BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - KR

21.06.2022 image

Grafík - Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Ellefti leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar með 8 stiga forskot á toppnum > Fáum KR-inga í heimsókn á Kópavogsvöll > Miðasala á Stubbur > Sagan: 71 mótsleikir > Gamli leikurinn: Breiðablik - KR 1971 > Blikahópurinn 2022  > Einar Þórhalls er SpáBliki leiksins  > BlikaLjósið: Oliver Sigurjónsson > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - KR

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er strax á fimmtudag þegar við fáum KR-inga í heimsókn. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Staðan í Bestu deild eftir 10 umferðir - okkar menn á toppnum með 8 stiga forskot:

image

Sagan & Tölfræði

Innbyrðis leikir KR og Breiðabliks í efstu deild frá upphafi eru 71.

KR-ingar hafa vinninginn með 33 sigra gegn 16 sigrum Breiðabliks. Jafnteflin eru 22.

Eftir að Blikaliðið kom upp árið 2006 hafa liðin mæst 16 sinnum í efstu deild í Kópavoginum. Tölfræðin fellur með gestaliðinu sem hefur unnið 8 viðureignir gegn 5 sigrum heimamanna, jafnteflin eru 3. 

Fyrsti heimaleikur okkar manna í Pepsi MAX 2021 var gegn KR. Leikar fóru þannig að KR vann leikinn 0:2. Mjög súrt tap sem lagðist illa í menn - bæði stuðningsfólk og leikmenn enda þessi mikilvægi leikur fyrsti tapleikur liðsins í langan tíma. Í stuttu máli, meistarflokkur karla hefur unnið alla sína heimaleiki á Kópavogsvelli síðan. Sigurhrina liðsins á heimavelli í efstu deild er 15 leikir - 10 leikir 2021 og 5 leikir sem af er yfirstandandi keppnistímabils.

Síðustu 5 á Kópavogsvelli:

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er hálfrar aldar gamall. Um er að ræða fyrsta heimaleik Breiðabliks gegn KR í 1. deild. Leikurinn fór fram á gamla Melavellinum 23. júní 1971, en Melavöllur var heimavöllurinn okkar í 1. deild árin 1971, 1972 og 1973 - Vallargerðisvöllur í Kóavogi stóðst ekki vallarkröfur KSÍ um keppnisvelli á efsti stigi. Kópavogsvöllur, grasvöllur af bestu gerð, var svo vígður 7. júní 1975.

Blikamenn gerðu sér lítið fyrir og unnu stórveldið í vesturbæ Reykjavíkur með sigurmarki Haraldar Erlendssonar á 30. mínútu fyrri hálfleiks. 

23.06 18:00
1971
Breiðablik
KR
1:0
4
1
A-deild | 4. umferð
Melavöllur | #

Úr Morgunblaðinu 26. júní 1971:

"Verðskuldaður sigur Breiðabliks gegn KR 1-0.

Breiðablik var sterkari aðilinn í slökum leik gegn KR á Melavellinum sl. fimmtudagskvöld. Lítið var um skemmtileg tilþrif í leiknum, en Breiðablik hafði betur með meiri samleik og allt þar til á síðustu mínútum leiksins, meiri ákveðni með boltann. Eina mark leiksins skorðai Breiðablik á 30. mín fyrri hálfleiks og var sigurinn verðskuldaður. Fyrir þennan leik lét Breiðablik útbúa leikskrá, mjög einfalda í sniðum, en með öllum nöfnum leikmanna og númerum þeirra. Er það lofsvert framtak ........" meira>

LIð Breiðabliks í leiknum var svona skipað: Ólafur Hákonarson (M) - Steinþór Steinþórsson - Magnús Steinþórsson - Bjarni Bjarnason - Guðmundur H. Jónsson - Þór Hreiðarsson - Heiðar Breiðfjörð - Einar Þórhallsson - Guðmundur Þórðarson - Haraldur Erlendsson og Trausti Haraldsson.

Varamenn voru: Gissur Guðmundsson - Ríkarður Jónsson - Sveinn Þórðarson og Sigurjón Valdimarsson. 

Þjálfari: Sölvi Óskarsson

Leikmannahópur Breiðabliks 1971.

image

1971

Efri röð frá vinstri: Sölvi Óskarsson þjálfari, 29 ára, Trausti Hallsteinsson, 23 ára - útherji, Ríkharð Örn Jónsson, 21 árs - framvörður, Sigurjón Valdimarsson, 22 ára (lék ýmsar stöður), Þór Hreiðarsson, 21 árs - framvörður, Einar Þórhallsson, 19 ára - framvörður, Helgi Helgason (Basli), 19 ára - bakvörður, Guðmundur Þórðarson, 26 ára - miðherji, Haraldur Erlendsson, 26 ára - framvörður, Páll Bjarnason - formaður knattspyrnudeildar.

Neðri röð frá vinstri: Heiðar Breiðfjörð, 21 árs - framvörður, Guðmundur H. Jónsson, fyrirliði, miðvörður, Gissur Guðmundsson, 21 árs - markvörður, Ólafur Hákonarson, 19 ára - markvörður, Magnús Steinþórsson, 21 árs - bakvörður, Bjarni Bjarnason, 20 ára - miðvörður. Á myndina vantar: Steinþór Steinþórsson, 20 ára (bróðir Magnúsar) - bakvörður, Hinrik Þórhallsson, 17 ára (bróðir Einars), - útherji, Gunnar Þórarinsson, 22 ára, Karl Steingrímsson, 24 ára - útherji, Ólafur Friðriksson, 19 ára - útherji, Ómar Guðmundsson, 19 ára - markvörður.

Mynd: Gunnar Steinn Pálsson

Blikahópurinn 2022

Nokkrir uppaldir Blikar spila með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um árið 2016. Og fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfarari meistaraflokks karla og Halldór Árnason aðstoðarþjálfari eru með tengingu við KR. Báðir sem sem leikmenn og þjálfarar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfarari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkarþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 12. umferðar byrjaði í fótbolta í Val þar sem hann bjó í Hlíðunum í Reykjavík. Reyndar var álíka stutt á Framvöllinn og foreldrar hans voru Framarar, en SpáBlikinn  vildi í Val. Fluttum síðan á Hvolsvöll og vorum þar í 2 ár.

Svo lá leiðin í vesturbæ Kópavogs rétt hjá Vallargerðisvellinum og þar var dvalist löngum stundum og oft. Foreldrar mínir Hulda Pétursdóttir og Þórhallur Einarsson voru íþróttafólk og pabbi t.d. spilaði fyrsta landsleik Íslands 1946. Þau voru góðir stuðningsmenn mínir og okkar bræðranna Hinriks og Þórarins og mættu á alla leiki. Ég var mikið í sveit á sumrin sem truflaði svolítið ástundunina.

Við spiluðum úrslitaleik í 5. flokki á móti Val og var okkar kæri Guðmundur Þórðar þjálfari. Ég kom heim úr sveitinni í tíma til að geta  verið með og reyndar skoraði fyrsta markið, en við töpuðum 7:1. Síðan var spilað upp alla yngri flokkana og oft veittum við þeim bestu harða keppni, en aldrei urðum við Íslandsmeistarar. Við urðum þó bikarmeistarar í 2.flokki.

Ég fór svo að banka á dyrnar í meistaraflokki 1969 og svo unnum við okkur upp í fyrstu deild 1970 og stóra afrekið kom svo 1971 þegar okkur tókst undir stjórn Sölva Óskarssonar að halda okkur uppi, en áður höfðu lið sem komust upp fallið strax aftur (aðallega Víkingur). Sama ár lentum við í úrslitum í bikarkeppninni. Spilaði svo með Blikunum þangað til 78, en þá féllum við. Síðasti leikurinn það tímabil var gegn FH. Við vorum þegar fallnir og K.A. menn reiknuðu með að falla því að með sigri FH gegn okkur sem þegar voru fallnir væru þeirra dagar taldir í fyrstu deild. Það fór ekki svo því við unnum og sendum FH niður í stað KA. Þetta leiddi til þess að Akureyringar höfðu samband við mig og ég spilaði með KA 1979 og gat um leið tekið “héraðsskylduna” á kandidatsárinu í læknanáminu sem ég var að klára. Reyndar féll ég aftur um deild með KA, en dvölinni á Akureyri hefði ég ekki viljað missa af. Ég hafði spilað einn landsleik 1976 og var varamaður í öðrum 1977. Svo kom ég aftur heim í Kópavoginn og spilaði 1980 með Blikunum. Þá var komið að því að huga að sérfræðináminu og hugurinn stefndi til Bandaríkjanna, en með því hefði nú fótboltaferillinn verið búinn. Þá bauðst mér námsstaða í Svíþjóð og samningur við félag þar. Sérgreinin varð lyflækningar og meltingarsérfræði. Ég fór og spilaði þar í sex ár. Fyrst með Skövde AIK og síðasta árið með Ulvåker. Fluttist svo heim til Íslands á Selfoss 1989 og dvaldist þar í 2 ár og fluttist þá aftur til Svíþjóðar og hef búið þar síðan auk þess að hafa búið í Sádí Arabíu í nokkur ár. Er nú kominn á eftirlaun enda að nálgast sjötugt. Ég er þó ennþá að vinna við  maga- og ristilspeglanir á prívat klínik.

Börnin urðu 5 og barnabörnin orðin 8. Flest búa á Íslandi, en einnig í Svíþjóð og Suður Afríku. Tómstundir eru miklar. Ég er illa haldinn af golfbakteríunni og reyni að spila og æfa golf eins oft og hægt er. Hlusta mikið á klassíska tónlist, sérstaklega óperutónlist og svo spila ég tennis reglulega.

Einar Þórhallssson – Hverning fer leikuinn?

Ég þakka traustið að fá þetta verkefni að spá um úrslit gegn KR á heimavelli. Ég hef að sjálfsögðu fylgst með úrslitunum í deildinni og ekki hægt annað en stórhrífast af frammistöðu liðsins. 

Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki séð nema einn leik; leikinn gegn Fram á heimavelli og þar hafði ég reyndar spáð sigri Fram vegna þess að þar var við því búizt að liðið myndi vinna skv stöðunni á liðunum í deildinni og það hefur loðað við okkur (sérstaklega fyrr) að tapa stigum við slíkar aðstæður.

Þetta hefur nú breyst greinilega og ég held að miklu leyti sé þjálfaranum að þakka. Ég vil geta þess að faðir hans og ég vorum miklir vinir á gagnfræða- og menntaskólaárunum og hann spilaði með okkur.

Þó að KR sé langt neðan við Breiðablik á stigatöflunni er KR lið sem ekki má vanmeta svo að baráttuandinn þarf að vera í lagi og svo erum við á heimavelli og unnum þá á útivelli þannig að ég spái 2:1 sigri.

image

BlikaLjósið

"BlikaLjós leiksins" Umsjón: Aron Páll Gylfason.

Blikaljós vikunnar er enginn annar en Oliver Sigurjónsson. Það voru ófáir blikar sem voru svo gott sem búnir að afskrifa Oliver eftir síðasta tímabil. Hinsvegar hefur hann komið tvíefldur til baka á nýju tímabili og verið gjörsamlega ómissandi á miðju blika.

Það kom kannski best í ljós í leiknum gegn KA, hversu mikilvægur hlekkur Oliver er á miðju Óskars í dag. Mun Oliver byrja leikinn gegn KR og mun hann halda áfram frábæru gengi eða mun hann stíga sín fyrstu feilspor á tímabilinu? Fylgstu vel með leikmanni númer 3 á miðjunni í leiknum gegn KR.

image

Oliver á miðjunni í leiknum gegn KA . Mynd: HVH

Dagskrá

Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á fimmtudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

BlikarTV: Klippur úr fyrri leik liðanna í Frostaskjólinu 25. apríl:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka