Tölfræðin vinnur enga leiki!
15.12.2023
Blikar urðu að bíta í það súra epli að tapa 4:0 fyrir Zorya Luhansk í lokaleik riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. Enn og aftur gáfu okkar strákar ódýr mörk í byrjun leik og það kann ekki góðri lukku að stýra. Það var mjög svekkjandi því úti á vellinum spiluðum við á köflum ljómandi vel, áttum fín færi en boltinn vildi bara alls ekki inn. Einnig var flest önnur tölfræði okkur í hag en eins og knattspyrnuáhugamenn vita þá vinnur tölfræði enga leiki!
Skoðum aðeins þessa tölfræði! Við vorum með boltann 55% af leiknum, áttum fleiri skottilraunir, fleiri heppnaðar sendingar, fleiri hornspyrnur en töpuðum samt 4:0. Það þarf ekkert að segja strákunum okkar að þetta hafi verið nógu gott. Þeir eru örugglega svekktastir af öllum eftir þennan leik í gær. Þeir vita að það gengur ekki að gefa 2-3 mörk í forskot í hverjum leiknum á fætur öðrum. Leikir vinnast á góðu skipulagi og öflugum varnarleik.
Það verður hins vegar ekki frá okkur tekið að við urðum fyrsta liðið til að komast í riðlakeppni Evrópu í knattspyrnu. Við sýndum mjög oft lipra knattspyrnu og vorum í raun óheppnir að ná ekki í stig í einhverjum leikum. Þessi mikla reynsla sem liðið fékk í þessari keppni á eftir að skila sér á næstu árum. Við þurfum hins vegar að fara í töluverða sjálfsskoðun og velta fyrir okkur hvers vegna varnarleikurinn hjá öllu liðinu gekk ekki betur á þessu tímabili. Þá er bæði Íslandsmótið, bikarkeppnin og Evrópukeppnin undir.
Nú fá strákarnir okkar verðskuldað frí og geta hreinsað hugann eftir þessa miklu törn. Eftir áramótin kemur nýtt og ferskt lið til leiks. Ekki er ólíklegt að einhver breyting verði á hópnum en við verðum að gleðjast yfir því sem vel gekk á árinu en læra af þeim mistökum sem við gerðum á núverandi tímabili. Þá verður keppnistímabilið 2024 eitthvað til að hlakka til!
-AP