BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla. Úrslitakeppni 2024: FH - Breiðablik

27.09.2024 image

Heimaleikir gegn: ÍA, Val og Stjörnunni. Árangur m.v. síðustu 5 í efstu deild.

Úrslitakeppnin 2024

Komið er að næsta leik okkar manna í úrslitakeppni Bestu deildar karla 2024. Við mætum spræku liði FH á þeirra heimavelli.

Flautað til leiks á Kaplakrikavelli sunnudaginn kl.14:00! 

Við hvetjum alla Blika til að mæta í Krikann á sunnudaginn og hvetja okkar menn til sigurs í baráttunni um  Íslandsmeistaratitilinn 2024.

Miðasala á Stubbur 

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staða Breiðabliksliðsins eftir fyrstu umferð af fimm í efri hluta úrslitakeppninnar. Liðið er í 2. sæti með 52 stig og hefur ekki tapað leik í síðustu 10 umferðum - þar af eru sigrar 6 síðustu umferðir í röð. Þrír mánuðir eru liðnir frá síðasta tapi sem var í 12, umferð á Kaplakrikavelli 28. júní 2024.

image

Fjórði innbyrðis keppnisleikurinn á árinu

Eftir þátttöku Breiðabliksliðsins í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA, sem lauk 14. desember 2023, hóf hluti leikmanna meistaraflokks æfingar 1. febrúar 2024, þannig að þegar við spilum fyrsta leik í lengubikarnum við FH þann 13. feb var hluti leikmannahópsins búinn með 7 æfingar en nokkrir leikmenn aðeins 2 æfingar.

Tankurinn tæmdist í síðari hálfleik! Tíðindamaður Blikar.is „Blikar urðu að sætta sig 1:3 tap gegn FH í Lengjubikarnum í kaflaskiptum leik. Okkar drengir voru mun betri í fyrri hálfleik og voru með sanngjarna forystu 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléi. Eyþór Wöhler setti markið eftir snarpa sókn Blikaliðsins á 21 mínútu. Lítið virtist vera á tankinum í síðari hálfleiknum og fengum við þrjú frekar ódýr mörk á okkur á síðustu 20 mínútum leiksins. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að Blikaliðið gefi eftir í síðari hálfleik. Frekar stutt er síðan liðið hóf æfingar á nýjan leik eftir hamaganginn fyrir áramót.

Tapið gegn FH var eini tapleikur liðsins í sjö leikjum í Lengjubikarnum 2024. Breiðabliksliðið stóð uppi sem sigurvegari Lengjubikarsins 2024 eftir 4:1 sigur úrslitaleik mótsins gegn ÍA í lok mars.

Baráttusigur í fyrsta leik. Tíðindamaður Blikar.is “Jæja, þá er veislan hafin og Besta deildin komin í gang. Okkar menn klárir í slaginn eftir stysta undirbúningstímabil í manna minnum. Kunnuglegur og árviss fiðringur lét á sér kræla og greinilegt að undirritaður var ekki einn í þeim báti því hvorki fleiri né færri en 1.823 mættu á þennan fyrsta (heima) leik Breiðabliks. Grillið á sínum stað og stemmningin góð fyrir leik.

Grasið er alveg jafn grænt! Tíðindamaður Blikar.is “Blikar lutu í gras 1:0 gegn baráttuglöðum FH-ingum í Hafnarfirði í gærkvöldi. Okkar drengir virkuðu hikandi og óöruggir meirihluta leiksins og voru svo sannarlega ólíkir kraftmiklu Blikaliðinu sem við fengum að kynnast fyrr í sumar."

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deildum, bikarkeppni, deildabikarnum og Litlu bikarkeppninni, eru samtals 127 leikir. Blikasigrar eru 46 gegn 57 - jafnteflin eru 24. Yfirlit. Leikir í A og B deild eru samtals 81. Í Bikarkeppni KSÍ eru 4 leikir. Deildabikar KSÍ 12 leikir. Í Fótbolta.net mótinu 8 leikir og 19 leikir í Litla bikarnum (1971-1993).

Efsta deild

Leikir í efstu deild eru 61. Staðan er hnífjöfn. Bæði lið með 24 sigra og 13 jafntefli Yfirlit. Í leikjunum hafa liðin skorað 181 mörk - Blikar með 94 mörk gegn 87 mörkum FH.

Kaplakrikavöllur erfiður Blikum síðustu ár

Nánast jafnt er á öllum tölum í 30 heimsóknum okkar manna á heimavöll FH í Kaplakrika. Heimaliðið er með 11 sigra gegn 10 sigrum okkar manna - jafnteflin eru 9. Yfirlit. 

Síðustu 5 heimsóknir okkar manna í Krikann:

Leikmannahópurinn

Í leikmannahópi gestanna eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí 2021. 

Í okkar hópi er það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH liðinu

image

Leikmannahópur Breiðabliks 2024

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur HéðinssonEiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi GuðfinnssonHaraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn FH: Þó litla fjölskyldan okkar hafi búið í Kópavogi í fjögur ár allt þar til ári áður en Anton Ari sonur minn fæddist þá tengist það því ekki að hugmyndina að nafninu á hann fundum við á rótgrónum Blika.  Maðurinn minn og pabbi Antons var á þeim tíma að vinna með syni Antons Bjarnasonar Blika og á nafnaskiltinu samstarfsmannsinsins stóð “Haukur Antonsson” Í spjalli við hann greip ég Antons nafnið í eftirnafninu hans og setti á listann þegar átti að skíra drenginn.  Það má því segja að hann hafi óbeint tentst Breiðablik strax á skírnardaginn, gaman að rifja það upp í dag.

Það var svo eftir að sonurinn samdi við Breiðablik haustið 2019 sem ég gerði það að venju að mæta á hvern einasta mótsleik.  Það hefur tekist það vel að ég hef mætt á alla að undanskildum útileik gegn KA í úrslitakeppninni 2022 þar sem sá leikur var færður og datt inn í brúðkaup elsta sonar míns og tengdadóttur. Mynd: Hanna ásamt dyggum stuðningsmönnum á leik Blikaliðsins í Svatrfjallalandi 2023.

Presturinn hafði orð á því ræðunni í kirkjunni að hann hafi aldrei áður mætt til að gefa saman ung hjón og mamma annars hvors væri með online fótboltaleik í gangi í símanum sínum á meðan á athöfn stæði.  Jú og svo var það útileikur gegn Rosenborg í covid faraldrinum, þrátt fyrir hetjulega baráttu við að reyna að komast þá var það útilokað vegna takmarkana.

Hanna Símonardóttir – Hvernig fer leikurinn?

Leikurinn verður í járnum framan af, andstæðingarnir þurfa að stíga upp eftir slæmt tap í vikunni  en okkar menn halda sínum takti.  Blikar skora svo snemma í fyrri hálfleik og halda eftir það betri stjórn á leiknum eftir að hafa misst síðasta leik upp í full mikið fjör enda á milli í eitt núll stöðu.  Þeir tvöfalda svo forystuna um miðjan hálfleikinn og þar við situr.  Tvö núll!   Höskuldur og Aron með mörkin eftir stoðsendingar frá Davíð og Ísak.

SpáBlikinn Hanna Símonardóttir og Einar Magnússon á leik og Breiðabliks gegn Zorya Luhansk í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA í desember 2023.

Dagskrá

Við mætum sterku liði FH á erfiðum útivelli í Kaplakrika. Flautað til leiks á sunnudaginn kl.14:00!

Miðasala á Stubbur 

Við hvetjum alla Blika til að mæta í Krikann á sunnudaginn og hvetja okkar menn til sigurs í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn 2024.

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Mörkin og atvik úr 2:2 jafnteflisleik liðanna í Krikanum 2023:

Til baka