Besta deild karla. Úrslitakeppni 2024: Víkingur R. - Breiðablik
24.10.2024Þá er komið að 27. og lokaleik áins 2024 - úrslitaleik Bestu deildar karla keppnistímabilið 2024 - Íslandsmeistaratitill í boði.
Sigur í leiknum tryggir svona stund fyrir okkar menn ...
.... hópurinn er vel peppaður:
@breidablikfc Það styttist og styttist ????
♬ original sound - FIFA Songs
Blikar sameinast!
Á sunnudaginn mætum við Víkingum í leik sem mun ákveða hvar Íslandsmeistaratitillinn árið 2024 í karlaflokki endar. Við vitum öll hvar hann endaði í kvennaflokki og ætlum okkur sama áfangastað fyrir skjöldinn hjá körlunum. Aðeins 250 miðar komu frá Víkingum, við færum okkur því eins nálægt Víkinni og hægt er en verðum að sjálfsögðu í Kópavogi. Fan Zone verður í Yndisgarðinum við Víkingsvöllinn og ljóst að strákarnir munu heyra stuðninginn frá okkur alla leið inn á völlinn.Risa skjár frá Sonik verður á staðnum ásamt hljóðkerfi, nánari upplýsingar um bílastæði, aðgengi og fleira kemur á morgun og sunnudaginn. Nú þéttum við raðirnar sem aldrei fyrr og látum í okkur heyra svo ómi yfir í Reykjavík.
Flautað verður til leiks í Víkinni klukkan 18:30 á sunnudagskvöld. Leiknum var frestað um sólhring vegna Evrópuleiks Víkinga sem fram fer á Kópavogsvelli í dag, fimmtudag, kl.14:30. Frestunin er í samræmi við frestun lokaleiks Bestu í fyrra, en þá mættum við Stjörnunni á Kópavogsvelli á sunnudegi eftir fimmtudagsleik gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA á Laugardalsvelli 5. október.
Staðan í efri hluta Bestu deildar karla fyrir leiki helgarinnar - markatala ræður því að Breiðabliksliðið er í 2. sæti með jafn mörg stig og efsta liðið, Víkingur. Breiðabliksliðið hefur ekki tapað leik 13 umferðir í röð (10 sigrar og 3 jafntefli):
Sagan & Tölfræði
Allir mótsleikir liðanna frá fyrsta leik 17.7.1957 eru 97 sem skiptast svona: 75 deildaleikir: 53 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild. Bikarleikir eru 12. Deildabikar 8. Tveir leikir í Meistarakeppni KSÍ. Víkingur vann þann fyrri 1:0 árið 2022. Blikar vinna seinni 3:2 árið 2023. Í leikjunum 97 leiða Blikar með einum sigri:
Efsta deild
Úrslitaleikuinn á sunnudaginn verður 54. innbyrðis viðureign liðanna í efstu deild, en fyrsta viðureign liðanna í efstu deild var 17.7.1972. Jafnt er á öllum tölum - 18 sigrar á hvort lið - jafnteflin eru 17. Markaskorunin er 157 mörk: Blikar með 79 mörk gegn 78:
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild síðustu 3 ár
Taktísk skák í Dóra Árna lestinni
Einn stærsti leikur sumarsins fór fram á Kópavgosvelli þetta ágæta fimmtudagskvöld er Víkingur Reykjavík kom í heimsókn. Þeir hafa ekki riðið feitum hesti frá Kópavogi og norður til Reykjavíkur síðustu misseri, töpuðu meira að segja gegn HK inn í Kórnum núna í byrjun móts ...
Sunnudagskvöldið 21. apríl sóttu Blikar Íslands- og bikarmeistarana heim í Víkina. Sól skein í heiði og það var vestan gola. Veður var milt og mætti jafnvel kalla þetta drög að vori. Tíðindamaður Blikar.is ákvað að mæta mjög tímanlega svo að hann þyrfti ekki að standa á bretti við hornfánann eins og einhvern tíma áður og sjá ekki neitt. Til öryggis kom hann við þriðja mann til þess að hafa tvö viðbótarsett af augum ef eitthvað skyldi fara framhjá honum. Aðsóknin var slík að við töldumst heppnir að fá sæti hér og þar í stúkunni – og vorum þó langt frá því síðustu menn í á svæðið. Fjöldinn allur tróð sér í tröppur, á bretti við hliðina á stúkunni, hver sat ofan á öðrum, opnað var fyrir svæði fyrir sunnan völlinn en lokað upp í trén fyrir aftan markið. Uppselt var á leikinn ...
Það kostar klof að ríða röftum!
Blikaliðiðið mætti með látum gegn nýkrýndum Íslandsmeisturum Víkings á Kópavogsvelli í gær. Úrslitin voru 3:1 þeim grænklæddu í hag. Það má með sanni segja að strákarnir okkar hafi svarað pistlahöfundi frá síðasta leik þegar hann spurði hvar liðið okkar væri! Fyrir utan 20-25 fyrstu mínútur leiksins þá var Blikaliðið mun sterkari aðilinn á vellinum og vann því gríðarlega mikilvægan sigur í keppninni um Evrópusæti á næsta tímabili ...
Það mætti skrifa bæði vel og lengi um aðdraganda þessa leik. En eins og Óskar Hrafn þjálfari sagði eftir leik þá hefur það ekkert upp á sig. Við Blikar lærðum að sykurhúðaðar yfirlýsingar forsvarsmanna knattspyrnunnar á Íslandi um mikilvægi þess að íslensk félagslið nái langt í Evrópukeppni eru hjóm eitt. Þetta skapar bara vesen fyrir KSÍ og önnur lið hafa lítinn áhuga að sjá okkar drengir komast í ríðlakeppni Sambandsdeildarinnar. En okkur er í raun alveg sama. Við erum á þessari vegferð og ætlum að standa okkur vel - landi og þjóð til sóma! Því er lagt til að áhorfendur fjölmenni á Kópavogsvöll á fimmtudaginn og styðji Breiðabliksliðið til sigurs! ...
Pressan hélt áfram, var Klæmint að fara framkalla kraftaverkið sem allir Blikar vonuðu en enginn þorði að leyfa sér að trúa að gæti gerst þegar klukkan sló í 90 mínútur? Kraftaverk eru sérstök, kraftaverkamörk eru sérstök. Klæmint tók sig til á 96 mínútu og skoraði með bakfallsspyrnu upp í samskeytin fjær. Ég get ekkert sagt eftir það, allt varð vitlaust á hliðarlínunni. Sölvi Geir fékk rautt, Logi Tómasson ýtti Halldóri aðstoðarþjálfara og kapp hljóp í menn. Logi fékk síðan rautt spjald eftir leik. Dómarinn flautaði af og 2-2 jafntefli niðurstaða, með svona karakter og vilja má gera allskonar. Þegar lið koma svona til baka þá gefur það rosalega mikið, þetta er græn viðvörun! ...
Laaaaaangbestir í Bestu deild 2022
Laugardagurinn 29 október fer í sögubækurnar. Ógleymanleg stund á Kópavogsvelli Takk allir sem hjálpuðu til við að gera þennan dag eins og hann var. Við getum ekki beðið eftir 2023:
Mánudagskvöldið 15. ágúst. Stórleikur Íslandsmótsins í Smáranum. Víkingar í heimsókn, átta stigum á eftir Blikum á toppnum en með leik inni. Allt undir. Ekki einungis baráttan um Fossvogslækinn. Sérfræðingar sögðu að færu Blikar með sigur af hólmi væri mótið búið, titillinn nánast í höfn. Aftur á móti myndu Víkingar opna deildina upp á gátt með sigri. Jafntefli gerði meira fyrir Blika. Bæði lið voru nýkomin úr erfiðum útileikjum í Evrópukeppni – var þreyta í mannskapnum?
Sól skein í heiði, hægur andvari, báðar stúkur fullar, fólk beðið að þjappa sér saman, staðið í brekkunni. Með öðrum orðum: það var urrandi stemmning í Kópavogsdal ...
Kópavogsbúum gekk alveg prýðilega að mynda meirihluta í kvöld. Líklega var meirihluti áhorfenda á Víkingsvellinum á bandi okkar fólks. Það veitti ekkert af. Nú voru það tvöföldu meistararnir frá fyrra sumri sem tóku á móti okkur grænklæddum og vissu það alveg að þetta var tækifæri þeirra til yfirlýsingar um að ætla að vera í toppbaráttunni. Breiðablik er liðið til að vinna þessa dagana og Arnar Víkingsþjálfari var bara glaðbeittur með yfirlýsingu um leikinn að það væri betra að vera veiðimaðurinn en bráðin. Gamall kollegi meðal stuðningsmanna Víkings var nú ekki á sama máli og spáði leiknum 1-3 ...
Leikmannahópur & Þjálfarteymi
Í leikmannahópi heimaliðsins eru nokkuð margir leikmenn sem hafa spilað með Blikum: Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Víkingur R. fékk Karl Friðleif til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022. Fyrir keppnistímabilið 2021 söðlaði Davíð Örn Atlason um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik. Um haustið náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Daniel Dejan Djuric á 2 mótsleiki með meistaraflokki Breiðabliks auk tugi leikja með yngri flokkum á árunum 2014 - 2018. Gísli Gottskálk Þórðarson er uppalinn Bliki. Haustið 2020 fór hann til Bologna á Ítalíu en gerði samning við Víking fyrir keppnistímabilið 2022. Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með miklum árangri frá 1992 til 1996, en Cardakilja flúði heimaland sitt vegna stríðsátaka og kom til okkar fyrir keppnistímabilið 1992. Hann á 107 mótsleiki að baki í Breiðablikstreyjunni.
Nýverið tilkynnti knattspyrnudeild Breiðabliks breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks karla sem taka gildi eftir 2024 keppnistímabilið.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson var ráðinn aðstoðarþjálfari Halldórs Árnasonar með meistaraflokk karla og tekur hann við keflinu af Eyjólfi Héðinssyni sem er að koma til annarra starfa hjá Breiðabliki. Nánar um nýtt hlutverk Eyjó hér. Arnór Svein þarf ekki að kynna fyrir Blikum en hann hefur leikið 277 leiki fyrir félagið. Hans fyrsti leikur var árið 2003 og varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2009 og Íslandsmeistari 2010. Arnór spilaði einnig sem atvinnumaður í Noregi og varð Íslandsmeistari með KR árið 2019. Hann sneri aftur til Breiðabliks árið 2022 og hefur spilað með liðinu síðan. Arnór Sveinn þekkir félagið og hópinn vel og það er afar ánægjulegt fá hann inn í þjálfarateymið sem aðstoðarþjálfara.
Þá var einnig gengið frá áframhaldandi ráðningum á öðrum í þjálfarateyminu en Haraldur Björnsson, markmannsþjálfari og Eiður Ben Eiríksson hafa báðir framlengt sína samninga við Breiðablik. Helgi Jónas Guðfinnsson, styrktarþjálfari, verður jafnframt áfram í teyminu.
Liðsmynd 2024
Meistaraflokkur Breiðabliks 2024
Fremsta röð f.v.: Bjarni Sigurður Bergsson formaður meistaraflokksráðs, Andri Rafn Yeoman, Aron Bjarnason, Kristinn Steindórsson, Eyjólfur Héðinsson aðstoðarþjálfari, Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði, Halldór Árnason aðalþjálfari, Oliver Sigurjónsson, Viktor Karl Einarsson, Kristinn Jónsson, Birna Hlín Káradóttir varaformaður knattspyrnudeildar.
Miðröð f.v.: Haraldur Björnsson markmannsþjálfari, Eiður Ben Eiríksson aðstoðarþjálfari, Tumi Fannar Gunnarsson, Dagur Örn Fjeldsted, Davíð Ingvarsson, Anton Ari Einarsson, Brynjar Atli Bragason, Arnór Gauti Jónsson, Atli Þór Gunnarsson, Alexander Helgi Sigurðarson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Marinó Önundarson liðsstjórn, Brynjar Dagur Sighvatsson liðsstjórn.
Aftasta röð f.v.: Helgi Jónas Guðfinnsson styrktarþjálfari, Ísak Snær Þorvaldsson, Kristófer Ingi Kristinsson, Benjamin Stokke, Daniel Obbekjer, Damir Muminovic, Viktor Örn Margeirsson, Patrik Johannesen, Særún Jónsdóttir sjúkraþjálfari.
Á myndina vantar leikmennina: Jason Daða Svanþórsson, Ásgeir Helga Orrason, Tómas Orra Róbertsson.
Myndataka & umsjón: Helgi Viðar Hilmarsson, Ísleifur Gissurarson.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins er fæddur árið 1972 í Keflavík þar sem hann ólst upp og spilaði og spilaði fóbolta og körfubolta en flutti svo í Kópavoginn 1997 og hefur búið þar síðan.
Árið 2004 var hann ráðinn sem markmannsþjálfari yngri flokka félagsins og svo seinna sem markmannsþjálfari karla- og kvennaliðs félagsins ásamt því að vera aðstoðarþjálfari kvennaliðsins 2014 til 2021 - og var að klára sitt 21 tímabil sem starfandi þjálfari Breiðabliks. Smárinn og Kópavogsvöllur verið nánast eins og hans annað heimili síðan þá. Það hefur verið ótrúlega gaman að þjálfa allan þennan tíma, margir titlar komið í hús og mörg skemmtileg Evrópuævintýri hafa litið dagins ljós. Það hefur verið gaman að sjá Breiðablik stækka og dafna og verða að því stórveldi sem það er í dag. Það að fara með kvennaliðið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu er samt held ég það sem stendur upp úr, það var ótrúlega skemmtilegt afrek að hafa náð því að vera með liðið á því stóra sviði.
Ólafur Pétursson - Hvernig fer leikurinn?
Það er komið af því að tvö bestu lið landsins mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Færri áhorfendur munu komast að en vilja. Þetta verður hörkuleikur, hart verður barist enda kominn ágætur rígur á milli þessara liða. Breiðablik hefur verið að spila mun betur en Víkingur undanfarið. Það er mikið sjálfstraust í liðinu og það gerir gæfumuninn. Anton mun loka búrinu og halda hreinu. Við vinnum þennan leik 2-0 með mörkum frá Aroni Bjarnasyni í fyrri hálfleik og Damir mun svo gulltryggja þetta með góðu marki eftir hornspyrnu. Halldór Árnason mun því fagna sínum fyrsta titli sem aðalþjálfari á sína fyrsta tímabili og við skiljum Víkinga eftir á sárum á heimavelli hamingjunnar og tökum Íslandsbikarinn með heim á Kópavoginn á sunnudagskvöldið.
Áfram Breiðablik!
SpáBlikinn Ólafur Pétursson og markverðir meistarflokks kvenna eru Íslandsmeistarar 2024.
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Víkingsvelli kl.18:30 sunnudaginn 27. október. Stöð 2 Sport sýnir leikinn beinnt fyrir þá fjölmörgu sem ekki komast að í Víkinni.
Blikar sameinast!
Á sunnudaginn mætum við Víkingum í leik sem mun ákveða hvar Íslandsmeistaratitillinn árið 2024 í karlaflokki endar. Við vitum öll hvar hann endaði í kvennaflokki og ætlum okkur sama áfangastað fyrir skjöldinn hjá körlunum.
Aðeins 250 miðar komu frá Víkingum, við færum okkur því eins nálægt Víkinni og hægt er en verðum að sjálfsögðu í Kópavogi. Fan Zone verður í Yndisgarðinum við Víkingsvöllinn og ljóst að strákarnir munu heyra stuðninginn frá okkur alla leið inn á völlinn.
Risa skjár frá Sonik verður á staðnum ásamt hljóðkerfi, nánari upplýsingar um bílastæði, aðgengi og fleira kemur á morgun og sunnudaginn.
Nú þéttum við raðirnar sem aldrei fyrr og látum í okkur heyra svo ómi yfir í Reykjavík.
Hvatning frá Kópacabana
Kópacabana menn vilja byrja á að þakka Breiðablik og öllum sem koma að félaginu fyrir traustið næsta sunnudag, og ætla að öskra úr sér lifur og lungu, til að styðja strákana til sigurs gegn víkingum.
Öll sem fá miða á sunnudaginn þurfa að þenja raddböndin því eins og Sindri Þór sagði, við höfum kannski ekki fjöldann, en við höfum hjartað!
Að sama skapi vilja Kópacabana menn hvetja Breiðabliks fólk sem ekki fær miða til að umlykja völlinn og syngja og öskra að vellinum, strákarnir munu finna það inn að beinum!
Hilmar Jökull
Mörkin í síðustu viðureign liðanna í Bestu 2024:
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ