Besta deildin 2023: KA - Breiðablik
11.08.2023KA - Breiðablik
Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er á sunnudaginn þegar við heimsækjum KA-menn.
Flautað verður til leiks á Greifavellinum á Akureyri kl.16:00!
Miðasala á Stubbur
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Staðan í Bestu deildinni fyrir leikinn:
Sagan & Tölfræði
Keppnisleikir Breiðabliks og KA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1987 eru 50 leikir.
Vinningshlutfallið fellur með okkur - Blikar með 32 sigra gegn 12 - jafnteflin eru 6.
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 26 leikir. Blikar hafa unnið 18 leiki gegn 4 - jafnteflin eru 4.
Síðustu 5 leikir gegn KA á Akureyri í efstu deild:
Leikmannahópurinn
Skrifstofan í Smáranum kallaði 2 leikmenn heim úr láni í dag, föstudag. Eyþór Aron Wöhler, sem var á láni hjá HK, og Dagur Örn Fjeldsted, sem var á láni hjá Grindvíkingum, eru aftur komnir með leikheimild með Breiðabliki og geta því tekið þátt í leiknum gegn KA á sunnudaginn.
Um miðjan júlí skrifaði okkar maður Alex Freyr Elísson undir lánsamning við KA og leikur nú með liðinu út núverandi tímabil.
Nokkrir leikmenn KA liðsins hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015. Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Blikum á árunum 2002-2008.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 19. umferðar er Kópavogsbúi í húð og hár og byrjaði að æfa fótbolta 11 ára gömul og spilaði upp alla yngri flokka Breiðabliks. Blikinn spilaði fyrsta meistaraflokksleik sinn 15 ára gömul hjá Jörundi Áka. Spilaði nokkra yngri flokka landsleiki og var síðan valin í A landsliðið 17 ára gömul. Var svo heppin að upplifa að fara á stórmót með landsliðinu á EM 2009. Stuttu eftir það þurfti blikinn því miður að hætta í fótbolta vegna 4 krossbandaslita. Eftir fótboltalífið tóku við barneignir og á 2 börn í dag sem æfa sjálf með Breiðablik.
Íslands- og bikarmeistarar 2005. Aftari röð f.v.: Magnús Valdimarsson liðsstjóri, Úlfar Hinriksson þjálfari, Björk Björnsdóttir, Lára Hafliðadóttir, Casey McCluskey, Unnur Ágústa Guðmundsdóttir, Hekla Pálmadóttir, Edda Garðarsdóttir, Sandra Sif Magnúsdóttir, Guðrún Erla Hilmarsdóttir, Erna Björk Sigurðardóttir, Tesia Kozlowski, Guðlaug Jónsdóttir, Bryndís María Theodórsdóttir, Inga Birna Friðjósdóttir, Linda Persson og Björn Kristinn Björnsson aðstoðarþjálfari. Fremri röð f.v.: Særún Jónsdóttir sjúkraþjálfari, Tinna Stefánsdóttir sjúkraþjálfari, Ingigerður Júlíusdóttir lisðstjóri, Bryndís Bjarnadóttir, Sandra Karlsdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir, Kolbrún Steinþórsdóttir, Ólína Viðarsdóttir, Fanndís Friðríksdóttir, Laufey Björnsdóttir og Meghan Ogilvie.
Erna Björk Sigurðardóttir - Hvernig fer leikurinn?
Það er búið að vera mikil törn hjá Blikunum og það verður erfitt verkefni fyrir þá að fara norður enda hafa KA menn verið á flugi í Sambandsdeildinni. Tel að Blikarnir vilji ná hefndum eftir bikarleikinn og ætla að spá því að Blikarnir komi glaðir heim frá Bosníu-Hersegóvínu og taka þann leik með sér í leikinn á móti KA og vinna leikinn 2-0.
Áfram Breiðablik!
SpáBliki leiksins, Erna Björk Sigurðardóttir, er stjórnarmaður í knattspyrnudeild Breiðabliks. Hér afhendir hún Oliver Sigurjónssyni leikjaviðurkenningu fyrir leik á Kópavogsvelli í sumar.
Dagskrá
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Flautað verður til leiks á Greifavellinum á sunnudag kl.16:00!
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
Svipmyndir frá heimsókn KA manna á Kópavogsvöll fyrr í sumar: