BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Strákarnir stóðust prófið með glans – Sögulegur úrslitaleikur framundan

20.10.2024 image

Dramatík

Við höfum fylgst með mikilli dramatík í íslenskum stjórnmálum undanfarna viku.  Allt logar stafna á milli.  Innan ríkisstjórnar – sem endaði með stjórnarslitum eftir 7 ára samstarf fór allt á hvolf. Innan flokkanna er spennan ekki minni  þegar flokkarnir búa sig undir kosningar í næsta mánuði og atburðarásin er hröð.    

Í Bestu deildinni 2024 er dramatíkin ekki minni.  Seinni part sumars hefur Besta deildin þróast á þann veg að Víkingur og Breiðablik hafa tekið afgerandi forystu í þetta árið.  Bæði lið voru með  Þessi lið hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í ár – sem og undanfarin keppnistímabil. Bæði lið voru með 56 stig fyrir leikinn (Valur í 3ja sæti með 41 stig) en markamismunur  Víkinga langtum betri en Blikanna  – þar munaði 10 mörkum.  

Í þessari næstsiðustu umferð Bestu deildarinnar var staðan þannig að Víkingar voru búnir að leika sinn leik uppi á Skipaskaga í svo mjög undarlegum knattspyrnuleik.  Þar unnu Víkingar heimamenn með 4 mörkum gegn 3.  Allir nema hörðustu Víkingar eru sammála um að þetta voru úrslit sem áttu aldrei að standa. ÍA gerði fullkomlega löglegt sigurmark í stöðunni 3-3. Af óskiljanlegum ástæðum dæmdi dómarinn það ógilt – en eins og Lárus Orri í Stúkunni á Stöð 2 sagði: „Dómarinn gerði mistök – og hann veit það sjálfur“. En Víkingar eru þekktir fyrir að gefast aldrei upp og skoruðu sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins eftir vafasaman aðdraganda.  Þessi úrslit þýddu það að ef Breiðablik myndi tapa sínum leik gegn Stjörnunni sem hófst klukkan 17 þennan laugardag – þá voru Víkingar orðnir Íslandsmeistarar.

Byrjunarliðið var það sama og gegn Val – nema að Andri Yeoman hafði náð sér af veikindum og kom inn í bakvörðinn aftur.

Úr Garðahreppi í Garðabæ

Þegar pistlahöfundur lék með yngri flokkum Breiðabliks spiluðum við oft gegn Stjörnunni úr Garðahreppi eins og bæjarfélagið nefndist þá.  Það var frekar ójafn leikur – og unnum við iðulega þær viðureignir.  Með stækkandi bæjarfélagi – úr hreppi í bæ – óx velgengni Stjörnunnar og í dag er liðið með þeim betri á landsvísu.  Liðið varð Íslandsmeistari 2014 – og náði þeim árangri að leika gegn Inter Milan í Evrópukeppni.  En ef skoðuð er greining blikar.is á innbyrðis viðureignum félaganna í efstu deild – þá hefur Breiðablik klárlega vinninginn eins og lesa má hér. Í dag er liðið undir stjórn þess góða drengs Jökuls Elísabetarsonar, en hann varð einmitt Íslandsmeistari með Breiðablik í fyrsta sinn árið 2010. Það er nokkuð magnað að í þeim leik voru í liði Breiðabliks Kristinn Jónsson, Kristinn Steindórsson og Andri Yeoman sem léku í kvöld – auk þess sem fyrirliði Stjörnunnar, Guðmundur Kristjánsson var í Breiðabliksliðinu aukinheldur.

Leikurinn

Leikurinn byrjaði afskaplega rólega og í raun eitt orð sem gat lýst leiknum hjá báðum liðum;  Varfærni. Liðin voru alls ekki líkleg til að skora – en bæði fengu reyndar  eitt mjög gott færi. Höskuldur vann einvígi gegn Stjörnumanni á 19 mínútu og skot hans endaði í stönginni. Stjarnan átti síðan dauðafæri a 38 mínútu en sem betur fer fór skalli þeirra framhjá. Fyrri hálfleikur fer alls ekki í sögubækur – Blikarnir áttu t.d. 2 skot á mark í öllum hálfleiknum. Gegn Val í síðasta leik átti liðið 28 skot í leiknum.   

Menn voru hugsi í leikhléinu – fannst þetta frekar tíðindalítið.  Kristján Hjálmar Ragnarsson sjúkraþjálfari – sem hefur séð flesta leiki liðisins í áratugi sagði: „Nú þarf að gefa svolítið í“ 

Blikarnir voru líka miklu ákveðnari í seinni hálfleik. Hálfleiksræða Halldórs hefur haft áhrif greinilega – en Stjarnan átti sín móment í leiknum líka. Reyndar gerðist það að í Stjörnustúkunni birtust allt í einu 2 risastórir Víkingsfánar og þeim var flaggað stíft. Stórtíðindi urðu síðan á 64 mínútu.  Aron tók aukaspyrnu á Ísak sem skallar í slá. Það er Viktor Örn Margeirsson sem er fljótur að átta sig og kemur boltanum í markið í frákastinu.  Virkilega vel gert hjá Viktori – sem hefur verið hreint frábær í sumar, sennilega eitt hans allra besta keppnistímabil.

Víkingsfánarnir hurfu hinsvegar sjónum. Stjarnan sótti heldur í sig veðrið eftir markið og á 76 mínútu jafna þeir eftir ágæta sókn, en manni fannst að varnarleikurinn hefði getað verið aðeins betri hjá Blikunum þar. Þá fóru Víkingsfánarnir aftur á loft – enda vissu allir að sigur Stjörnunnar myndi þýða að Víkingur væri orðinn Íslandsmeistari. Síðan gerast stórtíðindi á 87. mínútu.  Kristinn Jónsson – náði boltanum á vinstri væng við miðju.  Hann tekur á rás fram kantinn  - alveg upp að endamörkum, lítur vel í kringum sig. Hann verður var við Höskuld fyrirliða sem er þá búinn að spila sig frían í vítateig Stjörnunnar. Sending Kristins er frábær og afgreiðsla Höskuldar eins fullkomin og hægt er að vera. Boltanum er smellt í vinstra hornið og sigurmark leiksins er staðreynd.

Víkingsfánarnir hurfu aftur sjónum og birtust ekki aftur. Þessi sprettur Kristins er ekki sjálfgefinn. Kristinn er orðinn 35 ára – og það er nánast komið að leikslokum eftir endalaus hlaup upp og niður vinstri kantinn. En hann heldur einbeitingu allan tímann og veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er aðdáunarvert hvað varnarmenn okkar eru í góðu líkamlegu formi. Einhver hélt því fram að við værum með elstu vörn í Evrópu en ég veit ekki hvað er til í því. En það er fyrst og fremst varnarleikurinn og markvarslan  (Anton Ari var verðskuldað maður leiksins í kvöld) sem er grunnurinn að því að við erum komin í þessa stöðu;  að spila úrslitaleik við Víking á sunnudaginn. Frábær sigur á öflugu Stjörnuliði. Leikur nr 13 án taps – sem er ekkert annað en stórkostlegt. Til hamingju með það Halldór, leikmenn og liðsstjórn.

Umgjörð

Það voru 1.200 áhorfendur á leiknum í kvöld.  Það hlýtur að teljast harla gott miðað við að leikurinn fór fram 19 október. Stemning og umgjörð var mjög fín – en gera þarf alvarlega athugasemd við eitt atriði og varðar kynni kvöldsins.  Það er algerlega ótækt að tilkynningar um „hálfleikskeppni“ eða annað álíka sé kynnt í hátölurum meðan leikur er í fullum gangi. Þetta er alveg galið og má ekki endurtaka sig. Þetta er mikið tillitsleysi við leikmenn auk þess sem þetta er alger stílbrjótur í upplifun áhorfandans.       

Grand Finale

Það er alveg ljóst að þeir aðilar innan KSÍ sem hönnuðu úrslitakeppnina og núverandi fyrirkomulag eru kátir. Rétt eins og í góðri óperu stefnir í þvílíkan bardaga og slag um Íslandsmeistartitilinn í Víkinni í Fossvoginum á sunnudag – 27. október klukkan  18.30. Vegna markamismunar þurfa Blikar að vinna – annars verða Víkingar Íslandsmeistarar.

Það verður örugglega uppselt – og við hvetjum alla Blika til að tryggja sér miða sem allra fyrst. Öflugur stuðningur getur haft úrslitaáhrif. Strákarnir hafa staðið sig hreint frábærlega í sumar.  Í 26 leikjum hafa þeir unnið 18 sinnum, gert 5 jafntefli og tapað einungis 3 leikjum. Það voru ekki margir sem bjuggust við þessu í vor. Takk strákar, þið voruð frábærir í kvöld. Núna ætlum við að verða samferða alla leið og verða Íslandsmeistarar 2024!

-Hákon Gunnarsson

Til baka