Besta deild karla 2023. Úrslitakeppni. KR - Breiðablik
30.09.2023KR - Breiðablik
Næst síðasti leikur okkar manna í efri hluta úrslitakeppni Bestu deildar karla í ár er gegn KR á þeirra heimavelli í vesturbæ Reykjavíkur.
Við þurfum alvöru mætingu stuðningsmanna í Vesturbæinn á sunnudaginn til að tryggja okkur stigin þrjú í Evrópubaráttunni!
Flautað verður til leiks í Frostaskjólinu (nú Meistaravellir) kl.14:00 á sunnudaginn.
Miðasala á leikinn er á: Stubbur
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Staðan í efri hluta Bestu deildar karla þegar tveir leikir eru eftir. Baráttan um 2 laus Evrópusæti 2024 er á milli þriggj liða: Breiðabliks, Stjörnunnar og FH. Okkar menn geta tryggt sér Evrópusæti með sigri á KR á sunnudaginn.
Sagan & Tölfræði
Innbyrðis mótsleikir KR og Breiðabliks frá upphafi eru 101 leikir. KR-ingar leiða með 49 sigra gegn 24 - jafnteflin eru 28. Fyrsti keppnisleikur liðanna var í Bikarkeppni KSÍ 8. september 1964. Leikið var á gamla Vallargerðisvellinum í Kópavogi.
Efsta deild
Í 75 leikjum liðanna í A-deild, fyrst 1971, hafa KR-ingar unnið 35 viðureignir gegn 18 sigrum okkar manna - jafnteflin eru 22. Viðureignir liðanna á heimavelli KR frá upphafi eru 37. Heimamenn leiða með 14 sigra gegn 9 Blikasigrum - jafnteflin eru 14.
Frá endurkomu Breiðabliks upp í efstu deild árið 2006 hefur Breiðabliksliðið mætt 18 sinnum í Frostaskjólið. Jafnt er á öllum tölum - hvort lið með 5 sigra - jafnteflin eru 8.
Jafntefli
Sex ár í röð, frá 2013 til 2018, gerðu liðin jafntefli - allir leikirnir enduðu með 1:1 jafntefli nema leikurinn árið 2015 sem lauk með 0:0 jafntefli. Liðin gera líka 1:1 jafntefli 2021.
Lítið skorað
Fyrsta viðureign KR og Breiðabliks í efstu deild var heimaleikur KR-inga á gamla Melavellinum í Reykjavík árið 1971. Leikurinn endaði með 0:0 jaftefli. Síðan 1971 hafa 14 heimsóknir okkar manna í Frostaskjólið endað 0:0 eða 1:1. KR-ingar vinna 1:0 í fjórum viðureignum frá upphafi. Blikar vinna 0:1 þrem viðureignum. Fyrst árið 1994 og svo í 2.umf 2022 og aftur í 7.umf fyrr í sumar.
Stórir sigrar
Reyndar eru leikir tvö ár í röð í Skjólinu sem vinnast með 4 mörkum gegn engu. KR vinnur okkur 4:0 í 12.umf árið 2011 en Blikar svara í sömu mynnt með 4:0 sigri í 19.umf árið eftir, sem var þá stærsti ósigur KR á heimavelli frá upphafi. Það voru þeir Kristinn Jónsson, Nichlas Rohde, Elfar Árni Aðalsteinsson og Tómas Óli Garðarsson sáu um markaskoru Blikanna.
Síðustu 5 leikir okkar í efstu deild á heimavelli KR:
Leikmannahópurinn
Nokkrir uppaldir Blikar spila með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um yfir til KR árið 2016 en skilaði sér heim og er nú aftur spilandi í grænu Breiðablikstreyjunni. Fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017. Aðrir leikmenn hjá KR sem hafa spilað í grænu treyjunni eru þeir Benoný Breki Andrésson og Lúkas Magnason. Og Aron Þórður Albertsson er uppalinn Bliki.
Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfarari meistaraflokks karla og Halldór Árnason aðstoðarþjálfari eru með tengingu við KR. Báðir sem sem leikmenn og þjálfarar.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins fluttist á Kársnesið í Kópavogi árið 1980. Líkt og aðrir Blikar á þessum árum byrjaði knattspyrnuferillinn í Vallagerði sem var samkomustaður ungra knattspyrnuáhugamanna. Staður sem var uppspretta af mörgum stór efnilegum knattspyrnumönnum og seinna meir meistaraflokks leikmönnum. Staður þar sem var spilaður fótbolti frá morgni til kvölds án afskipta þjálfara eða fullorðna fyrir utan einn Valda gamla, sem hafði tögl og haldir á öllu sem gerðist í Vallargerði.
Ferill blikans byrjaði í 5. flokki með fríðum flokki drengja, margir hverjir frábærir knattspyrnumenn og ef ekki þá frábærir karakterar. Í þessum hóp var meðal annars Grétar Steindórsson, Eiríkur Þorvarðarson, Helgi Magnússon heitinn og Bjarni Frostason sem seinna meir urðu meistaraflokksmenn.
Yngriflokka ferillinn var eins og oft á þessum árum, vor og sumar æfingar á Vallargerði í öllum veðrum. Hvort sem völlurinn var frosinn, blautur eða undir hálfum metra af snjó, þá var alltaf æfing. Á sumrin, æfingar og leikir á Vallagerði með draum um að fá að spila á Kópavogsvelli og vetrar æfingar í íþróttahúsi Kársnes einu sinni í viku.
Hátindi yngriflokka var náð í 2. flokki þegar blikinn var valinn leikmaður 2. flokks og að ná að leika fyrsta meistaraflokks leikinn á móti Víking á Vallbjarnarvelli sem endaði í sjúkrabíl eftir skallaeinvígi með 10 spor í hausnum. Skilst að spáblikinn hafi staðið sig frábærlega á meðan hann var á velli.
Andrés Jón Davíðsson - Hvernig fer leikurinn?
Þetta er mikilvægur leikur fyrir okkar menn til að halda sér í 3. sæti. Blikar þurfa að vinna gegn KR til að halda Stjörnumönnum í fjórða sæti. Hugsanlega verður síðasti leikur gegn Stjörnumönnum úrslitaleikur um 3. sætið?
KR-ingar virðast vera á góðri siglingu með tvö góð jafntefli við Val og Víking en tap fyrir Stjörnunni í síðasta leik. KR-ingar enda sennilega í 6. sæti og hafa svo sem ekkert til að spila um en vilja örugglega get sagt að þeir hafi staðið sig vel gegn topp þremur liðum deildarinnar í lok tímabils.
Blikar hafa átt langt og strangt tímabil með spili í Evrópukeppnum þar sem þeir hafa náð glæsilegum árangri. Síðustu leikir Blika hafa verið svolítið upp og niður, tap gegn FH sem var spilaður stuttu eftir leikinn á móti Maccabi Tel Aviv og langt ferðalag. Blikar sýndu svo góðan leik gegn Víkingum og unnu verðskuldaðan sigur. Valsleikurinn var ágætis leikur en Blikar áttu í erfiðleikum að klára leikinn sérstaklega í stöðunni 2-2 í seinni hálfleik þar sem Blikar sóttu stanslaust að marki Valsmanna en náðu einhvern vegin ekki að klára færin til að komast yfir í leiknum.
KR leikurinn verður spilaður á grasi, veður spáin er ágæt, leikur sem við verðum að vinna til að gefa Blikum góða stöðu fyrir loka leik, niðurstaðan er sigur fyrir Blika 1-3.
Áfram Breiðablik!
Golfkennarinn og SpáBlikinn Andrés Jón Davíðsson
Dagskrá
Flautað verður til leiks á KR vellinum sunnudaginn 1. október kl.14:00!
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Mætum í stúkuna á KR vellinum og hvetum liðið okkar - sigur tryggir Evrópusæti 2024.
Áfram Blikar! - Alltaf, alls staðar!
PÓÁ
Markið og atvik úr viðureign liðanna úr 7.umferð á KR vellinum í sumar: