BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Dagur Dan vængstýfði Val!

23.10.2022 image

Blikar unnu mjög góðan 2:5 sigur á Valsmönnum á Hlíðarenda í úrslitakeppni Bestu deildar karla í gærkvöldi. Fremstur meðal jafningja var Dagur Dan Þórhallsson sem setti þrennu í leiknum. Þar af tvö mörk úr nánast alveg eins aukaspyrnum.

Einnig skoruðu Höskuldur Gunnlaugsson úr vítaspyrnu og Viktor Karl Einarsson sitt markið hvor. Sigur Blika var sanngjarn en hugsanlega aðeins of stór miðað við gang leiksins því jafnræði var með liðunum framan af leik. En við Blikar grátum ekki þessi úrslit og ætlum okkur að klára þetta mót með stæl þrátt fyrir að Íslandsmeistaratitillinn sé löngu kominn í hús!

Byrjunarliðið:

image

,,Fyrr var oft í koti kátt, krakkar léku saman,“ orti skáldið Þorsteinn Erlingsson (1858-1914) um Hlíðarendakot, reyndar í Fljótshlíðinni en ekki í Reykjavík. En á margan hátt átti vísan við leikinn hjá Blikum og Val í fyrri hálfleik. Það sást langar leiðir að leikurinn hafði litla þýðingu fyrir bæði lið. Blikar þegar orðnir Íslandsmeistarar og Valsmenn í sárum eftir erfitt tímabil, bæði innan vallar sem utan.

Áhorfendur voru óvenjufáir þrátt fyrir að aðstæður til knattspyrnuiðkuna væru góðar. Þó verður að hrósa ungliðadeild Kópacabana sem fjölmennti að vanda á leikinn og lét vel til sín heyra allan leikinn.

Greinilegt að ungliðastarfið hjá Hilmari Jökli og Sindra er að skila sér!

Blikar náðu forystu tvisvar sinnum en létu Val skora jafnharðan aftur. Bæði Óskar Hrafn þjálfari og hetja leiksins, Dagur Dan Þórhallsson, létu hafa eftir í sjónvarpsviðtali eftir leikinn að um einbeitingarleysi hefði um verið að kenna. Það má ekki gerast þegar spilað er við lið sem kennir sig við fugl sem nefnist á latínu Falco rusticolus. Önnur heiti á íslensku yfir þennan fugl eru meðal annars fálki, haukur, fjörsungur, forseti, geirfálki og gollungur. Sagan segir að þegar stofnendur Hlíðarendaliðsins voru að vinna við að laga knattspyrnuvöll sinn á Melunum í Reykjavík árið 1911 hafi fálki sveimað yfir höfðum þeirra og þar fengu þeir þá hugmynd að kalla félagð Val. 

Það var líklegast skynsamlegt nafnaval enda hefði til dæmis fyrirsögnin ,,Dagur Dan vængstýfði gollunginn“ ekki hljómað mjög fallega.

En þá aftur að leiknum sjálfum. Það voru mun ferskari Blikar sem komu út á völlinn í síðari háflleik.  Við sóttum stíft og eftir um tíu mínútna  leik var Gísli Eyjólfsson felldur rétt fyrir utan vítateig heimapilta. Þar mætti Dagur Dan og setti knöttinn beint úr aukaspyrnunni með snilldarskoti yfir varnarvegginn og í netið. Danskættaður markvörður Valsmanna Fredrik Schram átti ekki möguleika í spyrnuna.

Næst bar til tíðinda að síbrotamanninum Sebastian Hedlund var vikið af velli fyrir að beita handboltatrixum til að stöðva Ísak Snæ áður en hann slapp í gegn. Þar með kórónaði Svíinn slakan leik sinn en það var hann sem braut á Viktori Karli í fyrri hálfleik og fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Þá flaug upp í huga vísukorn Þorsteins Erlingssonar á nýjan leik.

,,Þótt ellin þér vilji þar víkja um reit,

það verður þér síður til tafar;

en fylgi´ hún þér einhuga in aldraða sveit,

þá ertu á vegi til grafar.“

Segja má að með þessum reisudómi hafi úrslit leiksins verið ráðin. En Blikar voru samt ekki hættir. Skömmu fyrir leiklok fengum við aðra aukaspyrnu á nánast sama stað og í fyrra brotinu. Nú var það Viktor Karl sem var hindraður.  Aftur sendi Dagur Dan knöttinn yfir vegginn á jafnvell enn glæsilegri hátt og átti Fredrik Schram ekki möguleika að ná til knattarins. Þetta minnti á tilþrif gamals félaga okkar Guðjóns Péturs Lýðssonar sem setti þau ófá með svona spyrnum fyrir Blikaliðið.

Mjög dró úr ákefð manna eftir þetta atvik. Blikar spiluðu knettinum fram og aftur en örvæntingarfullir Valsmenn, einum færri, reyndu að ná knettinum. En í einu óðagotinu sendi Aron Jóhannsson Valsmaður knöttinn á Viktor Karl sem þakkaði pent fyrir sig og skaut knettinum í autt markið.

2:5 stórsigur okkar manna staðreynd og það voru stoltir og glaðir Blikar sem héldu í Kópavoginn eftir eftir þessa gleðistund að Hlíðarenda. Í lokin fékk Pétur Theodór Árnason ásamt þeim Mikkel Quist og Omar Sowe að spreyta sig í nokkrar mínútur. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá Pétur Theodór aftur inn á velllinum. En þetta var fyrsti leikur hans í Blikabúningnum en hann hefur glímt við mjög erfið meiðsli frá því að hann kom til okkar síðasta haust frá Gróttu. Vonandi fáum við að sjá meira frá þessum snjalla framherja.

En önnur tölfræði gladdi einnig. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson splaði sinn 250. leik fyrir félagið og þetta var 100. leikur á milli Breiðabliks og Vals í öllum keppnum frá upphafi. Ekki leiðinlegt að klára þann leik með þessari markatölu.

image

Blikar ljúka síðan glæsilegu Íslandsmóti 2022 með lokaleik gegn Víkingum á Kópavogsvelli á laugardaginn kemur. Þar tökum við á móti Íslandsmeistarabikarnum og ætlum síðan að fagna í Smáranum um kvöldið þessu frábæra ári! Þar verð allir að mæta!

-AP

Mörkin:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka