BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: Breiðablik – FH

06.04.2024 image

Jæja!

Fjölmiðlar eru samstíga í spá um gengi okkar manna og segja Breiðabliksliðið enda mótið í 3. sæti. Sama niðurstaða var í spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liðanna í Bestu deild karla á kynningarfundunum á þriðjudaginn. Á Stöð 2 Sport settu allir fjórir sérfræðingar Stúkunnar Breiðabliksliðið í 3. sæt. Íþróttavakt 433.is spáir okkur 2. sæti. Aðeins Fótbolti.net spáir okkar mönnum í 4. sæti. 

Löng hefð er fyrir birtingu stöðutöflu í fyrsta upphitunarpistli tímabils og að tíðindamaður blikar.is bendi á þá augljósu staðreynd að Breiðablik er alltaf efst í töfluröðinni þegar Íslandsmótið er flautað á 😊 Reyndar raungerðist það að Breiðabliksliðið hélt því sæti allar 27 umferðir keppnistímabilið 2022!

image

Fyrsta gestalið okkar á Kópavogsvöll í Bestu deild kara 2024 er sprækt lið Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Hafnfirska liðið hefur sigrað í þremur síðustu heimsóknum á Kópavogsvöll - síðast í febrúar í fyrsta leik Blika í Lengjubikarnum 2024. Leiknum lauk með 1:3 sigri FH. Blikliðið endaði samt riðilinn í efsta sæti. Spilaði undanúrslitaleik við Þór á þeirra heimavelli í Boganum á Akureyri. Sá leikur vannst 0:1 sem tryggði Blikaliðinu úrslitaleik gegn ÍA sem vannst 4:1 og Breiðablikslið því Lengjubikarmeistarar árið 2024. Okkar menn að vinna þann bikar í fjórða sinn frá upphafi Deildabikars KSÍ árið 1996. 

Hvað segir þjálfarinn

Tíðindamaður blikar.is spurði Dóra þálfara um stöðuna leikmannahópnum og væntingar til leikins gegn FH á mánudaginn.

Það er mikil tilhlökkun fyrir leiknum á mánudag. Hópurinn er á góðum stað, nánast allir heilir og tilbúnir í baráttuna. Væntingar til leiksins eru að við fyllum stúkuna af okkar góða stuðningsfólki og bjóðum uppá góða frammistöðu sem mun vonnandi gefa taktinn fyrir sumarið. Og það eru auðvitað frábærar fréttir fyrir alla Blika og alla knattspyrnuáhugamenn að fá Ísak heim í Breiðablik. Ísak sýndi það sumarið 2022 hversu frábær leikmaður hann er, og það sýnir metnaðinn sem býr í félaginu að sækja hann aftur.”

segir Halldór Árnason aðalþjálfari meistarflokks karla

Tölfræði

Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum, eru 125 leikir. Blikasigrar eru 45 gegn 56 - jafnteflin eru 24.

Leikir í A (59) & B (20) deild eru 79. Í bikarkeppni KSÍ eru 4 leikir. Deildabikar KSÍ 12 leikir. Í Fótbolta.net mótinu 8 leikir og 19 leikir í Litlu bikarkeppninni (1971-1993).

Innbyrðis í efstu deild

Leikir í A-deild eru 59. Hnífjafnt er á öllum tölum. Bæði lið hafa unnið 23 leiki og 13 sinnum gert jafntefli. Yfirlit.

Í leikjunum 59 hafa liðin skorað 178 mörk - Blikar með 92 mörk gegn 86 mörkum FH-inga

2024 hópurinn

Í leikmannahópi gestanna eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. 

Í okkar hópi er það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum.

Leikmenn sem eru komnir:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim

Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt

Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn

Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks

Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik

Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá A) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA).

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. LIðsstjóri er Marinó Önundarson. 

image

Breiðablikshópurinn - Lengjubikarmeistarar 2024

Stuðningamaðurinn

SpáBliki leiksins er ekki uppalinn Bliki 😊 en hann er aftur á móti talsvert mikið tengdur Breiðabliki í gegnum árin að því leyti að vera faðir barna sinna sem eru forfallnir Blikar frá blautu barnsbeini. Faðirinn heitir Margeir Kúld Eiríksson og er starfsmaður Volkswagen á Íslandi og hefur verið starfandi þar lengi. Blikinn er fæddur í Reykjavík 1965. Fyrstu árin voru í Vogunum (Þóttara hverfinu), en unglingsárin í Breiðholtinu. Þar æfði hann með Leikni sem ungur drengur þar sem æfingar fóru fram á velli sem þakinn var rauðamöl. Kannski urðu þar til þau gen sem urðu til þess að ég gat af mér þessa yndislegu Blika sem ég á - Viktor Örn og Dagmar Diljá og einnig Finn Orra sem er FH-ingur í dag. 

Margeir Kúld Eiríksson - hvernig fer leikurinn?

Þetta verður hörku leikur og menn koma grimmir í leikinn enda um fyrsta deildarleik að ræða hjá liðunum á tímabilinu og menn láta til sín taka. Blikar komu ekki vel út úr innbyrðis viðureignum liðanna á síðasta tímabili og hafa eflaust ekki áhuga á að endurtaka það. Þrátt fyrir það er það mín tilfinning að leikurinn endi með 2:2 jafntefli og að mínir menn skori sitthvort markið.

Margeir Kúld Eiríksson er SpáBliki fyrsta heimaleiks Blika í Bestu deild karla 2024.

Dagskrá

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á leikiinn er á Stubbur

Allt um Árskort ungir, Árskort, Blikaklúbbskort og Afreksblikakort HÉR.

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Myndband frá aðdraganda sigurleiks okkar manna gegn FH á Kópavogsvelli í maí 2022 - í boði Blikar TV:

Til baka