BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla. Úrslitakeppni 2022: Valur - Breiðablik

20.10.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti og sjötti leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Yfirlit 22 leikja > Úrslitakeppnin er hafin > Blikar Íslandsmeistarar með 10 stiga forskot á næstu lið > Heimsækjum Val á Origo-völlinn > 100. mótsleikur liðanna > Miðasala á Stubbur > Kópacabana mætir að venju > Sagan: 99 mótsleikir > Blikahópurinn 2022 > SpáBliki leiksins er Arnar Ingi Ingason > Dagskrá > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Punktar í lok venjulegs móts

Breiðablik var lang efst í Bestu deildinni eftir venjulegt 22 leikja mót – með 51 stig og 8 stiga forskot á Víking R. og KA í 2. og 3. sæti.

Annað árið í röð skora Blikamenn 55 mörk í 22 leikjum í deildinni.

Liðið bætti fyrra stigamet (2021) um 4 stig - endar með 51 stig.

Félög sem hafa náð 50+ stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: KR 2013, 2019 og Stjarnan 2014 52 stig. FH 2009 og Breiðablik 2022 51 stig. Valur 2017 50 stig. 

Blikar voru taplausir í deild á heimavelli allt sumarið og hafa ekki tapað í 22 leikjum í deild í röð (21 sigur og 1 jafntefli) með markatöluna 66:12 í þessum 22 leikjum.

Blikaliðið vann alla heimaleikina í fyrra, nema fyrsta leik, með markatöluna 32:3. Í sumar sigraði liðið í 10 heimaleikjum í deild og gerði 1 jafntefli með markatöluna 34:9.

Alls skoraði Blikaliðið 98 mörk í 42 mótsleikjum á árinu 2022. Mörkin skiptast svona milli móta: Efsta Deild (22 leikir) 55 mörk, Mjólkurbikarinn 10 mörk, Sambandsdeild UEFA 9 mörk, Lengjubikarinn 13 mörk, FótboltaNet mót 11 mörk. Þegar þetta er ritað er Breiðabliksliðið búið að skora 5 mörk í úrslitakeppninni 2022.

Þrír leikmenn meistarflokks eru með yfir 90% spilaðar mínútur í deildinni: Anton Ari Einarsson 22 leikir 100% mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson 22 leikir 99% mínútur og 5 mörk. Viktor Örn Margeirsson 20 leikir 91% mínútur og 1 mark.

Þrír markahæstu í 22 leikjum sumarið 2022: Ísak Snær Þorvaldsson með 13 mörk. Jason Daði Svanþórsson með 9 mörk og Kristinn Steindórsson með 6 mörk.

Breiðablik skráði sig svo á spjöld sögunnar þegar sigur vannst á gestaliðinu í lok júní. Leikurinn var sextándi heima­sig­ur okkar manna í röð í efstu deild. Með sigrinum sló Blikaliðið 23 ára met sem ÍBV setti þegar Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og höfðu átt metið síðan, eða þar til Blikar jöfnuðu það í sigurleik gegn KA um miðjan júní.

image

Ítarlega tölfræði og yfirlit allra móta ársins 2022 má finna á Sagan 2022

ÚRSLITAKEPPNIN 2022

Þegar úrslit í leik Stjörnunar og Reykjavíkur Víkinga lágu fyrir var ljóst að ekkert lið gæti náð Blikum að stigum þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir af úrslitakeppninni. Það var því fagnað vel og innilega í stúkunni á Kópavogsvelli í leikslok.

Hér er áður óbirt upptaka af stemningunni í Smáranum þegar ljóst var að Blikar voru Íslandsmeistarar 2022:

Breiðablik mætti til leiks í Úrslitakeppnina með 51 stig og 8 stiga forskot á næstu lið. Þegar 3 leikjum er lokið í úrslitakeppninni eru Blika-stigin orðin 57.

Leikirnir 5 í Úrslitakeppninni eru:

image

Staðan eftir 25 umferðir - Blikaliðið er nú með 10 stiga forskot á næstu lið þegar 2 leikir eru eftir. 

image

Sagan & tölfræði - 100. mótsleikurinn

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum eru 99. Sagan fellur með Valsmönnum sem eru með 42 sigra gegn 36 sigrum Blikamanna. Jafnteflin eru 21. Leikurinn á laugardaginn verður því 100. mótsleikur liðanna frá upphafi. Fyrsti innbyrðis leikur liðanna var í Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum 13. ágúst 1965. Leikirnir eru nú alls 99: 72 leikir í A-deild, 4 leikir í B-deild, 13 leikir í Bikarkeppni KSÍ og 10 leikir í Deildabikar KSÍ. 

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 72 leikir. Valsmenn hafa unnið 30 leiki gegn 26 og jafnteflin eru 16. Liðin skora samtals 216 mörk: Valur 113 og Blikar 103.

Blikar sóttu ekki stig í greipar Valsmanna þegar við heimsóttum þá um miðjan juní í sumar. Okkar menn með 2:2 stöðu þegar lítið var eftir og ákveðnir í að vinna leikinn. 

Tíðindamaður blikar.is skrifar:

"Nú átti að sækja sigurinn og maður hafði á tilfinningunni að það myndi bara eitt lið geta unnið þennan leik. Blikar komust í vænlega sókn á 90. mínútu og gerðu harða hríð að marki Vals en inn vildi boltinn ekki. En heimamenn voru ekki dauðir úr öllum æðum og stálu sigrinum í lokin með marki eftir skyndiupphlaup. Það var ári súrt að fá þetta mark í andlitið eftir stórbrotna endurkomu en við því er ekkert að gera. Menn ætluðu að sækja sigurinn og voru svo nálægt því. Baráttan heldur áfram."

Annað var upp á teningnum þegar Valsmenn komu í heimsón á Kópavogsvöll í byrjun september. 

Tíðindamaður blikar.is skrifar undir fyrirsögninni "Alvöru skilaboð!"

"Get viðurkennt að ég þurfti að hella upp á fullan bolla af þolinmæði og vonaðist til að Blika liðið væri að gera það sama. Mér varð að ósk minni því þeir héldu áfram að spila sinn bolta og náðu að opna Vals liðið með því að spila sig upp í gegnum miðjuna. Höskuldur fékk boltann fyrir framan teig, kom boltanum á Jason Daða sem tók fasta sendingu fyrir markið þar sem Ísak Snær var á fjærstönginni og sett boltann fram hjá Frederik sem gerði allt sam hann gat til að verja en náði því ekki. Staðan orðin 1-0 fyrir Blika og það var sanngjarnt."

Blikahópurinn er Íslandsmeistari 2022

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. 

Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. 

Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. 

Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. 

Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.

Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Þrír í núverandi leikmannahópi Blika eru Íslandsmeistarar með Breiðabliki í annað sinn. 

Snillingarnir Andri Rafn Yeoman (402 leikir / 22 mörk), Elfar Freyr Helgason (302 leikir / 11 mörk) og Kristinn Steindórsson (225 leikir / 76 mörk) voru allir leikmenn Breiðabliks þegar liðið tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn árið 2010. 

Hér eru þeir félagar eftir lokaleik Íslandsmótsins 2010:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 27. umferðar er 26 ára tónlistarmaður, fæddur og uppalinn í Kópavogi. Ég hef verið Bliki frá því ég man eftir mér og æfði fótbolta með Breiðablik upp að 3. flokki. Einnig var ég á skíðunum í einhvern tíma og samkvæmt mömmu hafi ég að alist upp í Breiðabliksskálanum í Bláfjöllum að einhverju leyti.

Það er ekki hægt að segja að gæðin hafi lekið af manni sem knattspyrnumaður enda var ég iðulega settur í liðin aftar en A og B í stafrófinu. Það var til að mynda ekkert sérstaklega mikil stemning fyrir því heima í Fagrahjallanum þegar það kom í ljós að ég væri í E-liði á N1 móti þess árs. Og ekki bara E heldur E2. Það var ákveðinn skellur. Björn Þór bróðir minn sem er (sjálftitluð) Augnabliks-goðsögn var samt alltaf duglegur að minna mig á að Hemmi Hreiðars hafi alltaf verið í D-liðinu á sínum tíma og ég ætti ekki að pæla of mikið í þessu.

Ég held að það sé kannski ástæðan fyrir því að í 5. og 4. flokki hafi ég alltaf verið frekar viss um að ég gæti komið með eitthvað meira en servíettur að borðinu, en þegar í 3. flokkinn var komið var ég farinn að fatta að gæðamunurinn var orðinn of mikill. Þá var bara fínt að snúa sér að tónlistinni.

Arnar Ingi Ingason - Hvernig fer leikurinn?

Það er virkilega gaman að fá að spá fyrir um þennan leik og þakka ég traustið. Ég setti mér markmið fyrir sumarið að mæta á alla heimaleiki liðsins og þá útileiki sem væru á höfuðborgarsvæðinu ef ég væri á landinu og ég held að það hafi nokkurn veginn gengið eftir fyrir utan nokkur frávik. En það hefur verið hreint út sagt yndislegt að horfa á liðið í sumar enda spilamennskan upp á 10 og úrslitin eftir því.

En að leiknum. Ég held að mesti meistarahrollurinn, ef svo má að orði komast, sé kominn úr okkar mönnum eftir síðasta leik gegn KR. Það hefur ef til vill verið erfiðara en venjulega að mótivera menn í þann leik í ljósi þess að loksins var titillinn í höfn og eitthvað var um húllumhæ bæði fyrir og eftir leik. En nú held ég að menn séu búnir að ná að fagna sæmilega og komnir lengra niður á jörðina.

Valsmenn eru með einn sigur í síðustu átta leikjum. Sá sigur kom í síðasta leik á móti Stjörnunni, sem líkt og Valsmenn eru búnir að pakka í töskur og komnir í frí, þannig ég held að ekki sé æskilegt að taka of mikið mark á þessum eina sigurleik. Þetta ætti því að vera nokkuð þægilegt fyrir okkar menn enda fórum við nokkuð létt með þá í síðustu viðureign þó að leikurinn hafi bara farið 1-0.

Ég spái þá því að jarðtengdir Blikar landi 0-2 sigri á vængbrotnum Val. Kiddi Steindórs og óvæntur Viktor Örn Margeirs setja mörkin.

Áfram Breiðablik!

image

SpáBliki leiksins er tónlistamaðurinn Young Nazareth

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Origo-vellinum kl.20:00!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur 

Fjósið opnar kl.18:00! Allt Blikafólk velkomið!

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Breiðablik, alltaf - alls staðar!

Ps. Laugardaginn 29 október verður svo risa sigurhátíð með þar sem titilinn fer á loft! Fjölskylduhátíð yfir daginn og fögnuður um kvöldið í Smáranum þar sem frítt er inn og öllum boðið sem hafa aldur til.

Hápunktar leiks Breiðabliks og Vals í Bestu deild karla 2022 á Kópavogsvelli 5. september:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka