BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórskotahríð í Guðs friði

07.10.2024 image

Á leiðinni á Kópavogsvöll sunnudagskvöldið 6. nóvember fann tíðindamaður Blikar.is snjallúrið titra rétt fyrir neðan Digraneskirkju, við lækinn sem kallaður hefur verið ýmsum nöfnum. Skilaboð höfðu borist frá góðum vini úr Garðabæ: „Verði þér að góðu!“ Stjarnan var komin yfir á móti Víkingi sem hentaði Blikum afskaplega vel í toppbaráttunni. Víkingar og Blikar voru sem sagt að morgni dags jafnir að stigum þegar þrír leikir voru eftir af úrslitakeppninni.

Í því er tíðindamaðurinn gekk inn í Græna herbergið á Kópavogsvelli jöfnuðu Víkingar aftur á móti metin við lítinn fögnuð þeirra fjölmörgu sem þar voru mættir til að fylgjast með lokamínútunum í Fossvogi. Aftur náði Stjarnan forystunni svo að undir tók í Smáranum og aftur titraði úrið: „Takk fyrir. Vessgú!“ Skömmu síðar: „Hvernig urðu þessar 7 mínútur til???“ þegar uppbótartíminn var tilkynntur. Og ef sumarið hefur kennt manni eitthvað þá eru Víkingar hvað erfiðastir viðureignar á þeim mínútum – enda jöfnuðu þeir áður en klukkan glumdi.

Guð blessi Ísland

Það var þriggja stiga hiti og logn þegar lið Breiðabliks og Vals gengu inn á Kópavogsvöll. Og kannski við hæfi að Blikar mættu hinu kristilega félagi frá Hlíðarenda daginn sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland fyrir sextán árum. Blikar í svörtu. Valsmenn í rauðu.

Lið okkar manna var þannig skipað:

Liðið sem upphaflega hét Fótboltafélag KFUM hóf leikinn af krafti. Danski framherjinn þeirra lét þegar á fyrstu mínútu Anton Ara finna rækilega fyrir sér þegar hann keyrði inn í hann uppi við endamörk. Heiðarlegir varalesarar voru vissir um að hann hefði látið fylgja: „Fremad, Herrens stridsmænd; ud til kamp og sejr“. Einhver hefði kannski sett spurningarmerki við þann kristilega kærleika sem þarna birtist. „Helvíti pressa þeir,“ heyrðist í stúkunni. En þar með var eiginlega allur vindur úr KFUM-drengjum. Okkar menn tóku öll völd og létu skotin vaða. Það var allt að því óþægilegt að sitja í syðri hluta stúkunnar og snúa höfðinu stöðugt til norðurs þar sem allur atgangurinn var. Kvað jafnvel svo rammt að þessu að menn voru farnir að kvarta undan hálsríg.

Sjaldséð mistök

Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar varnarmenn Blika gerðu sig seka um sjaldgæfan vandræðagang á 21. mínútu sem kostaði það að Valsmaður komst einn í gegn og vippaði snyrtilega yfir Anton Ara. Staðan orðin 1-0 – þvert gegn gangi leiksins.

Áfram héldu okkar menn árásum sínum á vörn Vals. Tíu mínútum síðar heimtuðu þeir víti – rétt eins og gjörvöll stúkan –  þegar Davíð var þrumaður niður í/á/við teiginn. Dómarinn valdi síðasta kostinn og dæmdi aukaspyrnu. Upp úr henni fengu okkar menn horn sem lauk með hörkuskoti sem allir réttsýnir menn töldu að hefði farið í hönd varnarmanns en dómarinn var á öðru máli. Litlu síðar urðu okkar mönnum aftur á mistök í vörninni og aftur komst Valsmaður einn í gegn – en nú var bjargað.

Áfram létu okkar menn skotin vaða, ýmist yfir eða þau voru varin.

Íslandsmeistararnir hylltir

Áður en gestir yfirgáfu stúkuna í leikhléi voru nýbakaðir Íslandsmeistarar Blika í kvennaflokki hylltir en árangur þeirra í sumar er einstaklega glæsilegur. Þær unnu fleiri leiki en önnur lið. Þær skoruðu fleiri mörk en nokkurt annað lið og þær fengu fæst mörk á sig í deild þeirra bestu. Til hamingju stelpur! Nánar hér. 

Í hálfleik veltu menn vöngum yfir því hvað væri eiginlega í gangi. Af hverju komu Blikar ekki boltanum í netið? Sumir töldu lýsinguna óhagstæða okkar mönnum en almennt ríkti bjartsýni; allt hefði sinn tíma, eins og segir í B-I-B-L-Í-U, þar með það að skora. Okkar menn myndu snúa þessu við. Við ættum Kristófer á bekknum. Ísak væri líklegur. Aftur á móti viðraði grandvar maður efasemdir sínar um markanef Davíðs. Jú, jú, hann ætti fínar fyrirgjafir en honum virtist fyrirmunað að koma boltanum í netið. Meira um það síðar.

Einn lítinn stein í slönguna lét

Síðari hálfleikur hófst eins og þeim fyrri lauk. Okkar menn sóttu. Gestirnir vörðust. Valsmenn lágu aftarlega með alla sína menn. Kannski hafði þjálfarinn látið þá syngja í klefanum KFUM-lagið góða „á bjargi byggði hygginn maður hús“ osfrv. Nema hvað. Davíð sem átti ekki að geta skorað að sögn sessunautarins tók til sinna ráða eftir tíu mínútna leik og þrumaði boltanum í netið utarlega úr teignum og staðan jöfn.

Tveimur mínútum síðar traðkaði einn af fyrrum landsliðsmönnum Vals fólskulega á Ísaki og aukaspyrna réttilega dæmd. Ekki var leikmaðurinn sáttur við það og taldi sig eiga eitthvað vantalað við dómarann. Mögulega var hann að útskýra fyrir flautumanninum að hann væri ekki fótgönguliði, í riddarliði eða stórskotaliði, hvað þá í flughernaði heldur „ég er hermaður Krists!“ Og uppskar gult spjald fyrir. Áfram héldu Blikar að ógna marki Vals en þá þurftu hinir rauðklæddu endilega að álpast fram völlinn og skalla boltann í netið.

Okkar menn létu þetta ekki á sig fá heldur héldu áfram að ógna marki Vals. Höskuldur komst í gegn en skot hans af markteig var varið. Ísak skallaði – varið. En eitthvað varð undan að láta. „Hann Davíð var lítill drengur, / á Drottins vegum hann gekk. / Hann fór til að fella risann / og fimm litla steina hann fékk. / Einn lítinn stein í slönguna lét …“ er sungið í KFUM. Og það var ekki að sökum að spyrja. Maðurinn sem átti ekki að geta skorað þrumaði boltanum í netið öðru sinni, nú af vítateigshorninu, og aftur var jafnt.

Varið umfram skyldu

Korter eftir af venjulegum leiktíma. Kristófer og Stokke voru komnir inn á fyrir Viktor Karl og Kristin Jónsson. Áfram herjuðu okkar menn á mark Valsmanna sem voru nú farnir að tefja enn meira en áður, eins og þeim væri núna jafnvel borgað ennþá meira fyrir það. Kristófer skaut yfir. Markvörðurinn tók óratíma í útsparkið. Kristinn Steindórs skaut í hliðarnetið af markteig. Markvörðurinn tók óratíma í útsparkið. Stokke skallaði yfir eftir horn. Markvörðurinn tók óratíma í útsparkið – og nú voru menn farnir að óttast að hann myndi forkælast í þessu gaufi sínu. Höskuldur átti bylmingsskot fyrir utan teig. Boltinn stefndi í hornið niðri en markvörðurinn náði að teygja fingurgómana í hann svo að knötturinn söng í stönginni og fór þaðan í horn. Skömmu síðar vörðu Valsmenn á línu. Stokke skallaði yfir eftir horn. Og þar með lauk rimmunni við Hlíðarenda-KFUM.

Okkar menn voru óheppnir að landa ekki sigri í kvöld. Þeir áttu 28 á skot, þar af níu á markið. Valsmenn skutu átta sinnum á mark heimamanna, þar af fóru þrjú á rammann. Tíu horn á móti þremur. Blikar 66% leiksins með boltann. Guð og lukkan voru með öðrum orðum saman í liði með Hlíðarendapiltum. En það sýndi sig líka í kvöld að einhver ástæða er fyrir því að markvörður þeirra var í íslenska landsliðinu á HM. Í kvöld varði hann a.m.k. óþarflega mikið umfram skyldu.

Að kveldi dags voru Víkingar og Blikar enn jafnir að stigum en nú eru tveir leikir eftir af úrslitakeppninni. Fram undan eru æsispennandi lokaumferðir eftir landsleikjahléð þar sem Kópavogspiltar mæta Stjörnunni og Víkingi, heima og heiman. Þetta er samt ekkert sérstaklega flókið. Ef Blikar vinna báða leiki feta þeir í fótspor stelpnanna og hefja skjöldinn á loft í lok október.

PMÓ

Til baka