt jákvætt - en mistökum fór aðeins fjölgandi og ég var hættur að standa upp úr stólnum tilbúinn að fagna marki.

Ég reyndi aftur hugskeytaaðferðina, í þetta sinn að skjóta þeirri hugmynd að þjálfarateyminu að það mætti kannski fara að hvíla lykil leikmenn fyrir baráttuna hér heima og leyfa, til dæmis, yngri leikmönnum að sækja smá reynslu.

Nú veit ég ekki hvernig hugskeyti virka (ef þau virka þá yfirleitt) en þau voru ansi lengi á leiðinni - enda langt til Istanbúl - og það var ekki fyrr en mjög lítið var eftir sem þau virtust komast til skila og við sáum þessar skiptingar.

Jú, ég var að gleyma að nefna tvö mörk sem heimamenn skoruðu, kannski er ég viljandi að reyna að gleyma, tapaður bolti og vörnin ekki alveg á tánum eða nægilega vel samstillt, hefði nú sennilega sloppið á móti lakari andstæðingum - en leikmenn í þessum gæðaflokki eru ekkert að gefa afslátt.

En ekkert annað en að vera stoltur af frammistöðunni, því að þó hlutirnir væru ekki alltaf að detta með, þá var liðið allan tímann að spila sinn fótbolta.

Og ekki gleyma að þessu reynsla gerir ekki annað en að styrkja liðið fyrir komandi vikur.

Valgarður Guðjónsson

image

Mynd: Skjáskot / Breiðablik

Blikahópurinn sem fór til Isanbul að þjappa sér saman eftir leikinn í kvöld.

Þau lögðu lögðu hálfa Evrópu undir fót og ferðuðust liðlega 8000 km fram og til baka til Istanbul í Tyrklandi til að spila seinni leikinn við Istanbul Basaksehir í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA 2022/2023. Hópurinn átti við ofurefli að etja og tapaði leiknum 3:0 - og rimmunni samanlagt 6:1. Fyrir þáttökuna í Sambandsdeild Evrópu 2022/203 var mesti árangur Blikamanna í Evrópukeppnum að klára 3 umferðir árið 2013 og í fyrra. Markmið næsta árs hlýtur að vera að klára a.m.k. 3. umferðir - þriðja árið í röð. Stoltir Blikar þakka fyrir sig. 

Til baka