Besta deild karla. Úrslitakeppni 2022: Breiðablik - Víkingur R.
26.10.2022Grafík: Halldór Halldórsson
Í pistli dagsins ...
Tuttugasti og sjöundi og síðasti leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Yfirlit 22 leikja > Úrslitakeppnin > Blikar Íslandsmeistarar með 10 stiga forskot á næsta lið > Fáum Reykjavíkur Víkinga í heimsókn á Kóapvogsvöll > Miðasala á Stubbur > Kópacabana mætir að venju > Sagan: 90 mótsleikir > Blikahópurinn 2022 > Blaz Roca er SpáBliki leiksins > Hátíð á laugardaginn - takið daginn frá > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!
Punktar í lok venjulegs 22 leikja móts
Breiðablik var lang efst í Bestu deildinni eftir venjulegt 22 leikja mót – með 51 stig og 8 stiga forskot á Víking R. og KA í 2. og 3. sæti.
Annað árið í röð skora Blikamenn 55 mörk í 22 leikjum í deildinni.
Liðið bætti fyrra stigamet (2021) um 4 stig - endar með 51 stig.
Félög sem hafa náð 50+ stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: KR 2013, 2019 og Stjarnan 2014 52 stig. FH 2009 og Breiðablik 2022 51 stig. Valur 2017 50 stig.
Blikar voru taplausir í deild á heimavelli allt sumarið og hafa ekki tapað í 22 leikjum í deild í röð (21 sigur og 1 jafntefli) með markatöluna 66:12 í þessum 22 leikjum.
Blikaliðið vann alla heimaleikina í fyrra, nema fyrsta leik, með markatöluna 32:3. Í sumar sigraði liðið í 10 heimaleikjum í deild og gerði 1 jafntefli með markatöluna 34:9.
Alls skoraði Blikaliðið 98 mörk í 42 mótsleikjum á árinu 2022. Mörkin skiptast svona milli móta: Efsta Deild (22 leikir) 55 mörk, Mjólkurbikarinn 10 mörk, Sambandsdeild UEFA 9 mörk, Lengjubikarinn 13 mörk, FótboltaNet mót 11 mörk.
Þrír leikmenn meistarflokks eru með yfir 90% spilaðar mínútur í deildinni: Anton Ari Einarsson 22 leikir 100% mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson 22 leikir 99% mínútur og 5 mörk. Viktor Örn Margeirsson 20 leikir 91% mínútur og 1 mark.
Þrír markahæstu í 22 leikjum sumarið 2022: Ísak Snær Þorvaldsson með 13 mörk. Jason Daði Svanþórsson með 9 mörk og Kristinn Steindórsson með 6 mörk.
Breiðablik skráði sig svo á spjöld sögunnar þegar sigur vannst á gestaliðinu í lok júní. Leikurinn var sextándi heimasigur okkar manna í röð í efstu deild. Með sigrinum sló Blikaliðið 23 ára met sem ÍBV setti þegar Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og höfðu átt metið síðan, eða þar til Blikar jöfnuðu það í sigurleik gegn KA um miðjan júní.
Sagan 2022: Ítarleg tölfræði og yfirlit allra móta ársins.
ÚRSLITAKEPPNIN 2022
Þegar úrslit í leik Stjörnunar og Reykjavíkur Víkinga lágu fyrir var ljóst að ekkert lið gæti náð Blikum að stigum þrátt fyrir að tvær umferðir væru eftir af úrslitakeppninni. Það var því fagnað vel og innilega í stúkunni á Kópavogsvelli í leikslok.
Hér er upptaka af stemningunni í Smáranum þegar ljóst var að Blikar voru Íslandsmeistarar 2022:
Breiðablik mætti til leiks í Úrslitakeppnina með 51 stig og 8 stiga forskot á næstu lið. Stigasöfnun liða í þeim 4 leikjum sem búnir eru í úrslitakeppninni - einn leikur eftir. Breiðablik 9 stig KA og KR 7 stig. Víkingur 5 stig. Valur og Stjarnan 3 stig. Þegar 4 leikjum er lokið í úrslitakeppninni eru Blika-stigin orðin 60.
Leikirnir 5 í úrslitakeppninni eru:
Staðan eftir 26 umferðir - Blikaliðið með 10 stiga forskot á liða KA sem er í öðru sæti þegar einn leikur er eftir.
Sagan & tölfræði
Innbyrðis mótsleikir liðanna frá upphafi (1957) eru 90. Deildaleikir eru 69: 47 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild. Bikarleikir eru 12. Leikir í Deildabikarnum eru 8. Meistarakeppnin 1 leikur.
Liðin skipta sigrum bróðurlega á milli sín. Hlutfall allra mótsleikja er: 34 - 22 - 34.
Í 47 leikjum í efstu deild er staðan jöfn. Bæði lið hafa unnið 16 leiki og 15 sinnum er niðurstaðan jafntefli. Mörkin eru samtals 133 sem skiptast þannig að Blikar hafa skorað 68 mörk gegn 65 mörkum Víkinga.
Blikar fóru heim með 3 stig eftir heimsókn í Víkina um miðjan maí.
Tíðindamaður Blikar.is skrifar í pitstli eftir leikinn:
"Kópavogsbúum gekk alveg prýðilega að mynda meirihluta í kvöld. Líklega var meirihluti áhorfenda á Víkingsvellinum á bandi okkar fólks. Það veitti ekkert af. Nú voru það tvöföldu meistararnir frá fyrra sumri sem tóku á móti okkur grænklæddum og vissu það alveg að þetta var tækifæri þeirra til yfirlýsingar um að ætla að vera í toppbaráttunni. Breiðablik er liðið til að vinna þessa dagana og Arnar Víkingsþjálfari var bara glaðbeittur með yfirlýsingu um leikinn að það væri betra að vera veiðimaðurinn en bráðin. Gamall kollegi meðal stuðningsmanna Víkings var nú ekki á sama máli og spáði leiknum 1-3"
"Ekkert stórmeistarajafntefli" skrifar tíðindamaður Blikar.is eftir heimsókn Víkinga á Kópavogsvöll um miðjan ágúst og hann heldur áfram:
"Mánudagskvöldið 15. ágúst. Stórleikur Íslandsmótsins í Smáranum. Víkingar í heimsókn, átta stigum á eftir Blikum á toppnum en með leik inni. Allt undir. Ekki einungis baráttan um Fossvogslækinn. Sérfræðingar sögðu að færu Blikar með sigur af hólmi væri mótið búið, titillinn nánast í höfn. Aftur á móti myndu Víkingar opna deildina upp á gátt með sigri. Jafntefli gerði meira fyrir Blika. Bæði lið voru nýkomin úr erfiðum útileikjum í Evrópukeppni – var þreyta í mannskapnum?
Sól skein í heiði, hægur andvari, báðar stúkur fullar, fólk beðið að þjappa sér saman, staðið í brekkunni. Með öðrum orðum: það var urrandi stemmning í Kópavogsdal."
Blikahópurinn er Íslandsmeistari 2022
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019.
Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019.
Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005.
Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík.
Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.
Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.
Þrír í núverandi leikmannahópi Blika eru Íslandsmeistarar með Breiðabliki í annað sinn.
Snillingarnir Andri Rafn Yeoman (402 leikir / 22 mörk), Elfar Freyr Helgason (302 leikir / 11 mörk) og Kristinn Steindórsson (225 leikir / 76 mörk) voru allir leikmenn Breiðabliks þegar liðið tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn árið 2010.
Hér eru þeir félagar eftir lokaleik Íslandsmótsins 2010:
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki síðustu umferðar Bestu deildar karla 2022 er gallharður Kópavogsbúi og mikill stuðningsmaður Breiðabliks í knattspyrnu. Hann á það til að hneyksla fólk en er í raun mjög kurteins drengur sem fékk menningarlegt uppeldi með áherslu á andlegan auð. SpáBlikinn æfði sund með Breiðabliki en er núna tónlistar-, myndlistar- og sjónvarpsmaður. Blikinn hlaut gullplötu fyrir breiðskífuna, KópaCabana sem kom út 2010.
Blaz Roca - Hvernig fer leikurinn?
Kópacabana maðurinn - SpáBliki síðustu umferðar í Bestu deildinni - á góðum degi að fagna marki með Viktori Erni Margeirssyni
Dagskráin
Hátíð í Smáranum á laugardaginn næsta - takið daginn frá!
Það verður sannkölluð veisla næsta laugardag þegar Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki fer á loft í Kópavoginum.
Dagskráin er glæsileg og við hvetjum alla Kópavogsbúa til að fjölmenna.
11:30: Fjölskylduhátíð í Fífunni
- Hoppukastalar frá Skátalandi
- Dominos Pizza og Svali í boði
- Andlitsmálun
- Soccer genius knattþrautir
13:00: Breiðablik – Víkingur á Kópavogsvelli
Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.
15:00: Íslandsmeistaratitillinn fer á loft og öllum iðkendum boðið inn á völlinn til að fagna meisturunum.
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
19:30: Kópavogspartý og fögnuður í Smáranum. 18 ára aldurstakmark.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
Markaspyrpa 2022 í boði BlikarTV:
Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið
Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is
Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is
Miðlarnir eru:
www.blikar.is og www.blikar.is/kvk
Blikar.is á Facebook
Blikar_is á Twitter
Blikar_is á Instagram
Blikahornið á Soundcloud