BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2025: Valur - Breiðablik

09.08.2025 image

Blikar gerðu gríðarlega góða Evrópuferð til Bosníu í vikunnu. Gerðu þar 1:1 jafntefli Zrinjski Mostar í 3.umferð Evrópudeildar UEFA. Seinni leikurinn verður á Kópavogsvelli á fimmtudaginn kemur kl.17:30!

Sem sagt, stíf dagskrá hjá Blikaliðinu því að á sunnudaginn er sannkallaður toppslagur við Val á þeirra heimavelli. Valsmenn eru með 34 stig á toppnum - 2 stigum ofar en Breiðablik. Okkar menn þurfa stig á sunnudaginn til að lenda ekki á eftir Hlíðarendaliðinu. 

Flautað verður til leiks á N1 - ellinum á Hlíðarenda kl.19:15 á sunnudagskvöld! Miðasala á leikinn er á: Stubb Sýn Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Skilaboð frá Jöklinum: Langt síðan við unnum leik og nú er komið að sigri hjá okkar mönnum! Það hefur verið lágdeyða yfir stúkunni síðustu vikur og nú er kominn tími á að Blikar fái alvöru stemningu! Nú fylkjum við liði og mætum öll saman á Hlíðarenda að öskra og syngja okkar menn áfram til sigurs!

Staðan í Bestu deild karla eftir 17 umferðir: 

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá upphafi (1965) eru 107 leikir.  Valsmenn leiða í tölfræðinni með 44 sigrar gegn 41 - jafnteflin eru 22.

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru alls 80 leikir. Valsmenn leiða með sem nemur einum sigri - hafa unnið í 32 skipti gegn 31, jafnteflin eru 17.

Í 40 viðureignum liðanna í efstu deild á Hlíðarenda er Valur með yfirhöndina - leiða með 18 siga gegn 14 - jafnteflin eru 8. 

Síðustu 5 viðureignir liðanna á Valsvelli í 22 leikja móti í efstu deild :

Leikmannahópurinn

Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum og Aron Bjarnason á 21 leiki með Val sem lánsmaður frá Újpest.

Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.

image

Leikmannahópur Breiðabliks 2025

Stuðningsmaðurinn

Spábliki leiksins gegn Val er uppalinn Bliki og hefur búið í Kársnesinu alla sína æfi. Á yngri árum æfði hann fótbolta með Breiðablik og dró foreldra sína um allt landið á mót og leiki. Fyrstu leikir hans á Kópavogsvelli fóru mest í að leika sér í grassbrekkunni með vinum og æfingarfélögum. Á þeim aldri var meira leikið sér á leikjunum en horft á fótboltann.

Spáblikinn hætti síðan í fótbolta sem unglingur en hélt áfram að mæta á leiki og aðstoða föður sinn þegar hann fór í stjórn Blikaklúbbsins. Feðgar mættu fyrr á leiki og gerðu mat tilbúinn ásamt hinu og þessu sem þurfti að gera. Þetta varð að ákveðnum vana og hafa þeir feðgar mætt núna saman á flestalla leiki bæði hjá strákunum og stelpunum, alla daga ársins sama hvort þetta sé úrslitaleikur í deildinni eða fyrsti leikur í undirbúningnum. Þannig ef Breiðablik er að spila þá eru góðar líkur að Spáblikinn og faðir hans séu á vellinum, oftast er auðvelt að sjá þá þar sem faðir blikans, Guðmundur Jóhannesson, mætir oftast í grænu Blikaúlpunni sinni.

Árið 2021 var blikinn spurður af systur sinni, Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, þegar hún var formaður meistaraflokksráðs kvenna hvort hann gæti hjálpað í gæslunni á Kópavogsvelli, þá ákvað hann að taka það verk að sér og er að því enn í dag. Í öryggisteiminu eru þeir þrír, Héðinn Gunnarsson, Máni Sveinn Þorsteinsson og Jóhannes Guðmundsson. Þessir þrír mæta á nær alla heimaleiki liðsins og sjá um gæsluna, boltasækjarana, lukkudýrin sem leiða leikmenn og frágang fyrir og eftir leik. Oft kemur auðvitað fleira fólk sérstaklega á okkar stærri leikjum, þá reddar StórBlikinn Andrés Péturson þeim fleiri traustum höndum, en þeir þrír eru þarna nær alla leiki, tilbúnnir í allt mögulegt

Jóhannes Guðmundsson - Hvernig fer leikurinn?

Á sunnudaginn fara okkar menn á N1-völlinn í alvöru toppslag. Ég vona bara að strákarnir hermi aðeins eftir stelpunum sem unnu öruggan sigur á vellinum þann 4. ágúst. Þessi toppbarátta verður erfið og þurfum við að vinna þessa leiki til að hafa stjórn á eigin örlögum. Ég spái Blikum sigri nema hvað. Þetta verður markaveisla á sunnudagskvöldi og mun strákarnir vinna 3-2 í mikilli dramatík og fjörugum leik. Tobias skorar tvö og Höskuldur kemur með sigurmarkið okkar. 

Áfram Breiðablik!

SpáBliki leiksins, Jóhannes Guðmundsson

Dagskrá

Flautað verður til leiks á N1-vellinum Hlíðarenda kl.19:15 á sunnudagskvöld. 

Miðasala á leikinn er á: Stubb

Nú fylkjum við liði og mætum öll saman á Hlíðarenda að öskra og syngja okkar menn áfram til sigurs!

Sýn Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur úr síðustu heimsókn okkar manna á Hlíðarenda 10. ágúst í fyrra:

Til baka