Undankeppni Meistaradeildar UEFA 2023/24: FC Copenhagen - Breiðablik
31.07.2023Það er komið að seinni leik FCK og Breiðabliks í 2.umf undankeppni Meistaradeildar UEFA 2023/24.
Fyrri leikurinn var heimaleikur okkar manna. Að venju var Blikar.is með umfjöllun um leikinn. Tíðindamaður blikar.is skrifar undir fyrirsögninni Blikum refsað á stóra sviðinu."Blikar mættu í kvöld FCK í fyrri viðureign liðanna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í aðdraganda þessa leiks enda ekki á hverjum degi sem lið af þessari hlaupvídd kemur í heimsókn í dalinn græna. FCK sannarlega verið fremst meðal jafningja í Skandinavíu í s.k Evrópubolta undanfarin ár og tók við kyndlinum af vinum okkar í Rósenborg sem léku reyndar líka á Kópavogsvelli í sömu keppni 2011 og lutu í gras í eftirminnilegum leik."
Nánar um fyrri leikinn:
Liðin hafa nú mæst þrisvar - tvisvar í æfingamótinu, The Atlantic Cup, í Portúgal og svo leikurinn á Kópavogsvelli í síðustu viku:
Leið Breiðabliks í undankeppnina
Þegar dregið var í forkeppni Meistaradeildar UEFA 2023/24 13. júní í Nyon kom liðið Tre Penne frá San Marínó upp úr pottinum sem andstæðingur Breiðabliks í undanúrslitum forkeppni Meistaradeildarinnar. Forkeppnin var leikin á Kópavogsvelli dagana 27. og 30. júní 2023. Sigurvegarar leikjanna 27. júní, Breiðablik og Budućnost Podgorica, léku svo til úrslita 30. júní. Sigurvegari leiksins - Breiðablik - tryggði sér þar með inn í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar og mætti þar írsku meisturunum Shamrock Rovers sem okkar menn lögðu 0:1 í Dublin og 2:1 á Kópavogsvelli.
Leikir Breiðabliks í forkeppni Meistaradeildar UEFA 2023/24:
Um andstæðinginn
F.C. Copenhagen (danska: Football Club København), almennt þekktur sem FC København, FC Kaupmannahöfn, Kaupmannahöfn eða einfaldlega FCK, er danskt atvinnuknattspyrnufélag með aðsetur í Kaupmannahöfn, Danmörku. Félagið var stofnað árið 1992
F.C. Kaupmannahöfn hefur 15 sinnum unnið danska titilinn í fótbolta og 9 sinnum orðið danskur bikarmeistari.
Í evrópuboltanum hefur FCK komist í riðlakeppni Meistaradeildar UEFA og riðlakeppni Evrópudeildar UEFA oftar en nokkurt annað danskt félag. Og er eina danska félagið sem hefur komist í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. FCK er stigahæsta skandinavíska félagið á stigalista UEFA-liða.
Kaupmannahöfn spilar leiki sína á Parken leikvanginum, sem er einnig heimavöllur danska landsliðsins í fótbolta.
Knattspyrnufélagið er að mörgu leyti bæði gamalt og nýtt félag. Þrátt fyrir að klúbburinn hafi verið stofnaður árið 1992 á félagið sér meira en 100 ára sögu. Aðallið félagsins táknar tvö aðskilin félög: Kjøbenhavns Boldklub (elsta knattspyrnufélag meginlands Evrópu) stofnað 1876 og Boldklubben 1903 stofnað 1903. Vegna fjárhagserfiðleika alls staðar á Kaupmannahafnarsvæðinu á níunda áratugnum var Kjøbenhavns Boldklub á barmi gjaldþrots. Gömlu Kaupmannahafnarfélögin tvö tóku sig saman og stofnuðu yfirbygginguna sem í dag er FC København.
Með endurbyggingu Parken-leikvangsins, landsliðsleikvangs Danmerkur, hafði nýja félagið nútímalegan leikvang til að spila á frá upphafi. Upphaflegur metnaður félagsins var að taka þátt í Evrópukeppnum á hverju tímabili.
Árangur FCK heima
Meistarar x 15: 1992/93, 2000/01, 2002/03, 2003/04, 2005/06, 2006/07, 2008/09, 2009/10, 2010/11, 2012/13, 2015/16, 2016/17, 2018/19, 2021/22, 2022/23
Bikarmeistarar x 9: 1994/95, 1996/97, 2003/04, 2008/09, 2011/12, 2014/15, 2015/16, 2016/17, 2022/23
Deildarmeistarar: 1996
Super Cup meistarar x 3: 1995, 2001, 2004
Ørestad Cup x 2: 2000, 2002
The Atlantic Cup: 2014
Royal League x 2: 2004/05, 2005/06
Árangur í Evrópukeppnum
Fyrsti Evrópuleikur FCK var 16. september 1992, í UEFA-bikarnum 1992/93. FCK vann MP 10:1 en tapaði fyrir AJ Auxerre í annarri umferð. Í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu unnu þeir Manchester United 1:0 á heimavelli.
Síðan þá er félagið orðið sigursælasta danska liðið í Evrópukeppni. FCK komst fimm sinnum í riðlakeppni Meistaradeildar UEFA og fóru áfram í 16-liða úrslit 2010/11. FCK liðið komst í 8-liða úrslit Evrópudeildar UEFA 2019/20 en töpuðu fyrir Manchester United 1:0 í framlengingu.
Saga Blika í Evrópukeppnum
Karlalið Breiðabliks hefur tekið þátt í Evrópukeppni 5 ár í röð og í 9 ár af 13 mögulegum – fyrst árið 2010.
Leikurinn við FCK á miðvikudaginn verður því 33. Evrópuleikur Blikaliðsins frá upphafi.
Þátttaka í Evrópumótum til þessa:
- Meistaradeild: 2023, 2011.
- Evrópudeild: 2020, 2019, 2016, 2013, 2010.
- Sambandsdeild: 2022, 2021.
Liðin sem Blikar hafa mætt í Evrópuleikjum:
2023 - F.C. Copenhagen, Shamrock Rovers, Buducnost Podgorica, Tre Penne.
2022 - Istanbul Basaksehir, Buducnost Podgorica, UE Santa Coloma.
2021 - Aberdeen, Austria Wien, Racing Union.
2020 - Rosenborg.
2019 - Vaduz.
2016 - Jelgava.
2013 - Aktobe, Sturm Graz, FC Santa Coloma.
2011 - Rosenborg.
2010 - Motherwell.
Samtals 32 leikir í 11 löndum - 14 sigrar, 5 jafntefli, 13 töp.
Flestir leikir í Evrópukeppnum:
2023: Í gangi. Meistaradeild UEFA. Undankeppni: 2.umf. F.C.Copenhagen. 1.umf. Shamrock Rovers. Forkeppni: undanúrslit Tre Penne og úrslit Buducnost Podgorica.
2022: Sambandsdeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. Istanbul Basaksehir - 2.umf. Buducnost Podgorica - 1.umf. UE Santa Coloma.
2021: Sambandsdeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. Aberdeen FC - 2.umf. Austria Wien - 1.umf. Racing Uion.
2013: Evrópudeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. FC Aktobe - 2.umf. Sturm Graz - 1.umf. FC Santa Coloma.
Hvað gerist svo?
Búið er að draga í 3. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu, sigurliðið úr rimmu Breiðabliks og F.C. København mun mæta Spörtu frá Prag í næstu umferð. Leikið yrði gegn Spörtu Prag 8 eða 9 ágúst á Kópavogsvelli og útleikurinn viku síðar þann 15. ágúst í Prag. Tapliðið fer í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og eru mögulegir mótherjar þar HSK Zrinjski frá Bosníu eða Slovan Bratislava frá Slóvakíu. Fyrri leikurinn færi þá fram á útivelli þann 10. ágúst og heimaleikurinn viku síðar á Kópavogsvelli.
Leikmannahópurinn
Tveir Íslendingar eru í leikmannahópi FCK. Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson en Orri er sonur þjálfarans okkar, Óskars Hrafns. Þetta er mjög áhugaverð sviðsmynd og Óskar var spurður út í þetta í blaðaviðtali við Mbl.is í aðdraganda fyrri leiksins á Kópavogsvelli í síðustu viku: "Auðvitað er fótboltinn þannig að þú ræður ekki hverjum þú mætir og hverjir eru í liði mótherjanna. Það er ekki draumaverkefnið að mæta syninum. Ég vorkenni móður hans, Laufeyju konunni minni, meira. Hún þarf að sitja upp í stúku og halda með báðum liðum. Það má ekki gera þetta að einvígi míns og hans. Hvorugur okkar er í aðalhlutverki,“ sagði Óskar.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.
Dagskrá
Það verður fróðlegt að sjá seinni leikinn sem fram fer á Parken 2.ágúst. Þangað ætlar fjölmennur hópur stuðiningsmanna Blika. Hægt er að kaupa miða á heimasíðu FCK hér eða smella á myndina. Það þarf að skrá sig inn í kerfið hjá þeim að geta keypt miða í A11 sem er það hólf sem Breiðablik hefur fengið úthlutað á Parken vellinum.
Búið er að stofna viðburð á Facbook fyrir þá stuðningsmenn Breiðabliks sem ætla að gera sér ferð til Kaupmannahafnar. Þar munu koma inn upplýsingar varðandi miðasölu, viðburð á leikdegi og fleira. Nánar hér.
Leikur FCK og Breiðabliks verður sýndur í Grænu stofunni í stúkunni á Kópavogsvelli á morgun miðvikudag. Húsið opnar kl.17.00 en leikurinn sjálfur hefst kl.18.00.
Allir Blikar velkomnir!
FCK og Breiðablik mætast á Parken í Kaupmannahöfn í 2. umf undankeppni Meistaradeildar UEFA 2023/24, miðvikudaginn 2. ágúst kl.18:00 (GMT) 20:00 (CET).
Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Bein textalýsing UEFA hér.
Dómarar eru frá Ítalíu. Dómari: Fabio Maresca. Aðstoðardómarar: Daniele Bindoni og Christian Rossi. Fjórði dómari: Antonio Rapuano. Myndbandsherbergi: Luca Pairetto og Marco Piccinini.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
Grafík: Halldór Halldórsson