Besta deildin 2025: Stórleikur! Víkingur R. - Breiðablik
29.08.2025
Stórleikur á Víkingsvelli á sunnudaginn kl.19:15!
Á sunnudaginn förum við í Fossvoginn og heimsækjum Reykjavíkur Víkinga í enn einum stórleik þessara liða. Heimaliðið er í 2. sæti töflunnar með 38 stig eftir öruggan sigur á nýkrýndum Bikarmeisturum Vestra frá Ísafirði á þriðjudaginn.
Breiðablik var í gærkvöld að tryggja sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA eftir 3:1 sigur (5:2 samanlagt) á AC Virtus í San Marínó. Dregið verður í deildarkeppnina í dag (föstudag) kl.11:00. Okkar menn missa væntanlega af beinni útsendingu enda liðið að ferðast heim til Íslands.
Kringumstæður leiksins á sunnudaginn eru ekki ósvipaðar því sem var í síðustu heimsókn Blikaliðsins í Víkina í október í fyrra. Þá var Víkingsliði á fullu í Sambandsdeildinni 2024/25. Víkingarnir nýbúnir að vinna Cercle Brugge 3:1 á Kópavogsvelli á fimmtudagseftirmiðdegi og áttu svo leik við Blika í Víkinni rúmum 3 sólahringum síðar. Núna er að Blikaliðið á fullu í Sambandsdeildinni. Leikur við AC Virtus á fimmtudagskvöldi í San Marínó og svo mæting í Víkina tæpum 3 sólahringum síðar.
Síðustu ár hefur baráttan um sigur í Bestu deild karla verið á milli Breiðabliks og Reykjavíkur Víkinga;
Árið 2024 er það Breiðablik sem stendur uppi sem Íslandsmeistari eftir hreinan úrslitaleik gegn Víkingum á þeirra á heimavelli í Fossvoginum í síðustu umferð Bestu deildarinnar 27. október 2024.


Árið 2023 vinna Víkingar Bestu deildina með yfirburðum. Síðari hluta sumars er Breiðabliksliðið í fullri þátttöku í Evrópukeppnum UEFA sem skilar okkar mönnum alla leið inn í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar – fyrst íslenskra karlaliða. Blikaliðið endar í 4. sæti í Bestu deildinni það ár.
Árið 2022 vinnur Breiðablik Bestu deildina með yfirburðum. Blikar hala inn 63 stig í 27 umferðum - Víkingur endar í 2. sæti með 48 stig.
Árið 2021 eru Blikar með báðar hendur á bikarnum en lygileg röð atvika í næst síðustu umferð verður til þess að Breiðablik missti af titlinum. Víkingur vinnur deildina árið 2021 með 48 stig í 22 umferðum. Breiðablik endar í 2. sæti með 47 stig.
Flautað verður til leiks í Víkinni kl.19:15 á sunnudaginn.
Miðasala á leikinn er á: Stubb
Sýn Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Kópacabana mætir!
Skilaboð frá Jöklinum: Sunnudaginn 31. ágúst eru liðnir 91 dagur frá því við mölbrutum Víkinga á Kópavogsvelli og 308 dagar síðan við mættum síðast í Víkina og sóttum þann stóra, sælla minninga. Þessi leikur snýst um eitt. Ætlum við að vera með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn allt þar til tímabilinu lýkur eða ætlum við að stimpla okkur út úr þeirri baráttu og fókusa bara á Evrópu. Ég fyrir mitt leyti get vottað fyrir það að stemningin skilar sér. Stuðningur skilar sér. Læti, öskur og tryllingur á pöllunum skilar sér til liðsins, sem tvíeflist við þennan stuðning. Við skulum sýna þessum Víkingum hvernig alvöru stuðningsmenn styðja sitt lið næsta sunnudag, og þá er aldrei að vita nema pallarnir í Víkinni verði aftur grænir! Mynd: Hafliði Breiðfjörð
Staðan í Bestu deild karla eftir 20 umferðir er að Blikar eru í 4. sæti með 32 stig eftir 19 leiki – 6 stigum á eftir heimaliðinu sem er í 2. sæti eftir 20 leiki. Ljóst er að okkar menn þurfa að landa 3 stigum á sunnudaginn og koma sér upp í 3. sætið.
Sagan & Tölfræði
Allir mótsleikir liðanna frá fyrsta leik 17.júlí 1957 eru 99 sem skiptast svona: 77 deildaleikir: 55 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild.
Bikarleikir eru 12. Deildabikar 8. Tveir leikir í Meistarakeppni KSÍ. Víkingur vann þann fyrri 1:0 árið 2022. Blikar vinna seinni 3:2 árið 2023.
Efsta deild
Leikurinn á sunnudaginn verður 56. innbyrðis viðureign liðanna í efstu deild. Jafnt er á tölum: 20 Blikasigrar gegn 18 - jafnteflin eru 17.
Skorið er 164 mörk: Blikar með 85 mörk gegn 79.
Blikaliðið skrifaði söguna í sinni síðustu heimsókn á heimavöll Víkinga í síðasta leik mótsins 27. október í fyrra. En síðustu 5 viðureignir liðanna í Víkinni í 22 leikja móti í efstu deild eru:










Leikmannahópurinn
Í leikmannahópi heimaliðsins eru nokkuð margir leikmenn sem hafa spilað meistaraflokksleiki í grænu: Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Fyrir keppnistímabilið 2021 söðlaði Davíð Örn Atlason um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik. Um haustið náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Róbert Orri Þorkelsson spilaði 29 leiki með Blikum árin 2020 og 2021 en Breiðablik kaupir leikmanni af Aftureldingu í nóvember 2019.
Í þjálfarateymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Breiðabliks með miklum árangri frá 1992 til 1996 eftir að flúið heimaland sitt vegna stríðsátaka og kom til okkar fyrir keppnistímabilið 1992. Hann á 107 mótsleiki að baki í Breiðablikstreyjunni.
Leikmannahópur Breiðabliks
Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins gegn Víkingi ólst upp í Austurbæ Kópavogs eða réttu megin í Fossvogsdalnum og gekk í Snælandsskóla. Blikinn byrjaði ungur að æfa fótbolta með Breiðabliki og voru æfingar hjá félaginu á Vallagerðisvelli á sumrin og í íþróttahúsi Kársnesskóla á veturnar þegar ég byrjaði að æfa hjá félaginu. Þrátt fyrir að alast upp í Austurbæ Kópavogs sem var hjarta ÍK á þessum tíma þá kom aldrei neitt annað til greina en að æfa með Breiðablik. Ég æfði upp alla yngri flokkana hjá Blikum eða þar til í 2. flokki. Mynd: 3. flokkur karla. SpáBlikinn er annar frá hægri í fremri röð.
Stuðningsmaðurinn byrjaði mjög ungur að mæta á völlinn og man vel eftir því að sitja í brekkunni og fylgjast með leikjunum þó líklega fóru fyrstu árin meira í að leika sér á vellinum. Með hækkandi aldri byrjaði ég að fylgjast betur með á leikjunum og í dag mætum við fjölskyldan á flesta heimaleiki liðsins og ég mæti svo á þá útileiki sem ég kemst á.
Öll þrjú börn og þau hafa öll alist upp við að æfa knattspyrnu með Breiðabliki og í dag er yngsti drengurinn minn að spila með 3. flokki. Ég hef unnið mikið starf fyrir félagið í gegnum börnin mín síðustu 15 árin, m.a. verið mikið á dómaravakt fyrir Símamótið. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að fylgja krökkunum mínum á fótboltamótum eða horfa á þau keppa á Íslandsmótinu. Mynd: Arnar Freyr, Ásdís Birta og Brynjar Már.
Sigurgeir Már Halldórsson – Hvernig fer leikurinn?
Ég held að strákarnir okkar munu mæta grimmir til leiks í Víkina á sunnudaginn og þetta verður upphafi af endurkoma Blika í Bestu deildina eftir smá Evrópuhlé. Breiðablik vinnur þennan leik 1-2 þar sem Óli Valur og Gummi Magg skora mörkin.
Áfram Breiðablk!
SpáBlikinn Sigurgeir Már Halldórsson í góðum gír!
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Víkingsvelli kl.19:15 á sunnudagskvöld.
Miðasala er á: Stubb
Mætum í stúkuna í Vikinni og hvetjum okkar menn til sigurs. Hilmar Jökull og Kópacabana stuðningssveitin mæta með læti!
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Klippur úr 3:1 leik liðanna í heimsókn Víkinga á Kópavogsvöll í Bestu deildinni 1.maí í sumar: