BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Keflavík - Breiðablik

16.07.2022 image

Grafík - Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Þrettándi leikur okkar manna í Bestu deild karla 2022 > Blikar með 6 stiga forskot á toppnum > Förum suður með sjó > Miðasala á Stubbur > Sagan: 128 mótsleikir > Gamli leikurinn: Keflavík - Breiðablik 1972 > Blikahópurinn 2022  > Lísa Kristín er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Keflavík - Breiðablik

Eftir sigur okkar manna gegn UE Santa Coloma á Kópavogsvelli í kvöld er ljóst að við mætum FK Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA 2022/2023. Fyrri leikurinn verður hér í víginu okkar á Kópavogsvelli, fimmtudaginn 21. júlí. 

En næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er á sunnudaginn. Þá ferðast liðið suður með sjó til að mæta spræku liði Keflvíkinga. 

Flautað verður til leiks á HS Orku vellinum í Keflavík kl.19:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 sýnir leikinn á BD 2 Stöð rásinni

Staðan í Bestu deild eftir 12 umferðir - okkar menn á toppnum með 6 stiga forskot:

image

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi mótsleikja liðanna í A og B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum er128. Blikasigrar eru 50 gegn 55, jafnteflin eru 23. 

Innbyrðis leikir í A-deild eru 59 leikir. Blikasigrar eru 22 gegn 24 sigrum Keflvíkinga og jafnteflin eru 13. Í leikjunum 59 hafa liðin skorað 195 mörk - Blikar 94 mörk gegn 101 mörkum Keflvíkinga. 

Síðustu 3 í deild í Keflavík: 

Gamli leikurinn

Allra fyrsti innbyrðis mótsleikur liðanna var spilaður á nýjum og glæsilegum grasvelli í Ytri-Njarðvík. Um var að ræða leik í 2. deild 1957 sem ÍBK vann 8:0. Leikurinn var annar mótsleikur Breiðabliks frá upphafi en knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð 1957.

Fyrsti sigur okkar á Suðurnesjaliðinu vannst í Litlu bikarkeppninni á Vallargerðisvelli í byrjun maí 1967. Þetta var óvæntur sigur enda Keflvíkingar þá topp lið í 1. deild en Blikar í 2. deild. Guðmundur Þórðarson skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti um miðjan seinni hálfleik. Keflvíkingar voru mjög sprækir í leiknum en vörn Breiðabliks lék mjög vel en enginn betur en Logi Kristjánsson sem á stórleik í marki Breiðabliks. 

Fyrsti sigurleikur okkar manna á útivelli kom ekki fyrr en árið 1971 þegar Blikar vinna ÍBK í 12-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ. Reyndar fór Blikar alla leið í Bikarnum það ár. Unnu topplið  Keflvíkinga, Valsmanna og Framara, en töpuðu úrslitaleiknum gegn Reykjavíkur Víkingum. 

50 ár frá fyrsta deildasigri í Keflavík

Gamli leikurinn að þessu sinni er 50 ára gamall. Um er að ræða fyrsta sigurleik Breiðabliks á ÍBK í efstu deild í Keflavík 6. september 1972. Blikar vinna 3:4 sigur á grasvellinum í Keflavík. Aðstæður voru erfiðar til knattspyrnuiðkunnar - rok og kuldi.

06.09 00:00
1972
Keflavík
Breiðablik
3:4
4
2
A-deild | 13. umferð
Keflavíkurvöllur | #

Þjóðviljinn 8. september: "Blikarnir" úr Kópavogi gerðu sé lítið fyrir og sigruðu ÍBK í Keflavík í fyrrakvöld 4:3. Þessi sigur Breiðabliks kemur nokkuð á óvart þar sem leikið var á grasvellinum, en aðstæður voru mjög slæmar, rok og kuldi."

Mörkin í leiknum gerðu: Ólafur Júlíusson 5.mín, Guðni Kjartansson 6.mín (sjálfsmark), Þór Hreiðarsson 31.mín, Hörður Ragnarsson 35.mín, Steinar Jóhannsson 70.mín, Heiðar Breiðfjörð 77.mín, Þór Hreiðarsson 81.mín

Breiðabliksliðið í leiknum: Ólafur Hákonarson (M), Helgi Helgason, Gunnar Þórarinsson, Einar Þórhallsson, Guðmundur Jónsson, Ríkharður Jónsson, Hinrik Þórhallsson, Haraldur Erlendsson, Heiðar Breiðfjörð, Þór Hreiðarsson og Guðmundur Þórðarson. 

Nánar um úrslit leikja & leikmannahóp Breiðabliks 1972.

image

Blikahópurinn 2022

Þrir leikmenn Keflavíkurliðsins hafa spilað í Breiðablikstreyjunni.

Erni Bjarnason er uppalinn Bliki. Hann lék 24 mótsleiki með Blikum á árunum 2013 til 2017. Sindri Snær Magnússon kom til Blika frá ÍR fyrir keppnistímabilið 2012. Hann spilaði 26 mótsleiki með Blikum 2012/2013. Og Adam Ægir Pálsson lek með Breiðabliki í 2. og 3. flokki. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfarari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkarþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 13. umferðar fæddist í Keflavík um miðja síðustu öld. Árið 1988 flutti hún í Kópavoginn, Kársnesi og vill hvergi annars staðar búa. Hún telur sig vera Breiðablikskonu í húð og hár – sérstaklega eftir að örverpið hennar byrjaði að æfa og spila með Breiðablik. Hún mætir á alla leiki og hvetur sitt lið til sigurs. Eldri sonurinn hóf sinn fótboltaferil í Breiðablik, en færði sig yfir til HK - það var á þeim árum sem Goran þjálfaði HK. SpáBlikinn og dóttir hennar hafa aðallega séð um að styðja strákana sína til sigurs 😊

Í hjarta SpáBlikans er smá pláss fyrir sjóðheitt Keflavíkurlið sem nálgast nú efri hluta Bestu deildar karla. Faðir minn, Gunnar Albertsson, og bróðir hans Sigurður Albertsson, spiluðu báðir með ÍBK hér áður fyrr ásamt mörgum öðrum þekktum fótboltamönnum í Keflavík. Pabbi hætti að spila vegna meiðsla og náði því miður ekki að verða Íslandsmeistari 1964.  

Það er gaman að rifja upp stemninguna í kringum fótboltann í Keflavík á þessum tíma. Þeir bræður, ásamt fjölskyldum sínum,  áttu heima í sama húsi -  Hringbraut 106, beint á móti malarvellinum. Fjölskyldurnar og vinir þeirra sátu oft saman við stofugluggana hjá Sigga og Sínu á efri hæðinni og horfðu á leikina þar. Ég man eftir skemmtilegu félagslífi í húsinu, sérstaklega þegar leikir voru-þá var nú líf og fjör á Hringbraut 106. En nóg um það,,,, 

image

Aftari röð: Þórhallur Guðjónsson, Högni Gunnlaugsson, Sigurður Albertsson, Gunnar Albertsson, Garðar Pétursson og Hafsteinn Guðmundsson. Fremri röð: Skúli Fjalldal, Svavar Færseth, Heimir Stígsson, Emil Pálsson og Páll Jónsson. Pabbi er þriðji frá hægri og Siggi bróðir hans þriðji frá vinstri í aftrai röð. 

Lísa Kristín Gunnarsdóttir - hvernig fer leikurinn?  

Það verður sko engin „Sumargjöf suður með sjó“ í þessum leik. Blikar munu mæta sterkir til leiks eftir jafnteflið í Eyjum og nauman sigur á U.E. Santa Coloma á Spáni þar sem leikaðstæður voru okkur óhagstæðar. Þegar þetta er skrifað, þá er seinni leikurinn gegn Santa Coloma á Kópavogsvellinum eftir tvo daga. 

Lið Breiðabliks er frábært og skemmtilegt karakterlið og við munum vinna þennan leik. Við höldum áfram að skora og ég spái sigri okkar manna 1:3.  Já, hverjir skora? - kannski eitthvað óvænt og skemmtilegt!  

Vonandi verður sól og blíða eins og er alltaf í Kópavogi, en ekki rok og rigning! 😊

Áfram Breiðablik!   

image

Lísa Kristín Gunnarsdóttir erSpáBliki 13. umferðar.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á HS Orku vellinum í Keflavík kl.19:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 sýnir leikinn á BD 2 Stöð rásinni fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn hafa ákveðið að keyra stemninguna í gang á útileikjum líkt og þeir hafa gert svo vel á heimaleikjum það sem af er tímabili. Það mætir herskari liðs frá sveitinni til að hvetja Blika áfram og hvetjum við alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á HS Orku vellinum í Keflavík. 

Mætum í stúkuna í Keflavík og hvetjum liðið okkar til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

BlikarTV: Klippur úr fyrri leik liðanna í Bestu á Kópavogsvelli 19. apríl:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka