BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Víkingur

30.07.2021 image

Leikjahrinan heldur áfram.

Vegna Evrópuleiks Breiðabliks gegn Aberdeen næsta fimmtudag hefur næsta deildaleik okkar manna verið flýtt.

Á mánudag - á frídegi verslunarmanna - fáum við Reykjavíkur Víkinga í heimsókn á Kópavogsvöll í 15. umferð Pepsi Max deildar karla. Þetta er fyrsta heimsókn Fossvogsliðsins á Kópavogsvöll í 3 ár eða síðan 23. maí 2018. Ástæða þessa er að árið 2019 spiluðu Blikar heimaleikinn gegn þeim á Fylkisvelli. Og í fyrra var enginn heimaleikur út af svoltilu. Flautað verður til leiks kl.19:15 á mánudaginn. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport.

Á undanförnum árum hefur stigasöfnun gegn Vík R. verið ágæt í heimaleikjum: 3 sigrar, 1 jafntefli og tap í síðustu 5 leikjum. 

Blikar eru með 25 stig í 4. sæti fyrir leikinn en eiga inni einn leik á Víkinga sem eru með 29 stig í öðru sæti og líka á KR-inga sem eru í 3 sæti með 25 stig. Valsmenn eru á toppnum með 30 stig eftir 14 leiki. 

Stöðutaflan fyrir leikinn: 

image

Sagan

Liðin hafa mæst alls 85 sinnum í opinberri keppni frá fyrsta innbyrðis leik liðanna árið 1957. Tölfræðin er hnífjöfn - bæði lið með 32 sigra og jafnteflin eru 21. Meira>

Blikamenn byrjuðu ekki að sparka í bolta fyrr en árið 1957. Það ár lék Blikaliðið aðeins 4 mótsleiki og einn þeirra var gegn Reykjavíkur Víkingum. Leikurinn fór fram á Melavellinum, heimavelli Víkinga, 17.júlí 1957 og tapaðist  6:2. Meira>

Efsta deild frá upphafi

Samtals 45 leikir frá upphafi. Fjórtán Blikasigrar gegn sextán sigrum Reykjavíkurliðsins. Jafnteflin eru 15.

Efsta deild frá áldamótum

Frá árinu 2000 hafa lið Breiðabliks og Víkings R. mæst 21 sinni í efstu deild. Jafnt er á flestum tölum. Blikar hafa sigrað 8 viðureignir, Víkingar 7 og jafnteflin eru 6. Samtals skora liðin 73 mörk í þessum leikjum: Breiðablik 36 mörk gegn 37 mörkum Víkinga. Leikir liðanna eru oft miklir markaleikir. Úrslit eins og t.d. 2:6, 2:2, 4:1, 4:1, 3:1, 2:4, 3:2, 4:2 eru ekki óalgeing.

Síðasti heimaleikur okkar manna gegn Fossvogsliðinu var í maí 2019. Leikurinn vannst 3:1. Kópavogsvöllur var ekki tilbúinn og því var leikið á Fylkisvelli í Árbænum. Í fyrra var mótið svo blásið af þegar 4 umferðum var enn ólokið. Í tímaröð hafa því 3 síðustu deildaleikir liðanna farið fram á Víkingsvelli: 2019: 3:2 tap. 2020: 2:4 sigur. 2021: 3:0 tap. 

Síðustu 5 heimaleikir í deild:

Leikmenn

Í janúar söðlaði bakvörðurinn sterki Davíð Örn Atlason um og skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðabliksliðið en hann lék 123 leiki fyrir Reykjavíkur Víkinga á árunum 2012 og 2015 - 2020. Nánar hér.

Í febrúar var tilkynnt um lá n okkar manns Karls Friðleifs Gunnarssonar í Fossvoginn keppnistímabilið 2021. Nánar hér.

Kwame Quee hefur leikið með báðum liðum. Hann lék með Víkingsliðinu á láni seinni hluta móts 2019 og aftur 2020. Kwame gerði starfslokasamning við Blika í fyrra en hefur nú samið við Reykjavíkur Víkinga.

Í félagaskiptaglugganum í fyrra skrifaði Atli Hrafn Andrason undir samning við Breiðablik. Atli, sem er uppalinn hjá KR, kom til Víkinga frá Fulham fyrir keppnistímabilið 2018. Atli náði sér ekki á strik hjá hjá okkur og gerði langtímasamning við ÍBV fyrr á þessu ári.

Og í þjálfarteymi Víkinga er maður sem Blikar þekkja vel. Hajrudin Cardaklija, markvarða þjálfari hjá Víkingi, á 107 leiki með Breiðabliki á árunum 1992 til 1996.

Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2021:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 15. umferðar sleit barnsskónum í vesturbæ Kópavogs og varð snemma mikill stuðningsmaður Blika. Hann var ekki orðinn hár í loftinu þegar hann fór með félögunum vestur á Melavöll að fylgjast með Halla leikfimikennara sínum og fleiri flinkum Blikum sparka tuðru á þurri mölinni. Eftirminnilegasti leikurinn á Melavellinum sem hann sá var þó úrslitaleikurinn í Bikarnum milli Breiðabliks og Víkinga í nóvember 1971 en því miður urðu Víkingar bikarmeistarar það árið. Hann æfði með Blikum í 5 flokki en eftir það tók boltinn með vinunum í Skólagerðinu við og völlurinn við Kársnesskóla var okkar heimavöllur í …..blessuð sé minning hans! Um tvítugsaldurinn tók hann aftur fram skóna í skipulagðri fótbolta með Augnabliki og æfði þá og spilaði með mörgum af gömlu átrúnaðargoðunum eins og Basla, Gulla, Vigni og Sigurjóni R. Jafnframt tók hann fram flautuna og dæmdi í nokkur ár fyrir yngri flokka Breiðabliks og ÍBV, þar sem hann bjó um tveggja ára skeið. Hálfþrítugur flutti hann í Fossvoginn og þótti þá Víkingum afleitt að maður með dómararéttindi væri að dæma fyrir annað félag en tilheyrði Dalnum og fór hann þá jafnframt að dæma fyrir þá. Þegar börnin komu voru þau auðvitað fljótt farin að æfa og keppa með Víkingum og þá sogaðist hann einnig inn í öflugt barna- og unglingastarf Víkinga. Nú eru börnin fullorðin en tengingin við Víkinga er enn sterk enda er konan í aðalstjórn Víkings og annar sonurinn spilandi þjálfari með Berserkjum sem er afsprengi Víkingsliðsins, rétt eins og Augnablik gagnvart Breiðabliki. Þótt hann hafi sterkar taugar til Víkinga þá er hann innst inni Bliki enda hefur hann spilað með Old boys liði Blika í næstum 30 ár undir styrkri stjórn Andrésar. Þar æfir hann m.a. með Halla leikfimikennara og fyrst hann er enn að æfa á fullu 76 ára getur maður ekki hætt! Hins vegar getur verið gott að halda með tveimur liðum því ef illa gengur hjá öðru getur maður oft fagnað góðum árangri hjá hinu. Nú er gengi beggja liða hins vegar með besta móti og maður hefur því oft gengið með bros á vör út í sumarkvöldið eftir leiki liðanna.

Sigurður Einarsson:  Hvernig fer leikurinn? 

Blikar eru að spila skemmtilegasta fótboltann um þessar mundir, þótt þeir hafi verið klaufar í nokkrum leikjum enda býður spilamennska þeirra upp á mistök endrum og eins.
Hins vegar voru þeir afleitir á móti Víkingum í Víkinni fyrr í sumar á meðan Víkingar sýndu sinn besta leik. Leikurinn á mánudaginn verður hörkuleikur enda mikilvægt fyrir bæði lið að ná góðum úrslitum til að halda í skottið á Völsurum. Hins vegar verða bæði Blikar og Víkingar án mikilvægra leikmanna. Viktor Karl tekur út bann, sem er slæmt fyrir Blika en það er enn verra fyrir Víkinga að verða án dönsku markamaskínunnar Niko Hansen. Stórleikur Blika við Austria Wien á fimmtudaginn mun sitja í leikmönnum þannig að þeir verða seinir í gang og hin ungi og efnilegi framherji Víkinga, Helgi Guðjónsson, mun skora fyrsta mark leiksins fyrir Víkinga snemma í fyrri hálfleik en Blikar munu gera tvöfalda skiptingu í hálfleik og varamaðurinn marksækni, Thomas Mikkelsen, mun setja eitt seint í seinni hálfleik. Liðin munu því skilja jafnt 1-1 sem heldur titilbaráttu beggja liða á lífi, sérstaklega ef ósk mín um að Valsarar fari að gefa eftir rætist.

image

Sigurður Einarsson SpáBliki 15. umferðar

Dagskrá

Því miður hefur aftur verið hert á takmörkunum vegna Covid19. 

Blikaklúbbsmeðlimir þurfa því aftur að skrá sig fyrir miðum á leiki og ganga fyrir miðum en ganga þarf frá pöntun fyrir annað kvöld þ.e. kl.19.00 sunnudaginn 1. ágúst. Smella HÉR!

Taka verður fram hvort viðkonadi er Blikar 1, Blikar 2 eða AfreksBliki. Miðarnir verða síðan sendir til ykkar með tölvupósti frá TIX. 

Munið að ekki er nóg að sýna Blikaklúbbskírteinið heldur verða menn að vera með miða!

Miðasala á tix.is

image

Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur í boði BlikarTV frá síðasta heimaleik okkar manna gegn Reykjavíkur Víkingum. Þetta var fyrsti heimaleikur Blika árið 2019. Leikurinn fór fram á Fylkisvelli þar sem nýja yfirborðið Kópavogsvelli var ekki tilbúið.

Til baka