BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - KA

18.08.2021 image

18. umferð Pepsi MAX karla 2021 fer fram um helgina. Okkar menn fá verðugt verkefni þegar Arnar Grétarsson kemur með sjóðheit KA lið í heimsókn á Kópavogsvöll. Flautað verður til leiks kl.18:00 á laugardaginn. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport. 

Fyrir leiki helgarinnar eru Blikar í þriðja sæti Pepsi MAX deildarinnar með 32 stig en KA fylgir fast á eftir með 30 stig í fjórða sæti. Bæði lið hafa spilað einum leik minna en liðin í fyrsta og öðru sæti - Val og Víking. 

Ástæðan er ítrekað frestaður leikur KA og Breiðabliks sem upphaflega var settur á síðustu helgina í maí, en verður spilaður á Akureyri núna á miðvikudaginn, 25. ágúst. Framundan eru því 2 leikir gegn KA á 5 dögum - Evrópustemming í þessu sem Blikamenn eru reyndar vanir eftir 3 slíkar viðureignir undanfarnar vikur. 

Það þarf ekki að orðlenga um mikilvægi leiksins á laugardaginn. Með sigri breikka Blikar bilið milli liðanna úr 2 stigum í 5 stig. 

image

Sagan

Heilt yfir fellur sagan með Blikum þegar úrslit allra innbyrðis mótsleiki liðanna eru skoðuð. Mótsleikirnir eru samtals 43 í öllum mótum frá upphafi. Blikar hafa yfirhöndina með 27 sigra gegn 10 sigrum KA manna og jafnteflin eru 6. Meira>

A-deild: 20 leikir (13-4-3) / B-deild: 8 leikir (5-0-3) / Bikarkeppni: 4 leikir (1-0-3) / Deildarblikar KSÍ: 8 leikir (6-1-1)

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 20 leikir. Blikar leiða þar með 13 sigra gegn 3 sigrum KA manna. Liðin skora mikið í þessum 20 leikjum eða 57 mörk.

Blikaliðinu hefur gengið vel gegn KA á Kóapvogsvelli. Í 11 efstu deildar leikjum gegn KA frá 1978 til 2020 hafa blikar unnið 7 viðureignir, gert 2 jafntefli og tapað tvisvari.

Síðustu 4 deildarleikir gegn KA á Kópavogsvelli:

Leikmenn

Nokkrir leikmenn KA liðsins haf spilað í grænu Breiðablisktreyjunni. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Breiðabliki á árunum 2002-2008.  Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015.

Og Arnar Grétarsson, þjálfari KA manna, deilir þriðja sæti með Elfari Frey Helgasyni yfir leikjahæstu leikmenn Breiðabliks frá upphafi með 289 mótsleiki og 61 skoruð mörk með fyrir Breiaðblik.

Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk með Blikum.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987.

Leikmannahópur Breiðabliks:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 18.umferðar er fæddur á Húsavík, uppalinn í Hafnarfirði en komst til vits og ára á Akureyri. Hann spilaði á sínum tíma lengst af hjá næstu andstæðingum okkar, KA mönnum, í gegnum yngri flokka félagsins og á 53 leiki með meistaraflokki félagsins að baki þar til hann hélt 24 ára utan til náms. Hann skoraði heilt eitt mark í þessum 53 leikjum en þar vippaði hann stórglæsilega (að eigin sögn) yfir núverandi markmannsþjálfara okkar Blika, Ólaf Pétursson, sem varði þá mark erkiandstæðinganna hjá Þór á Akureyri og er Ólafur reglulega minntur á þetta mark. Helgi hefur setið í stjórn knattspyrnudeildar síðan 2017 (er varaformaður deildarinnar) og hefur m.a. fylgt karla, kvenna og yngri flokkum félagsins í Evrópuævintýri þeirra í sinni stjórnartíð hjá félaginu. Hann sat í stjórn ÍTF sem fulltrúi félagsins frá 2020 til 2021.

Helgi Aðalsteinsson – Hvernig fer leikurinn ?

Ég reikna með virkilega erfiðum leik þar sem KA liðið er afar sterkt í dag, ekki síst baka til, enda gerði Arnar Grétarsson mjög vel á síðasta ári í að byggja liðið upp út frá sterkum varnarleik eftir að hann tók við stjórn þess á miðju tímabili. Góð lið grundvallast á sterkum og stöðugum varnarleik og í dag hefur liðið fengið fæst mörk allra liða á sig í deildinni sem um leið hefur ekki bitnað á sóknarleik þess enda er liðið í bullandi toppbaráttu í deildinni. Við sáum það í leiknum gegn Skagamönnum að lið sem spila öflugan varnarleik gegn okkur og geta einnig sótt hratt valda okkur töluverðum vandræðum auk þess sem KA menn eru afar sterkir í föstum leikatriðum og því reikna ég með erfiðum leik á laugardag. Mér finnst taktur okkar drengja afar öflugur um þessar mundir og raunar hafa verið svo um langt skeið. Óskar og hans teymi hafa haldið sig óhikað við þann leikstíl sem þeir aðhyllast enda hefur hann hentað okkur betur og betur eftir því sem á hefur liðið enda er ansi langt síðan maður upplifði slaka frammistöðu okkar drengja. Að mínu mati erum við með eitt stöðugasta liðið í deildinni í dag en að því sögðu þurfa menn að átta sig á því að það er ekkert gefið í þessari deild sem stefnir í að verða sú mest spennandi, jafnt á toppi sem botni, í háa herrans tíð. Leikmenn mættu að mínu mati pínu værukærir til leiks gegn baráttuglöðum Skagamönnum sl. mánudag og var fyrir vikið refsað í upphafi leiks og ljóst er að menn þurfa að mæta algerlega klárir frá fyrstu mínútu í þau verkefni sem framundan eru til að við getum gert okkur vonir um spennandi tíma á haustmánuðum.

Ég spái 2-1 sigri okkar manna í leik sem gæti líkt og sá síðasti orðið mikil þolinmæðisvinna. Veðurspáin fyrir laugardaginn er góð, það er mikill meðbyr með okkar mönnum og mæting á völlinn hefur verið ágæt í sumar og því reikna ég með og hvet um leið alla Blika til að mæta á völlinn á laugardag og styðja okkar öflugu drengi sem hafa heldur betur glatt okkur með góðri spilamennsku í sumar.

image

Helgi Aðalsteins, fyrir miðri mynd með Breiðablikstrefil, ásamt stjórnarmönnum og þjálfururm þ.m.t. Ólafi Pétrussyni

Dagskrá

Því miður eru enn takmarkanir vegna Covid-19. 

Miðasala er á tix.is

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport.

Flautað til leiks kl.18:00!

Ekki hægt að vera með neina veitingasölu á leiknum.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Í leik liðanna á Kópavogsvelli í fyrra voru skorðuð 2 mörk:

Til baka