Vesturbæjar ís með lúxusdýfu
29.04.2024
Sumardagurinn fjórði rann upp fallegur og bjartur, það var búin að vera sól síðan á sumardaginn fyrsta og sumardaginn fjórða var engin breyting. Ég lét kaffivélina mala nokkrar baunir í bollann og rölti út pall í morgunsólinni, leit yfir grasið í garðinum leitandi eftir grænum sprotum og mundi þá að Blikarnir mínir áttu leik fram undan vestur í bæ. Annað árið í röð skyldi Breiðablik taka það að sér að eiga fyrsta grasleikinn á Íslandsmótinu. Það kom tilhlökkun yfir mig enda er gaman að horfa á leiki í Frostaskjólinu eins og ég hef alltaf kallað það.
Það var lítið um Frost þegar ég mætti vestur í bæ, nema þá kannski helst á héluðum bjórglösum sem KR stuðningsmenn og einstaka Blikar teyguðu í kvöldsólinni. Það var stemmning, KR ætlaði að byrja mótið formlega þarna með sínum fyrsta heimaleik og það var einhversskonar yfirgírun í gangi enda hafði verið hátíð þarna síðan í hádeginu. Ég er líka nokkuð viss um að ég sá kallana sem versluðu heilsíðuna í morgunblaðinu, það var gír í þeim eins og öðrum á svæðinu enda ætla þeir að styðja KR strákana í allt sumar.
Blikar mættu bara nokkuð vel enda sagði þulurinn að rúmlega 2100 manns væru mætt til að horfa á þessa skemmtun, Dóri Árna stillti upp sterku liði og ég hugsaði vonandi fær Stokke einhverja þjónustu í kvöld á gula og græna grasinu.
Byrjunarliðið var sem hér segir:
Liðið gegn KR í stórleiknum á Meistaravöllum. Flautað til leiks kl.18:30! pic.twitter.com/1urdK2qRx7
— Blikar.is (@blikar_is) April 28, 2024
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en Blikar hefðu getað sett nokkur mörk svo ekki sé meira sagt. Vissulega hefðu þeir röndóttu í nýju gamaldags treyjunum geta sett eitt eða tvö líka. Aron Bjarna, Jason og Kiddi Steindórs voru allir líklegir, einstaka KR ingur gerði sig líklegan en Blikavörnin stóð sína vakt með stæl. Það var ekki hægt að kvarta yfir neinu þannig séð í hálfleik en einhverjir Blikar kældu kaffið með blæstri og fussuðu um leið að þetta gæti verið hættulegt, liðinu yrði sennilega refsað í seinni. Bentu um leið á það að KR ingar væru nú svolítið að dýfa sér og með því að reyna að sækja föst leikatriði.
Blikastrákarnir voru bara alls ekki á því að þeim yrði refsað, þeir mættu af krafti í seinni hálfleikinn og tóku nánast fram dans skónna á ójöfnum vellinum. Stokke var í slagsmálum uppi á topp og var margfalt betri en enginn í föstum leikatriðum KR.
Eftir rétt tæpan klukkutíma leik sprakk þetta allt í loft upp, Blikar náðu að skipta yfir á vinstri kant og svo aftur yfir á hægri þar sem að Viktor Karl fær tíma til að athafna sig á boltanum. Þegar að það gerist þá þýðir það oftast vesen fyrir hitt liðið, Kiddi Steindórs sem var nota bene algjörlega frábær í þessum leik laumar sér á milli miðvarða og setur hann í markið. Fótbolti er skemmtilegri þegar Kiddi Steindórs er í stuði eins og maðurinn sagði.
1-0, Kiddi Steindórs með markið pic.twitter.com/qCLjFfGOHK
— Blikar.is (@blikar_is) April 28, 2024
Í hvert skipti sem að KR fékk aukaspyrnu, innkast eða bara hvað sem er þá settu þeir alla fram og vonuðu það besta en Blikar náðu að verjast. Það var svo þegar rúmar 10 mínútur voru eftir að Blikar fengu hornspyrnu eftir skot frá Jasoni Daða sem lá óvígur eftir og þurfti að fara út af, var lengi að því og pirraði þannig alla nema Blika. Upp úr horninu mætti kom annað mark Blika.
Viktor Örn Margeirsson mætti með miklu harðfylgi á nær stöngina og setti boltann alveg út við stöng og í markið, Guy Smit var á því að boltinn hefði ekki farið allur inn en aðstoðardómarinn var ekki á sama máli. Sem betur fer er ekkert VAR í Bestu deildinni þannig að staðan var orðin 0-2 fyrir Blika.
Staðan er orðinn 2-0 fyrir Breiðablik, Viktor Örn með markið. pic.twitter.com/XIASyUJp2w
— Blikar.is (@blikar_is) April 28, 2024
Viðurkenni að ég var glaður þarna, mjög glaður. Það er svo gaman að vinna KR í vesturbænum í Reykjavík. Benóný Breki ákvað að bjóða upp á lúxusdýfu þegar rétt rúmar 80 mínútur voru á klukkunni en dómarinn féll ekki fyrir því frekar en öðrum dýfum KR inga í leiknum eða hvað?
Skyndilega dróg fyrir sólu, boltinn barst upp völlinn og eitthvað klafs átti sér stað og skyndilega small boltinn í stönginni og inn. Vel gert KR, 5 mínútur eftir af leiktímanum og staðan orðin 1-2. Ég var farinn að sjá fyrir mér viðtölin eftir leik ef að Blikarnir færu að taka upp á því að missa þetta niður en Jason Daði leyfði mér ekki einu sinni að fara þangað. Hann er svo fljótur, fljótari en öll varnarlína KR til samans. Held í alvörunni að hann geti náð sama hraða og yfir tjúnuð rafmagnsvespa.
Hann náði að pressa Guy sem vissi ekki hvaða á sig verðið, fíflaði svo varnarmann KR með einni gabbhreyfingu og setti boltann í netið. Staðan orðin 1-3 og ég tók hatt minn ofan fyrir liðinu, nú var þetta komið.
3-1 fyrir Breiðablik! Jason Daði skorar pic.twitter.com/02gXe5hfcS
— Blikar.is (@blikar_is) April 28, 2024
Í þá mund sem ég setti Blika derhúfuna aftur á hausinn þá var dómarinn búinn að flauta víti á Blika, Damir og fyrrum Blikinn Eyþór frasakóngur Wöhler eigast við og frasakóngurinn fellur með tilþrifum. Var þetta dýfa eða brot, ég veit það ekki og mér er alveg sama. Benóný Breki steig á punktinn og skoraði af öryggi, ég hélt í alvörunni að Jason hefði tryggt þetta.
Hann gerði það í rauninni því að Blikar kláruðu þennan leik af fagmennsku og náðu að róa þetta niður með því sækja þessa 3 mikilvægu punkta. Þeir eru komnir með 9 stig eftir 4 leiki og búnir að fara á 2 af erfiðari útivöllum landsins. Eftir 4 leiki í fyrra vorum við með 6 stig, þetta er allt á uppleið.
Annars var ég ánægðastur í kvöld með stemmninguna í liðinu, það var andi og barátta og menn að berjast fyrir hvorn annan. Algjörlega til fyrirmyndar, þeir gerðu hvað þeir gátu til að koma okkur stuðningsmönnum í gang og nú þurfum við að svara kallinu enda er stórleikur heima á móti Val fram undan. Það þurfa þá fleiri að öskra áfram Breiðablik en bara þessar 2 fyrrverandi fótbolta bullur sem létu einna mest í sér heyra í kvöld og náðu stúkunni í gang af og til. Fyllum stúkuna á móti Val, hendum í pöb kviss, mætum snemma og öskrum strákana okkar áfram.
Það var ljúft að rölta eftir leik með 3 punkta í vasanum á vorkvöldi í vesturbænum, ég gleymdi mér og skyndilega var ég kominn fyrir framan ísbúð Vesturbæjar. Röðin var ekki löng þar enda KR ingar flestir komnir á Kaffi Vest að drekkja sorgum sínum. Ég vippaði mér hinsvegar inn í ísbúðina og bað um gamla ísinn í brauðformi, barnastærðina takk. Eitthvað fleira sagði stúlkan sem afgreiddi mig, já ætli ég fái mér ekki lúxusdýfuna líka.
-KIG