BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vel á verði

20.08.2024 image

Þó veðrið sé eitthvað að kólna og það verði heitavatnslaust í Kópavoginum næstu 2 daga þá er að hitna í kolunum í Bestu deildinni. Leikirnir einhvern veginn að verða stærri og mikilvægari, það þarf því ekki að taka fram að það var mikið undir á Kópavogsvelli í kvöld.

Vörður bauð til veislu, fyrri Varðar leikur sumarsins þar sem boðið var upp á pylsur, popp, drykki, Varðar veifur og síðast en ekki síst sól og sælu. Blikar mættu með bros á vör og það var tilhlökkun í mannskapnum, liðið sýndi eina bestu frammistöðu sumarsins í sigrinum á Val á fimmtudaginn en spurningin var myndi það halda áfram í kvöld?

Byrjunarliðið var sem hér segir:

Leikurinn fór nokkuð kröftuglega af stað og Fram liðið undir stjórn Rúnars Kristinssonar var töluvert ofar á vellinum en oft áður. Bæði lið létu finna fyrir sér og leikurinn var nokkuð opinn og ljóst að það átti að gefa allt í þetta.

Mér fannst Blikarnir samt byrja þetta betur og litu vel út, Gauti kom virkilega vel inn á miðjuna og virðist vera búinn að finna sinn stað. Þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar þá tættu Blikarnir þá bláu í sig og boltinn barst á Aron Bjarna sem skaut rétt fram hjá markinu. Nánast í næstu sókn þá héldu Blikar uppteknum hætti sem endaði með því að Höskuldur kom boltanum á Kidda Jóns sem þræddi boltann fyrir markið þar Damir með nýja samninginn sinn beið á fjær stönginni og kom boltanum í netið, staðan 1-0 og það var sanngjarnt.

Það liðu ekki nema 5 mínútur þangað til að Blikar fengu opið færi en náðu ekki að koma boltanum í netið, Aron Bjarna aftur á ferð og setti boltann rétt yfir. Fram nýtti sér það að leikurinn væri að opnast og komust eiginlega í fyrsta skipti almennilega yfir miðju í leiknum, þurfti ekki meira. Keyrðu upp hægri kantinn á Blikaliðið sem var komið ofarlega á völlinn, Fred næði að senda í gegn á Magnús Þórðarson sem kláraði færið virklega vel og staðan orðin 1-1.

Stuttu síðar þá þurfti Kristinn Steindórsson að fara af velli og virtist ekki hafa náð að jafna sig eftir harkalegt samstuð stuttu áður við Kyle McLagan sem hafði fengið gult spjald fyrir vikið. Patrik kom inn í staðinn og virtist staðráðinn í því að standa sig.

Flautað var til hálfleiks og bæði lið með lemstraða leikmenn gengu af velli eftir átökin í fyrri hálfleik. Fram hefði mögulega getað komið inn marki eftir flotta sendingu hjá Fred en náðu sem betur fer ekki að nýta það.

Það voru 10 mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar há sending kom upp völlinn frá Kidda Jóns á Ísak sem var búinn að skora og sækja víti í síðustu leikjum. Það nær enginn boltanum af Ísak þegar hann fær pláss, hann kom boltanum á Davíð Ingvars sem elskar að leggja upp mörk. Það var akkúrat það sem hann gerði, kom boltanum aftur á Ísak sem lagði boltann í netið og Blikar komnir í forystu.

Blikar voru komnir með tök á leiknum og nutu þess að spila sinn bolta og reyndu að byggja upp fallegar sóknir. Þeir sóttu svo að marki á þegar um 65 mínútur voru á klukkunni, Alex Freyr fyrrum Bliki var í baráttu sem endaði með því að Blikar fengu aukaspyrnu af um 30 metra færi. Þetta fór ekki betur en svo að Alex Freyr meiddist í hamaganginum og var borinn út af í börum. Vonum að hann jafni sig fljótt.

Þeir Höskuldur og Patrik stóðu yfir boltanum, Patrik fór af stað og gerðu flestir ráð fyrir því að hann myndi stíga yfir boltann. Nei nei, Patrik tók sig til og setti eitt af mörkum sumarsins þegar hann smurði boltann líkt og hann væri kominn í vinnu á Jómfrúnni. Samskeytin var það heillin og staðan orðin 3-1 fyrir Blika.

Þegar rúmar 5 mínútur voru eftir þá gerðu Blikar þrefalda skiptingu, þeir Daniel Obbekjær, Benjamin Stokke og Kristófer Ingi komu inn fyrir mann leiksins Ísak Snæ, Aron Bjarnason og Damir Muminovich sem fékk högg á bakið og kveinkaði sér. Það þarf mikið til að Damir kvarti, vonum að hann verði klár í næsta leik.  

Fram fékk aukaspyrnu og Fred skaut í slá stuttu seinna en eftir það fjaraði leikurinn nánast út. Tumi Fannar kom inn fyrir Davíð Ingvars þegar örfáar mínútur voru eftir, ágætur dómari leiksins flautaði af og 3-1 sigur Blika staðreynd.

Í kvöld voru ungir Blikar sem voru að mæta í fyrsta skipti á Kópavogsvöll í bland við eldri sem hafa komið í tugi ára. Allir fóru þeir sáttir heim og það má gera ráð fyrir þeim á næsta leik eða hvað?

Sá leikur verður erfiður, mætum sjóðandi heitum Skagamönnum sem voru að vinna Víkinga á þeirra heimavelli í kvöld. Það verður kjörið að taka ís bíltúrinn upp á Skaga á sunnudaginn, mæta og styðja strákana. Eins og kom fram í byrjun þá eru allir leikir núna risastórir, toppsætið verður í boði þar það er víst hægt að fresta leikjum þegar íslensku liðin eru að keppa í Evrópu þó það hafi ekki verið hægt í fyrra. Víkingar og Breiðablik deila nú toppsætinu með 40 stig. Við þurfum ekki bara að fjölmenna, við þurfum að láta í okkur heyra og halda áfram að vera stuðningsmenn en ekki áhorfendur.  

KIG

@breidablikfc

Þrjú mörk og þrír punktar ⚽️????

♬ original sound - Breidablik FC

Til baka