BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svekkjandi á Samsung!

13.08.2024 image

Okkar strákar urðu að sætta sig við svekkjandi 2:2 jafntefli gegn Stjörnunni á Samsung vellinum í Garðabæ í gærkvöldi. Við vorum með leikinn í okkar höndum í síðari hálfleik en létum heimapilta jafna leikinn undir lok leiksins. Það jákvæða hins vegar viðleikinn voru tvo glæsileg mörk Viktors Karls og Ísaks Snæs en þau dugðu því miður ekki til að ná í stigin þrjú. 

Sumir hafa líkt Stjörnuliðinu við kontektkassa Forrest Gump í frábærri túlkun leikarans Tom Hanks í samnefndri bíómynd frá árinu 1994. Maður veit eiginlega aldrei hvers konar mola maður fær þegar spilað er gegn Stjörnunni! Í fyrri hálfleik hittum við Blikar því miður á grjótharðan mola sem gaf ekkert eftir.  Og það verður að segjast að við vissum eiginlega ekki hvernig ætti að bregðast við.

Heimapiltar mættu okkur framarlega á vellinum og voru miklu ákveðnari í öllum sínum aðgerðum.Blikastrákarnir okkar virkuðu ráðleysislegir og náðum við sjaldan upp því hraða léttleikandi spili sem oft hefur einkennt Blikaliðið undanfarin ár.  Aðeins um miðbik hálfleiksins kom lífsmark í þá grænklæddu og áttum við þá ágætar tilraunir upp við markið.  En svo koðnaði það því miður niður aftur.

Það kom því ekki gegn gangi leiksins að Stjarnan náði forystunni undir lok fyrri hálfleiksins með marki úr vítaspyrnu. En aðdragandi vítaspyrnunnar var þannig að það hefði aldrei átt að dæma víti  heldur miklu fremur sóknarbrot á þá blæklæddu. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að Blikaliðið hefur í allt of mörgum leikjum í sumar verið allt of passívir í fyrri hálfleik.  Það kann ekki góðri lukku að stýra því það gerir okkur svo erfitt fyrir að lenda undir í leikjum.

Það var hins vegar allt annað Blikalið sem mætti til leiks í síðari hálfleik. Við tókum í raun öll völd á vellinum og Viktor Karl jafnaði leikinn með glæsilegu marki á 54. mínútu eftir flottan undirbúning Davíðs Ingvarssonar.

Áfram héldu yfirburðir Blikaliðsins og Ísak Snær fullkomnaði endurkomuna á 78, mínútu með góðu marki. Aftur var það Davíð sem átti heiðurinn af undirbúningnum.

En því miður gleymdum við okkur í vörninni undir lok leiksins og Stjarnan náði að redda sér stigi.

Auðvitað er svekkjandi að hafa ekki sigrað í leiknum í gær. En frammistaðan í síðari hálfleik lofar góðu fyrir Valsleikinn á fimmtudaginn. Við verðum hins vegar að mæta til leiks strax frá fyrstu mínútu! Þá geta andstæðingar okkar strax fengið að kenna á því.

Undir lok þessa pistils er ekki er hægt að sleppa því að ræða um endalaust væl margra þjálfara í Bestu deildinni um störf dómara í leikjum að undanförnu. Dómarar mæta til leiks, eins og leikmenn, staðráðnir að gera sitt besta. Stundum eiga þeir góðan dag og stundum gera þeir einhver mistök. Alveg eins og leikmenn. Það er hluti af leiknum. En staðreyndin er sú að yfir tímabilið dreifast mistökin yfirleitt nokkuð jafnt á öll lið. Við skorum því á þjálfara og forsvarsmenn allra liða að hætta þessu leiðindanöldri um dómara og einbeita sér að því sem skiptir máli þ.e. að stýra liði sínu til sigurs!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka