BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - Valur

03.09.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti leikur okkar manna í Bestu deild karla 2022 > Blikar með 9 stiga forskot á toppnum > Fáum Valsmenn í heimsókn á Kópavogsvöll  > Miðasala á Stubbur > Sagan: 98 mótsleikir > Gamli leikurinn Breiðablik - Valur 2010 > Blikahópurinn 2022 > Helgi Seljan er SpáBliki leiksins > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - Valur

Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er heimaleikur gegn frískum Valsmönnum sem sitja í fjórða sæti stigatöflunnar með 32 stig eftir 5 taplausa leiki í röð. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala hér: https://stubbur.app

16 ára og yngri fá frítt á völlinn.

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Staðan eftir 19 umferðir – Blikar á toppnum með 9 stiga forskot á næsta lið:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 98 mótsleikir. Sagan fellur með Valsmönnum sem eru með 42 sigra gegn 35 sigrum okkar manna. Jafnteflin eru 21.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 71 leikir. Valsmenn hafa unnið 30 leiki gegn 25 og jafnteflin eru 16. Liðin skora samtals 215 mörk: Valur 113 og Blikar 102.

Leikurinn á mánudaginn verður þriðji keppnisleikur liðanna á þessu ári. Stigaöflun okkar á Origo vellinum um miðjan júní varð engin. Það stefndi allt í 2:2 jaftefli þegar Patrick Pedersen skoraði sigurmark heimamanna á 94' eftir að okkar menn höfðu lagt sig alla fram við að sækja sigur. 

Í síðustu heimsókn Valsmanna á Kópavogsvöll í lok maí unnu Blikar 6:2 stórsigur á Hlíðarendaliðinu í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarina. 

Valsmenn hafa oftar en ekki reynst okkur erfiðir í deildinni á Kópavogsvelli - aðeins einn sigur okkar manna í síðustu fimm heimsóknum:

Gamli leikurinn

Gamli leikuinn að þessu sinni er öruggur sigur Blika á Val á Kópavogsvelli í 14. umferð Pepsi deildarinnar eftir Verslunarmannahelgi í byrjun ágúst Íslandsmeistaraárið okkar 2010. 

Fyrirsagnir dagblaða:

Fréttablaðið: Blikar settu í fimmta gír gegn Val. Valsmenn mættu í Kópavoginn í gær til þess eins að vera niðurlægðir. Leikurinn var opinn í báða enda í fyrri hálfleik en Blikar höfðu öll völd í þeim seinni og komust aftur upp í toppsæti deildarinnar. 

Morgunblaðið: Blikar sýndu drápseðli. Slátruðu Valsmönnum í síðari hálfleik. Íslandsmótið gæti þróast út í kapphlaup tveggja liða. Ungir leikmenn Blika ákváðu að vera heima um helgina. 

Lið Breiðabliks: Ingvar Þór Kale M, Arnór Sveinn Aðalsteinsson (Árni Gunnarsson 69'), Kári Ársælsson, Elfar Freyr Helgason, Kristinn Jónsson, Finnur Orri Margeirsson (Rannver Sigurjónsson 79'), Guðmundur Kristjánsson, Jökull I. Elísarbetarson, Haukur Baldvinsson, Kristinn Steindórsson (Elvar Páll Sigurðsson 87'). Alfreð Finnbogason. 

Maður leiksins: Alfreð Finnbogason.

Mörkin: 42' Jökull I. Elísarbetarson. Stoðsending: Alfreð Finnbogason 59' Krsitinn Steindórsson. Stoðsending: Alfreð Finnbogason. 70' Alfreð Finnbogason. Stoðsending: Guðmundur Kristjánsson. 73' Guðmundur Kristjánsson. Stoðsending: Kristinn Jónsson. 76' Alfreð Finnbogason. Stoðsending: Haukur Baldvinsson.

Klippur og atvik úr leiknum 2010: 

Leikmannahópur Breiðabliks 2010:

image

Fremri röð f.v.: Ólafur H. Kristjánsson þjálfari, Rannver Sigurjónsson, Haukur Baldvinsson, Kristinn Jónsson, Guðmundur Kristjánsson, Ingvar Þór Kale, Kári Ársælsson fyrirliði, Sigmar Ingi Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason, Finnur Orri Margeirsson, Tómas Óli Garðarsson, Árni Vilhjálmsson, Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar. Miðröð f.v.: Ingvi J. Ingvason varaformaður, Örn Örlygsson, liðsstjórn, Arnar Bill Gunnarsson, aðstoðarþjálfari, Trausti Ósvaldsson liðsstjórn, Andri Rafn Yeoman, Elfar Freyr Helgason, Vignir Jóhannesson, Bjarki Aðalsteinsson, Ágúst Örn Arnarsson, Þorsteinn Hilmarsson, gjaldkeri, Guðrún S. Ólafsdóttir, ritari, Svavar Jósefsson, framkvæmdarstjóri, Ólafur Björnsson, formaður meistaraflokksráðs. Aftari röð f.v.: Jón Magnússon, liðsstjórn, Kristján H. Ragnarsson, sjúkraþjálfari, Alfreð Finnbogason, Elvar Páll Sigurðsson, Kristinn Steindórsson, Olgeir Sigurgeirsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Guðmundur Pétursson, Jökull Ingason Elísarbetarson, Rafn Andri Haraldsson, Úlfar Hinriksson, aðstoðarþjálfari, Þórður Magnússon, sjúkraþjálfari. Ljósmyndari: Gylfi Steinn Gunnarsson.

Blikahópurinn 2022

Ágúst Eðvald Hlynsson leikur nú með Val sem lánsmaður frá  AC Horsens. Hann á að baki 9 meistaraflokksleiki með Blikum árið 2016. 

Einn okkar manna hefur leikið með Val. Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 20. umferðar er íslenskur blaðamaður sem hefur meðal annars starfað á Austurglugganum, DV, Talstöðinni og NFS en þó lengstum í Kastljósinu á RÚV og síðar Kveik. Hann var kjörinn sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíðinni árin 2016 og 2017 og maður ársins 2019 af lesendum DV.is. Eftir 15 ára veru hjá Ríkisútvarpinu ákvað hann að söðla um og hefja störf á Stundinni, frá janúar 2022. 

SpáBlikinn spilaði síðast með Breiðabliki í 5. flokki á Faxaflóamóti/UMSK-móti, 1991 um haustið. Var þà í marki í C-liðinu. Sama haust flutti hann austur og lék eftir það með Austra. Hann man ekki til þess að félagaskiptin hafi farið hátt. Þetta var að minnsta kosti ekki alveg Figo frá Barca til Real.

Helgi Seljan – Hvernig fer leikurinn?

Undir venjulegur kringumstæðum væri maður smeykur við þennan leik, svona í ljósi leiksins sem við viljum helst gleyma sem fyrst, í Bikarnum í vikunni. En málið er að þetta lið hefur sýnt og sannað að um það gilda engar „venjulegar kringumstæður” Einbeitningin og fagmennskan í þessum hópi er slík. Ég ætla þannig að leyfa mér að rifja upp leikinn frá 2010 og segja að „við” svo gott sem endurtökum leikinn. Segjum 3 blikamörk á móti engu Valsmanna. 

image

Helgi Seljan er SpáBliki leiksins gegn Val á mánudaginn,

Dagskrá

Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er heimaleikur gegn frískum Valsmönnum. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala hér: https://stubbur.app

16 ára og yngri fá frítt á völlinn.

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Sjáðu mörkin þrjú frá deildaleik liðanna á Kópavogsvelli í fyrra:

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka