BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kátt í Kaplakrika!

30.09.2024 image

,,Loksins, loksins, loksins..,“ trölluðu stuðningsmenn Blika þegar þeir gengu kampakátir frá Kaplakrika eftir 0:1 sigur á heimamönnum í Bestu deild karla í gær. Ekki að furða því hálf-gerð álög hafa fylgt Blikaliðinu á þessum velli undanfarin ár.  Hver gleymir þungum skrefum Blika úr Krikanum í september árið 2021! En hugurinn leitaði aftur til ársins  2019 þegar Blikaliðið snéri 2:0 stöðu í 2:4 sigur eftir rosalegan síðari hálfleik.

Sigur Blikaliðsins var fyllilega sanngjarn í gær. En hann var óþarflega tæpur því við áttum fjölmörg tækifæri til að ganga frá leiknum. Hins vegar nýttum við ekki margar góðar stöður og svo varði markvörður heimapilta nokkrum sinnum frábærlega. En sem betur fer sleppti hann því að verja skot Kristins Jónssonar beint úr hornspyrnu og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Það reyndist sigurmark leiksins og má segja að meistarabragur einkenni spilamennsku Blikaliðsins að undanförnu.

Heimapiltar reyndu hins vegar strax frá byrjun að fornmannasið að skemmileggja fegurð knattspyrnunnar með ruddamennsku og klækjabrögðum. Það er reyndar ekkert nýtt hjá FH liðinu og hefur það tekist undanfarin ár. En núna tóku Blikar vel á móti og vældu heimadrengir mikið í dómara leiksins.

Pistlahöfundi hefur löngum verið nafnið Kaplakriki hugleikið.  Þetta hefur verið heimasvæði FH-inga síðan 1973 þegar félaginu var úthlutað þessari gömlu jörð. Mörgum þótti þetta nafn mikill tungubrjótur í byrjun en eins og með mörg önnur orð hefur þetta nafn vanist þokkalega. En það eru þó fæstir sem vita að ,,kaplarnir“ í nafninu hefur ekkert með rafmagnskapla að gera heldur er þetta fornt orð yfir hryssur!  Kaplamjólk kallast sú mjólk sem kemur úr júgri hryssna. Efnasamsetning hennar er mun líkari brjóstamjólk heldur en til dæmis kúamjólk, þó er sú síðarnefnda meira notuð til manneldis vegna þess hve kýr geta mjólkað meira en hryssur.

Ekki er vitað til að leikmenn FH drekki kaplamjólk fyrir leiki en hrossaat var vinsæl skemmtun á víkingatímanum. Þar var hryssum stillt upp og graðhestar látnir berjast um hylli hryssunnar. Heimapiltar virkuðu að minnsta kosti mjög uppspenntir fyrir leik og brutu illa á okkur mönnum í byrjun. En það er mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu, taka hraustlega á móti en samt láta samt ekki kappið bera fegurðina ofurliði.

Eins og í mörgum leikjum í sumar þá hefur Blikaliðið hafti frekar hægt um sig í fyrri hálfleik. Færin voru ekki mörg en markvörðu gestann varði þó mjög vel frá Ísaki skömmu fyrir leikhlé. En vörn Blikaliðsins var frábær allan leikinn og eiga pitarnir heiður skilið fyrir frammistöðuna.

Blikar komu tvíefldir til leiks í síðari hálfleik og tóku í raun öll völd á vellinum. En einungis hornspyrna Kristins Jónssonar rataði rétt leið.

Bekkurin nvar firnasterkur hjá Blikum að þessu sinn og það er algjör lúxus að geta skellt mönnum eins og Viktori Karli og Davíð Ingva inn á. Þrátt fyrir að FH ingar ættum 1-2 hálffæri þá var þetta sanngjarn Blikasigur.

Í lokin er rétt að hrósa FH ingum fyrir forvarnastarf vegna sjálfsvíga ungmenna. Hluti aðgangseyris þessa leik rann til Pieta samatakanna en það eru, eins og flestir vita, samtök sem hafa unnið frábært starf undanfarin ár í forvarnarmálum vegma sjálfsvíga. Sjálfur heilbrigðisráðherra, Willum Þór, mætti á leikinn til að sýna stuðning við átakið. Hann var  hugrakkur að setjast Blikamegin í stúkuna því hann skartaði FH treyju sem var að vísu gul í tilefni dagsins!

Baráttan um titilinn heldur áfram á fullum krafti. Andstæðingar okkar úr Fossvoginum unnu leik sinn um kvöldið á marki í uppbótartíma. Það er fagnarefni fyrir knattspyrnuáhugafólk því við ætlum okkur að taka titilinn í lokaleik á Víkingsvellinum fyrir framan fulla stúku af áhorfendum!

-AP

Til baka