BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik - KA

19.05.2023 image

Skyggnst undir yfirborð Kópavogsvallar

Blikar fá KA-menn í heimsókn í 8. umferð Bestu deildarinnar á sunnudag. Leikurinn er jafnframt vígsluleikur nýs yfirborðs gervigrass á Kópavogsvelli. Í fróðlegum pistli, sem blikinn Eirikur Hjálmarsson tók saman undir fyrirsögninni "Skyggnst undir yfirborðið", er farið yfir árangur meistaraflokka síðustu 4 ár.

"Hvenær ertu á heimavelli og hvenær úti? Hvenær ertu á nýjum heimavelli og hvenær á þeim gamla?

Þessar hyldjúpu (en um leið yfirborðskenndu) spurningar sóttu að mér ekki bara eftir sigurinn í níu-marka-heima-leiknum á móti Fram uppi í Árbæ heldur líka vegna þess að nú 21. dag maímánaðar taka strákarnir í meistaraflokknum á móti KA á nýju yfirborði Kópavogsvallar. Mikið vatn og fleira flott hefur runnið til sjávar um Kópavogslækinn frá því sneitt var að Stjörnumönnum seint og snemma fyrir að spila mótsleiki á „teppi“ eða „plasti.“ Nú, með lengra keppnistímabili sem dekkar nánast allt sumarfrí fólksins sem situr á Alþingi, virðist sífellt nauðsynlegra að efstudeildarfélög búi að gervigrasi og Evrópukeppnisfélög að framúrskarandi slíkum velli (jafnvel með nægri lýsingu ???? Ef við lítum á nýtt yfirborð Kópavogsvallar sem „nýjan“ heimavöll, er ekki úr vegi að skyggnast undir gamla yfirborðið og rifja upp hvað fór eiginlega fram á því." slóð í umfjöllunina hér

image

image

Breiðablik - KA

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er á sunnudaginn þegar við fáum KA-menn í heimsókn.

Flautað verður til leiks á "nýjum" Kópavogsvelli kl.17:00! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Minnum líka á miðasölu árskorta: Árskort Þú velur: Árskort ungir 16-26.ára - Árskort - Stuðningsbliki - Afreksbliki.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í Bestu deildinni eftir 7 umferðir:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og KA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1987 eru 48 leikir. Vinningshlutfallið fellur með okkur - Blikar með 31 sigra gegn 11 - jafnteflin eru 6.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 25 leikir. Blikar hafa unnið 17 leiki gegn 4 - jafnteflin eru 4. 

Síðustu 5 heimaleikir gegn KA á Kópavogsvelli í efstu deild:

Hópurinn

Nokkrir leikmenn KA liðsins hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Blikum á árunum 2002-2008.  Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015. Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk.

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Blika milli ára.

Komnir: Alex Freyr Elísson frá Fram - Arnór Sveinn Aðalsteinsson kominn heim frá KR - Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (var á láni hjá Val) - Ágúst Orri Þorsteinsson frá Malmö - Eyþór Aron Wöhler frá ÍA - Klæmint Olsen á láni frá NSÍ Runavík - Oliver Stefánsson frá Norrköping (var á láni hjá ÍA) - Patrik Johannesen frá Keflavík og Stefán Ingi Sigurðarson frá HK (var á láni).

Farnir: Dagur Dan Þórhallsson til Orlando - Elfar Freyr Helgason í Val - Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg - Mikkel Qvist - Pétur Theódór Árnason á láni til Gróttu - Sölvi Snær Guðbjargarson í frí - Omar Sowe til Leiknis (var á láni frá NY Red Bulls) - Adam Örn Arnarson í Fram (var á láni hjá Leikni) - Benedikt Warén í Vestra (var á láni hjá ÍA)

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.  Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

Leikmannahópur Breiðabliks 2023:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 8. umferðar er yfirleitt kallaður Raggi Rögg. Hann er fæddur í Reykjavík en flutti í Kópavoginn 15 ára. SpáBlikinn var í 5. 4. og 3. flokki með Víkingum, en mætti svo til Breiðabliks í 2. flokki og svo meistaraflokki í framhaldinu en leikirnir þar urðu ekki margir. Blikinn náði þó að verða Íslandsmeistari innanhúss með Blikaliðinu í upphafi árs 1982 en fór sama ár norður á Akureyri til að spila með KA. SpáBlikinn er fráskilin og á 2 uppkomin börn með 2 konum. Blikinn er þrefaldur afi. Spámaðurinn hefur bakað ýmislegt um æfina enda lærður Bakarameistari og hefur starfað sem slíkur í hart nær 37 ár. Hann hefur eytt helmingnum af árinu í Tælandi og hinum helmingnum hér heima. Raggi starfar nú sem Konditor hjá Almari bakara í Hveragerði og er búsettur þar.

image

Mynd: Vináttuleikur á Akureyrarvelli 1982 KA - Manchester United, það sem er merkilegt við þennan leik er að gesta spilarar voru ekki af verri endanum : George Best, Arnór Guðjohnsen og Janus Guðlaugsson. Þarna eru leikmenn eins og Bryan Robson,Lou Mcary, Scott Macarvey, Gordon MaQueen ofl ofl. "Líklega merkilegasti leikur sem ég hef spilað" segir Raggi Rögg "og verður lengi í minnum hafður, hann endaði 1 - 7 United í vil … þarna er ég 20 ára og fannst þetta ekkert sérlega merkilegt, en árin líða og finnst í dag magnað að hafa spilað með George Best á móti þessum snillingum …!!"

Ragnar Rögnvaldsson - Hvernig fer leikurinn?

Sagt er að engin sé spámaður í sínu heimalandi ( hef þess vegna búið mikið erlendis ) en þetta er leikurinn Breiðablik - KA. Sá þætti Baldurs um undirbúnings tímabilið og finnst mikill metnaður hjá báðum liðum, Blikar hafa fram yfir KA að öll aðstaða er mun betri og meistarar síðasta ár, þetta tvennt vegur þungt.

Það vill svo til að ég hef spilað fyrir bæði félögin, Breiðablik og KA, í meistaraflokki, en með Blikum í 2. flokki og meistara ( + 15 ár í Old boys ) Þetta eru þau félög sem mér þykir vænst um og á ég þó Íslandsmet í félagaskiptum: 11 félög á 15 árum, takk fyrir !

En að leiknum: ennþá rennur í mér grænt blóð og spáin mín er: Breiðablik - KA 3 - 1

image

Ragnar Rögnvaldsson er SpáBliki 8. umferðar

Dagskrá

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Minnum líka á miðasölu árskorta: Árskort

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunndag kl.17:00! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemminguna í stúkunni.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Mörki og atvik úr leik Breiðabliks og KA á Kópavogsvelli 20. júní í fyrra:

Til baka