BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: KR - Breiðablik

26.04.2024 image

KR - Breiðablik

Stórleikur á sunnudaginn gegn frísku KR liði. Bæði lið með sex stig eftir þrjár umferðir. Blikaliðið í þriðja sæti - einu sæti ofar en KR á markatölu. 

Leikurinn verður fyrsti grasleikur sumarsins í Bestu deild karla. 

Flautað verður til leiks á KR vellinum á sunnudaginn kl.18:30!

Miðasala á leikinn á Stubbur  

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Stigataflan eftir 3 umferðir:

Sagan & Tölfræði

Allir innbyrðis mótsleikir KR og Breiðabliks frá upphafi eru 102 leikir. KR-ingar leiða með 50 sigra gegn 24 - jafnteflin eru 28. Fyrsti keppnisleikur liðanna var í Bikarkeppni KSÍ 8. september 1964. Leikið var á gamla Vallargerðisvellinum í Kópavogi. 

Efsta deild

Í 77 leikjum liðanna í A-deild, fyrst 1971, hafa KR-ingar sigrað 36 viðureignir gegn 18 sigrum okkar manna - jafnteflin eru 23. 

Viðureignir liðanna á heimavelli KR eru 38. Heimamenn leiða með 15 sigra gegn 9 Blikasigrum - jafnteflin eru 14. 

Frá endurkomu Breiðabliks upp í efstu deild árið 2006 hefur Breiðabliksliðið mætt 19 sinnum í Frostaskjólið. KR leiðir með einum sigri. 

Jafntefli

Sex ár í röð, frá 2013 til 2018, enduðu allir leikir liðanna á KR vellinum með jafntefli.

Markafæð

Fyrsta viðureign KR og Breiðabliks í efstu deild var heimaleikur KR-inga á gamla Melavellinum í Reykjavík árið 1971. Leikurinn endaði með 0:0 jaftefli. Síðan 1971 hafa 21 heimsóknir okkar, af 38, í Frostaskjólið endað með 0:0 eða 1:1. KR-ingar vinna 1:0 í fjórum viðureignum á þessu tímabili og Blikar vinna eitt núll þrisvar.

Markaregn

Tvö ár í röð vinnast leikir með 4 mörkum gegn engu. KR vinnur okkur 4:0 2011. Blikar svara í sömu mynnt árið eftir með 4:0 sigri, sem þá var þá stærsti ósigur KR á heimavelli frá upphafi. Það voru þeir Kristinn Jónsson, Nichlas Rohde, Elfar Árni Aðalsteinsson og Tómas Óli Garðarsson sáu um markaskorun Blikanna.

Sjö mörk voru skoruð þegar við töpuðum með einu marki í heimsókn okkar til KR í úrslitakeppninni síðasta haust.

Síðustu 5 leikir okkar manna í efstu deild á heimavelli KR:

Leikmannahópurinn

Nokkrir uppaldir Blikar eru núna í leikmannahópi KR. Aron Þórður Albertsson, Benoný Breki Andrésson og Lúkas Magni Magnason eru uppaldir hjá Breiðabliki. Aðrir leikmenn hjá KR sem hafa spilað í grænu treyjunni eru þeir Atli Sigurjónsson og Eyþór Aron Wöhler sem gerði 3 ára samning við KR um miðjan apríl. 

Í Breiðablikshópnum eru það þeir Kristinn Jónsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson sem hafa spilað með Vesturbæjarliðinu. 

Og þjálfarinn Halldór Árnason er með tengingu við KR sem leikmaður og þjálfari.

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Meistaraflokkurinn 2024

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins kemur úr karatedeild Breiðabliks og hefur verið í stjórn karatedeildarinnar síðan 2017, sem og verið í mótanefnd Karatesambands Íslands fyrir hönd Breiðabliks síðan 2018. Hann á tvo drengi sem hafa stundað karate íþróttina frá 6 ára aldri og því aldir upp sem hreinræktaðir blikar. SpáBliknn er fæddur og uppalinn Grundfirðingur en hefur búið í Kópavogi síðan 1997. Aðkoma hans að Breiðabliki er aðallega í gegnum karatedeildina sem faðir og sjálfboðaliði en hann hefur einnig mikinn áhuga á knattspyrnu og hefur látið sjá sig á pöllunum þegar Breiðablik er að spila og verið í Blikaklúbbnum í nokkur ár. Að vera sjálfboðaliði fyrir félag eins og Breiðablik eru forréttindi, þú ert ekki bara að gefa af þér og styðja við frábært félagsstarf því ávinningurinn eru ómetanlegur þar sem maður kynnist fullt af frábæru fólki í gegnum starfið sem ekki er metið til fjár segir SpáBlikinn og bættir við að sjálfboðastarfið hjá Breiðablik gerði hann bæði að Kópavogsbúa og sönnum Blika.

Gaukur Garðarsson – hvernig fer leikurinn?

Bæði lið koma sár til leiks eftir þriðju umferðina og má því búast við hörku leik. Óvissan er völlurinn en þetta verður fyrsti leikurinn á grasvellinum í Frostaskjólinu, en fyrri viðureign liðanna í fyrra var einnig fyrsti leikur á sama velli og völlurinn minnti einna helst á kartöflugarð. Þetta er mikilvægur leikur um hvort liðin ætla að berjast á toppnum og því mikilvægt fyrir stuðningsmenn Breiðabliks að fara á völlinn. Ég ætla að halda mig við þá spá sem ég gerði í upphafi tímabilsins og segi að leikurinn fari 1:3 fyrir Breiðablik. Fyrsta markið verður mjög mikilvægt og verður að vera Blikamark, það hefur oft reynst erfitt að vera elta KR þegar þeir komast yfir.

SpáBliki leiksins, Gaukur Garðarsson

Dagskrá

Flautað verður til leiks á KR vellinum á sunnudaginn kl.18:30!

Miðasala á Stubbur

Mætum í stúkuna á KR vellinum og hvetum liðið okkar áfram!

Áfram Blikar! - Alltaf, alls staðar!

PÓÁ

Svona var þetta þegar við mættum KR í fyrsta grasleiknum á KR vellinum 13. maí í fyrra:

Til baka