BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sumargjöf suður með sjó!

26.07.2021 image

Blikar urðu að sætta sig við 2:0 tap gegn baráttuglöðum Keflvíkingum suður með sjó í sérkennilegum leik. Okkar piltar áttu ógrynni tækifæra en hrikalega ódýr mörk og engin færanýting urðu þess valdandi að stigin þrjú urðu eftir suður með sjó. Þetta var því sannkölluð sumargjöf sem við færðum heimapiltum að þessu sinni.  En það þýðir ekkert að væla yfir þessum úrslitum. Aðalatriðið er að snúa bökum saman, nýta gremjuna og koma tvíefldir til leiks í Evrópuleikinn á fimmtudaginn.

Byrjunarlið Breiðabliks var svona skipað:
 

image

Blikar spiluðu með sterkan vind í bakið í fyrri hálfleik og hófu leikinn á stórsókn. Hver sóknin á fætur annarri buldi á marki Keflvíkinga. Það var reyndar með ólíkindum að við skyldum ekki skora 3-4 mörk í hálfleiknum. Jason Daði, Árni Vill, Viktor Karl, Gísli og Thomas áttu allir ágæt færi en annað hvort fór boltinn rétt framhjá, rétt yfir, í hliðarnetið eða að Sindri í marki heimapilta varði vel. En svo gerðist það sem stundum gerist þegar menn nýta ekki færin. Anstæðingarnir ganga á lagið. Við fengum mark í andlitið rétt áður en dómarinn flautaði til leikhlés eftir klaufaleg varnarmistök.  Blikar í stúkunni fórnuðu höndum enda ekki í fyrsta sinn sem við fáum svona mark á okkur.

Það er reyndar rétt eins og þjálfarinn segir í viðtölum að þessi taktík bjóði hættunni heim en skili oft góðum tækifærum. Það má hins vegar setja spurningamerki við að spila þessa sóknartaktík út í hörgul þegar aðstæður voru eins og í Keflavík í gær, rok og rigning og blautur grasvöllur.  Við hefðum hins vegar átt að vera löngu búnir að gera út um leikinn þannig að þetta atvik eitt og sér átti ekki að gera útslagið. Þetta fer hins vegar í reynslubankann og mikilvægt að velta sér ekki of mikið upp úr þessu atviki. Aðalatriðið er að læra af þessu og nýta til að bæta leik liðsins.

image

Síðari hálfleikur spilaðist á margan hátt eins og sá fyrri. Thomas Mikkelsen vill sjálfsagt gleyma þessu leik sem fyrst. Strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks fékk hann fínt færi en Sindri sá við honum. Strax í næstu sókn skoruðu heimapiltar ódýrt mark. Áfram héldum við að pressa á þá bláklæddu. Thomas fékk meðal annars vítaspyrnu en skaut í stöng. Lánleysi okkar upp við markið var algjört þannig að leikurinn endaði 2:0 fyrir Keflavík.
 

image

Það verður að hrósa Kópacabana piltunum. Þeir lögðu á sig ferð suður með sjó í skítaveðri og hvöttu liðið áfram allan leikinn!

Þeir yfirgnæfðu stuðningsmenn heimapilta og sungu og trölluðu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Vel gert piltar. Við hlökkum til að heyra í þeim í Evrópuleiknum á fimmtudaginn!

image

Kópacabana piltar mættu í suddan í Keflavík og studdu okkar pilta allan leikinn!

Þrátt fyrir þetta tap mega menn ekki missa móðinn. Munum hin fleygu orð þjóðskáldsins Bjarna Thorarensen ,,fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herðir”! Við eigum gríðarlega mikilvægan leik í Evrópukeppninni gegn Austria Wien á fimmtudaginn og svo eigum við eftir að spila við öll toppliðin. Það er því langt frá því að við séum búnir að stimpla okkur út úr toppbaráttunni. Mætum vel á leikinn á fimmtudaginn og svo eigum við Víkinga á heimavelli þriðjudaginn eftir Verslunarmannahelgi!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Umfjallanir netmiðla

Til baka