BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: FH - Breiðablik

22.07.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Fjórtánda umferð í Bestu karla 2022 > Blikar með 6 stiga forskot á toppnum > Förum í Krikann > Miðasala á Stubbur > Sagan: 117 mótsleikir > Gamli leikurinn: FH - Breiðablik 1995 > Blikahópurinn 2022  > Ásthildur Helgadóttir er SpáBliki leiksins  > Dagskráin > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

FH - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er í Krikanum á sunnudaginn. Leikurinn gegn FH á sunnudagskvöld verður 4. útleikur Blikaliðsins í röð í deild & bikar. Mánuður verður liðinn frá síðasta deildaleik Blikamann á heimavelli þegar flautað verður til leiks gegn Fimleikfélaginu í Kaplakrika. Næsti heimaleikur Blika í deildinni er 2. ágúst þegar við fáum ÍA í heimsókn á Kópavogsvöll- þá verða 40 dagar liðnir frá síðasta deildaleik okkar manna á Kópavogsvelli.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í Bestu deild eftir 13 umferðir - Blikar á toppnum með 34 stig:

image

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi mótsleikja liðanna í A & B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum, eru 117 leikir. Blikasigrar eru 43 gegn 52. Jafnteflin eru 23.

Innbyrðis leikir í A-deild eru 55. Blikasigrar eru 23 gegn 21 FH sigrum. Jafnteflin eru 11. Í leikjunum 55 hafa liðin skorað 170 mörk - Blikar með 90 mörk gegn 80 mörkum FHinga

Síðustu 5 í deild á Kaplakrikavelli:

Gamli leikurinn

Fyrsti innbyrðis leikur liðanna í deilakeppni var í gömlu B-deildinni 13. júní 1964. Þetta var vígsluleikur Vallargerðisvallar í Kópavogi. Hjálmar Ólafsson, bæjarstjóri, flutti stutta ræðu og sendi svo boltann til Hafnfirðinga sem hófu leikinn. Leiknum lauk með 1:1 jafntefli. Það var Jón Ingi Ragnarsson sem jafnaði leikinn með góðu skoti í seinni hálfleik. Alls hafa liðin spilað 14 leiki í B-deildinni. 

Fyrsti innbyrðis leikur liðanna í A-deild var á Kaplakrikavelli 20. júní 1976. Blikar unnu leikinn 0:1 með hörku skoti Hinriks Þórhallssonar af 20 metra færi. 

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er einn af 12 innbyrðis A-deildaleikjum liðanna þar sem sigurliðið skorar 4 mörk.

Um er að ræða leik liðanna í Kaplkrika 25. júní 1995. 

25.06 18:00
1995
FH
Breiðablik
2:4
3
1
A-deild | 6. umferð
Kaplakrikavöllur | #

Róbert Róbertsson hjá DV skrifar þetta um leikinn: "Við erum á uppleið og komum vel stemmdir í leikinn. Við kláruðum þetta vel og fengum 3 mikilvæg stig sem eiga eftir að telja í lokin, "sagði Willum Þór Þórsson, leikmaður Breiðabliks, eftir að liðið hafði sigrað FH, 2-4, í 1. deildinni í Kaplakrika í gærkvöld. Leikurinn einkenndist því miður, eins og flestir leikir í sumar, af miðjuþófi og fáum hnitmiðuðum sóknum beggja liða. Þegar 8 mínútur voru til leiksloka virtist allt stefna í 1-1 jafntefli en þá gerðu Blikar út um leikinn á fjörugum lokakafla."

Mörkin:

23‘ 1:0. Auðunn Helgason missir boltann frá sér rétt fyrir utan vítateg til Rastislav Lazorik sem nýtti sér gjöfina og skoraði framhjá Stefáni í marki FH

65´1:1. Hörður Magnússon skorar eftir hornspyrnu. Auðunn Helgason skallar boltann aftur fyrir sig og Hörður framlengir í netið.

82‘ 1:2. Rastislav Lazorik skorar úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir brot á Jóni P. Stefánssyni.

84´1:3. Arnar Grétarsson með stungusendingu inn fyrir vörn FH og Rastislav Lazorik átti ekki í erfiðleikum með að skora með föstu skoti.

87´1:4. Arnar Grétarsson sendir fallega sendingu á Rastislav Lazorik þar sem hann er staðsettur á miðjum vallarhelmingi FH. Lassó rekur boltann upp að endalínu vinstra megin og sendir boltann fyrir á Antony Karl Gregory sem skallaði snyrtilega í markið af stuttu færi.

89´ 2:4. Heimaliðið fær ódýra vítaspyrnu sem Hörður Magnússon skorar úr af öryggi. 

image

Magnaður leikmaður hann Rastislav Lazorik - skoraði 16 mörk í 32 A-deildaleikjum með Breiðabliki.

Byrjunarlið Breiðabliks: Harjudin Cardaklija - Úlfar Óttarsson - Willum Þór Þórsson - Jón Þ. Stefánsson - Gústaf Ómarsson - Arnaldur Loftssson - Arnar Grétarsson - Kjartan Antonsson - Gunnlaugur Einarsson - Rastislav Lazorik  - Anthony Karl Gregory. 

Áhugaverð pæling varðandi leikinn er að Ólafur H. Kristjánsson, núverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, sem var í byrjunarliði FH í leiknum og tókst að ná sér í gult spjald strax á 2' leiksins fyrir bort. Rastislav Lazorik fékk gult spjald á 10' fyrir brot og á 73' fékk Gústaf Ómarsson gult fyrir hendi. 

Klippur og atvik úr leiknum 1995:

Blikahópurinn 2022

Í liði gestanna eru þrír fyrrverandi leikmenn Blika. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um fyrr á þessu ári og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. Guðmundur Kristjánsson lék síðast með Breiðabliki árið 2012 en fór svo til Start í Noregi og var þar í nokkur ár. Hann fór svo í Hafnarfjörðinn þegar hann snéri heim árið 2018.

Í okkar liði er það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum. Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfarari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkarþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 14. umferðar er uppalinn Bliki og margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari með Breiðabliki og KR. Hún byrjaði að æfa fótbolta 10 ára gömul og spilaði leikinn næstu 20 árin. Hnémeiðsli urðu þess valdandi að hún hætti. SpáBlikinn var lengst af miðjumaður en brá sér í sóknina enda skoraði hún 134 mörk í 152 deildaleikjum á Íslandi; 23 mörk í 69 A-landsleikjum fyrir Ísland á 14 ára tímabili og 46 mörk í 58 leikjum með Malmö í úrvalsdeildinni í Svíþjóð þar sem hún stundaði framhaldsnám í verkfræði. Í Svíþjóð var SpáBlikinn, árið 2006, til­nefnd sem besti sókn­ar­maður­inn í Svíþjóð á loka­hófi sænska knatt­spyrnu­sam­bands­ins. Spáblikinn var með fyrstu leikmönnum sem fóru til Bandaríkjanna á skólastyrk og útskrifaðist sem byggingarverkfræðingur frá Vanderbilt University. Þar var hún valin í úrvalslið háskólaboltans, All-American árið 1998. SpáBlikinn hafnaði tví­veg­is í 3. sæti í kjöri Sam­taka íþróttaf­rétta­manna á íþrótta­manni árs­ins.

SpáBlikinn starfar nú sem Sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar. Nú á hún þrjú börn í yngri flokkum Breiðabliks 😊 😊 

Ásthildur Helgadóttir  – hvernig fer leikurinn?

Þetta verður hörkuleikur. FH hefur ekki gengið vel í deildinni og er undir mikilli pressu með nýja menn í brúnni. Þeir þurfa virkilega á sigri að halda. Blikarnir hafa verið langbesta lið deildarinnar og munu vinna leikinn ef þeir spila sinn leik. Þeir eru í besta forminu og að spila besta fótboltann. Frábært hvernig Óskar hefur þróað leik liðsins síðan í fyrra, þeir halda bolta vel og geta líka beitt lengri sendingum þegar það hentar. Þeir eru með sjálfstraust og hlaupagetu til að klára leiki þótt þeir lendi undir. Þetta verður markaleikur og skemmtilegur á að horfa en Blikar vinna að lokum!

Áfram Breiðablik!

image

Ásthildur Helgadóttir er SpáBliki 14. umf. Mynd: Hafliði Breiðfjörð

Dagskrá

Flautað verður til leiks í Kaplakrika kl.19:15 á sunnudaginn. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn hafa ákveðið að keyra stemninguna í gang á útileikjum líkt og þeir hafa gert svo vel á heimaleikjum það sem af er tímabili. Það mætir herskari liðs frá sveitinni til að hvetja Blika áfram og hvetjum við alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kaplakrikavelli. 

Mætum í stúkuna og hvetjum liðið okkar til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Klippur, atvik og annað efni frá fyrri leik liðanna í boði BlikarTV:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka