BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Úrslitakeppni BD 2024: Breiðablik - Valur

03.10.2024 image

Heimaleikir gegn: ÍA, Val og Stjörnunni - árangur m.v. síðustu 5 í efstu deild.

Úrslitakeppni BD 2024

Það er komið að þriðju umferð úrslitakeppni Bestu deildar karla og baráttan um titilinn heldur áfram á fullum krafti þegar frískir Valsmenn mæta á Kópavosgvöll á sunnudagskvöld en Hlíðarendaliðið er í bullandi baráttu við Stjörnumenn um Evrópusæti. Enn stefnir allt í kláran úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í lokaleik mótsins í Víkinni 27. október.

Miðasala á Breiðablik - Valur er á: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Staða Breiðabliksliðsins eftir tvær umferðir af fimm í efri hluta úrslitakeppninnar - liðið er í 2. sæti með 55 stig og hefur ekki tapað leik í síðustu 11 umferðum - þar af eru sigrar 7 umferðir í röð:

image

Leikir gegn Val 2024

Við erum mættir aftur! "Blikar unnu frábæran 0:2 sigur á Valsmönnum á Híðarenda í gær í Bestu deild karla. Þetta var heilsteyptasti leikur liðsins í sumar og var hrein unun að sjá Blikaliðið spila. Fyrir utan kafla í fyrri hálfleik þá voru þeir grænklæddu mun sterkari í leiknum og áttu þennan sigur svo sannarlega skilið.":

Tár, bros og takkaskór! "Þrátt fyrir að hafa tapað 2:3 fyrir Valsmönnum í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í gærkvöldi geta Blikastrákarnir borið höfuðið hátt. Leikurinn hafði allt upp á að bjóða sem prýðir góðan knattspyrnukappleik. Hraða knattspyrnu, glæsileg mörk, töluverðan hita, smá dónaskap og hasar.":

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik eru 105. Valsmenn leiða í tölfræðinni með 44 sigrar gegn 40 - jafnteflin eru 21.

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru alls 78. Valsmenn leiða 32 sigra gegn 30 - jafnteflin eru 16. Nánar

Í 38 viðureignum liðanna á Kópavogsvelli eru Blikar með yfirhöndina - leiða með 16 siga gegn 14 - jafnteflin eru 8. 

Leikir liðanna eru oftast miklir markaleikir. Samtals skora liðin 239 mörk í 78 efstu deildar leikjum - Valsmenn með 122 mörk gegn 117 mörkum Blika.

Síðustu 5 viðureignir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum. Aron Bjarnason á 21 leiki með Val sem lansmaður frá Újpest. Elfar Freyr Helgason söðlaði um haustið 2022 og á nú 43 leiki með Valsliðinu. Í október 2023 var Viktor Unnar Illugason, fyrrum leikmaður en síðar yngri flokka þjálfari hjá Blikum, ráðinn til starfa hjá Val.

image

Mynd: Leikmannahópur Breiðabliks 2024

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur HéðinssonEiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn Val ólst upp í Smárahverfinu frá þriggja ára aldri. Hann var dreginn á sína fyrstu fótboltaæfingu 5 ára gamall inni í Smára undir handleiðslu Hákons sverrissonar. Hann æfði með félaginu upp alla yngri flokka félagsins í fótbolta sem markmaður en var of seinn að átta sig á því að markmenn þyrftu að vera í hærri kantinum (sem hann er ekki).

Hann byrjaði ungur að mæta á leiki með liðinu og fljótlega þróaðist það út í að mæta með þáverandi stuðningsmönnum liðsins, Stuðblikum. Núna kannast flestir við hann með trommukjuða í hönd við hliðina á Hilmari Jökul og Kópacabana stuðningssveitinni.

Sindri Þór Sigurðsson - Hvernig fer leikurinn?

Eftir að hafa unnið góðan 0-2 sigur seinast leyfi ég mér að vera vongóður. Ísak heldur áfram að vera á eldi og setur 2 mörk í leiknum. Anton Ari heldur uppteknum hætti frá seinasta leik á móti Val og lokar búrinu. Ég spái því að við fáum endurtekningu á 2021 heimaleiknum þegar við unnum 3-0 þar sem ísak setur 2 og Höskuldur 1. Ég væri til í að sjá stúkuna troðfulla af grænum treyjum á sunnudaginn og sýna strákunum þann stuðning sem að þeir eiga skilið!

SpáBlikinn Sindri Þór í góðum félagsskap með BD skjöldinn eftirsótta!

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15 á sunnudagskvöld. 

Miðasala er á: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs. Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik. Píluspjöld í boði. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur úr síðasta leik liðanna í Bestu 2024: 

Til baka