BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sambandsdeild UEFA 2021/2022: Breiðablik - Aberdeen FC

03.08.2021 image

Evrópuævintýri okkar Blika heldur áfram. Á fimmtudaginn fáum við Abredeen FC í heimsókn á Laugardalsvöll í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA 2021/2022. Flautað verður til leiks kl.19:00!

Já, það er gaman að vera Bliki þessa dagana segir í pistli Eiríks Hjálmarssonar eftir 4:0 stórsigur okkar mann á Reykjavíkur Víkingum á mánudagskvöld. Grípum niður í lokaorð umfjöllunarinnar: 

"Aftur í Evrópuboltann

Sigurinn í kvöld var kröftug yfirlýsing um hvað Breiðablikslið strákanna getur í fótbolta. Við höfum séð þær nokkrar upp á síðkastið þar sem rúllað er yfir hvert þýskumælandi liðið á fætur öðru – genau – og nú bíður Aberdeen. Fyrstu andstæðingar Breiðabliks í Sambandsdeildinni, Racing FC, búa við ármót Alzette og Pétrusse í Lúxemborg, Vínarbúarnir í Austria, sem slegnir voru út næstir, búa á Dónárbökkum og Víkingar Reykjavík við Fossvogslækinn.

Við bjóðum hvaða lið sem er, ekki síst Skotana af bökkum Dee, velkomið til leiks á bakka íslenskra lækja hvort sem spilað verður við Kópavogslækinn (sem hét svolítið óvirðulegra nafni þegar ég var ungur, þarna rétt fyrir kristnitöku) eða Laugalækinn, sem kenndur er við funheitar og sígrænar Þvottalaugarnar í Laugardal.

Eiríkur Hjálmarsson"

Einnig gaman að rifja upp að fyrsti Evrópuleikur Breiðabliks í karlaboltanum var gegn skosku liði. Leikið var gegn Motherwell FC á þeirra heimavelli Fir Park. Nokkrir núverandi leikmanna Blikaliðsins léku þennan fyrsta Evrópuleik: Finnur Orri Margeirsson, Kristinn Steindórsson, Elfar Freyr Helgason og Andri Rafn Yeoman.

Leið Blika í þriðju umferðina

Um gestaliðið

 Aberdeen, Ísland, Sir Alex Ferguson og Thomas Mikkelsen

Einn allra sigursælasti þjálfari allra tíma er án efa Sir Alex Ferguson, sem þjálfaði lið Manchester United óslitið frá 1986 – 2013 og vann þar til ótal verðlauna sem ekki verða tíunduð hér. En Sir Alex sló fyrst í gegn sem þjálfari þegar hann tók við stjórastarfinu hjá Aberdeen liðinu árið 1978 eftir að hafa verið rekinn frá St. Mirren. Í framhjáhlaupi má geta þess að við málaferli í kjölfar brottrekstursins lét formaður St. Mirren hafa eftir sér eiðsvarinn að ,,hann (Sir Alex) væri gjörsneyddur allri getu sem framkvæmdastjóri”. Ææ.

Það fer reyndar tvennum og jafnvel þrennum sögum um ástæðu brottrekstursins. Hvað sem því líður tók Sir Alex semsagt við stjórastarfinu hjá Aberdeen í júní 1978 og það er skemmst frá því að segja að þar náði hann glæsilegum árangri með liðið á komandi árum, þó byrjunin væri reyndar örlítið brösótt. En strax á öðru tímabilinu vann félagið Skoska meistaratitilinn og rauf þar með 15 ára einokun Rangers og Celtic. Á næstu árum, eða þar til Sir Alex fór til Manchester United árið 1986, unnu þeir deildina 2svar til viðbótar, skoska bikarinn fjórum sinnum, deildabikarinn einu sinni, og að auki tvo Evróputitla, Evrópukeppni bikarhafa 1983, þar sem þeir unnu Real Madrid í framlengdum úrslitaleik og svo Ofurbikarinn (Uefa Super Cup) þar sem þeir unnu Hamburger Sportverein í 2ja leikja einvígi. Ekkert skoskt lið hefur unnið Evrópukeppni eftir þennan sigur Aberdeen.

Aberdeen, undir stjórn Sir Alex, kom 2svar til Íslands í Evrópukeppni, og í bæði skiptin var það lið Skagamanna sem var andstæðingurinn. ÍA var þá með geysisterkt lið og vann deild og bikar bæði 1983 og 1984. Aberdeen hafði betur í báðum viðureignum en Skagamenn veittu þeim verðskuldaða keppni og voru nálægt því að slá þá út 1983, þegar þeir töpuðu ósanngjarnt hér heima 1-2 og gerðu 1-1 jafntefli ytra. 

Í liði Aberdeen á þessum árum voru margir leikmenn sem síðar létu að sér kveða í öðrum löndum, má þar m.a. nefna Gordon Strachan, Jim Leighton, Alex McLeish og Eric Black, að ógleymdum James (Jim) Bett sem lék 2 leiki með Val 1978, áður en hann fór svo í atvinnumennsku til Belgíu,  og svo aftur 13 leiki með KR 1994, eftir að hann yfirgaf Aberdeen.

Nýjustu fregnir herma að til standi að reisa styttu af Sir Alex Ferguson fyrir utan Pittodrie, heimavöll Aberdeen. Það má nú eiginlega ekki minna vera, og þó fyrr hefði verið.
Þess má svo geta til gamans að Aberdeen lék fyrsta sinn í Evrópukeppni árið 1967. Andstæðingarnir voru KR og er skemmst frá því að segja að þar lutu Bjarni Fel og félagar í gras. Leikurinn ytra tapaðist 10-0 og hér heima fór 4-1 fyrir gestina. Mark KR gerði Eyleifur Hafsteinsson.

Leikir Aberdeen gegn íslenskum liðum

Evrópukeppni Bikarhafa
1967 – Aberdeen – KR 10 – 0
1967 - KR – Aberdeen 1-4
1983  - ÍA – Aberdeen 1-2
1983 – Aberdeen – ÍA 1-1

Evrópukeppni Meistaraliða
1985 – ÍA – Aberdeen 1-3
1985 – Aberdeen – ÍA 4-1

Nokkrir Íslendingar sem spilað hafa með Aberdeen: Kári Árnason, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, Haraldur Ingólfsson og bræðurnir Calum Þór og Baldur Bett. Kári var á mála hjá félaginu 2011-2012 og svo aftur 2017-18. Hann spilaði alls 54 deildarleiki. Þórarinn lék 3 deildarleiki tímabilið 2004-05, Haraldur lék 6 leiki tímabilið 1996-97 á láni frá ÍA. Calum lék 5 eiki á árunum 2000-02 og Baldur lék 2 leiki á árunum 1998-2000. Bett-bræður hófu sína ferla hjá Aberdeen. Þá lék Gunnar Einarsson á sínum tíma fyrir unglinga- og varalið Aberdeen en spilaði ekki fyrir aðalliðið.

Fyrsti leikur Aberdeen í deildinni heima var um síðustu helgi. Þeir fengu Dundee United í heimsókn og unnu þá 2:0 með mörkum frá Jonny Hayes á 27´og Christian Ramirez á 51'.

Einn okkar manna er mjög vel kunnugur Skoska boltanum - sér í lagi Dundee United. Þegar Thomas Mikkelsen kom til okkar frá Skotlandi um mitt ár 2018 kom hann frá Dunde United þar sem hann spilaði sem lánsmaður frá Ross County. Okkar maður á 72 leiki og 22 mörk að baki í Skotlandi á árunum 2017-2018. 

image

Um viðburðinn

Breiðablik og Aberdeen mætast í UEFA Europa Conference League núna fimmutdaginn 5. október kl.19:00!

Miðaverð er sem hér segir: Fullorðnir 2.000kr, VIP 6.500kr, Börn 16 ára og ygnri 200kr.

Innifalið í VIP miða er miði á leikinn og veitingar, bæði áfengir og óáfenigr drykkir.

Ath! Grímuskylda er á leiknum.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport

Bein textalýsing UEFA 

Miðasla er á tix.is

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka