BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik - Víkingur R.

31.05.2023 image

Breiðablik - Víkingur R.

Við fáum Reykjavíkur Víkinga í heimsókn á Kópavogsvöll á föstudaginn. Flautað verður verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15! 

Blikavarningur verður til sölu á vellinum

Fish & Chips Vagninn mætir á svæðið, ferskur íslenskur þorskur matreiddur eins og hefð Breta mælir fyrir um.

17:30 - Svæðið opnar

17:30 - Kveikt á grillinu og dælurnar opnaðar

17:50 - Pub Quiz með Kela

18:20 - Þjálfaraspjall með Óskari Hrafni

18:30 - Keli og sérfræðingar stjórna umræðu um leikinn

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Vígið okkar – Kópavogsvöllur

Mikið hefur verið rætt og ritað um erfiðar vallaraðstæður víða í upphafi móts. Breiðabliksliðið byrjaði mótið á heimavelli með tapi gegn HK. Strax í kjölfar þess var ráðist í að skipta um yfirborð Kópavogsvallar. Nánar um það > Skyggnst undir yfirborðið.

Blikaliðið hefur nú leikið þrjá útileiki á náttúrulegu grasi og aðstæður til knattspyrnuiðkunnar í öllum þremur leikjununum hinar ömurlegustu – hvorttveggja gular veðurviðvaranir og yfirborð vallanna þriggja óvenju slæmar miðað við árstíma. Í öllum tilvikum var þetta fyrsti keppnisleikur ársins á grasvöllunum þremur. Stigaheimtur okkar manna í leikjunum: 0 stig gegn ÍBV í Eyjum 23.apríl. 3 stig gegn KR í Frostaskjólinu og 1 stig gegn Keflvíkingum á HS Orku vellinum. Nánar um þann leik > Tökumaðurinn maður leiksins í Keflavík: „Hann var með alla klútana sína“. Samtals 4 stig af 9 mögulegum eða 45% stigaárangur. Næsti grasleikur Blika er 10. júní gegn FH á þeirra heimavelli í Kaplakrika. Grasvöllurinn þar sýnist í ágætu standi.

Næsti leikur okkar er hinsvegar á nýju yfirborði Kópavogsvallar þegar við fáum sjóðheita Víkinga í heimsókn.

Kópavogsvöllur hefur reynst okkur vel – er nánast óvinnandi vígi. Í 11 heimaleikjum árið 2021 tapaðist aðeins 1 leikur – gegn KR í fyrsta leik 2.maí 2021. Markatalan 2021 var 32:1.

Í 14 leikjum árið eftir – Íslandsmeistaraárið 2022 – gerði Blikaliðið eitt jafntefli og tapaði aðeins einum leik og aftur gegn KR 15.október 2022. Sem sagt, Blikar taplausir 12 leiki í röð með markatöluna 37:9.

Og aftur kemur KR við sögu 23.júní 2022 þegar - Breiðablik skráði sig á spjöld sögunnar með sigri á KR á Kópavogsvelli. Leikurinn var 16. sigur Blika í röð í efstu deild á heimavelli. Þar með var 23 ára met ÍBV fallið en Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og áttu metið einir síðan. Blikar sem sagt jöfnuðu 23 ára met ÍBV í sigurleik gegn KA 20. júní, bættu metið gegn KR 23. júní og bættu 17. sigurleiknum í röð við með sigri á ÍA 1. ágúst 2022.

Það voru svo Reykjavíkur Víkingar sem bundu enda á sigurleikina 17 í 1:1 jafntefli á Kópavogsvelli 15. ágúst 2022. En Blikar heldu áfram að vinna næstu 4 leiki á Kópavogsvelli: Leikninsmenn, Valsmenn, Eyjamenn og Stjörnumenn. Þessu taplausa 22-leikja-í-röð ævintýri okkar manna lauk svo þegar KR (auðvitað) kom í heimsókn á Kópavogsvöll 15. október  – daginn sem við fögnuðum Íslandsmeistaratitlinum 2022 - og vann okkar menn 0:1.

En aftur í núið. Blikaliðið hefur spilað tíu leiki í Bestu deildinni 2023. Sex voru útileikir og þar af þrír á grasvöllum (ÍBV, KR og Keflavík). Þrír voru á gervigrasi (Valur, Stjarnan og Fylkir). Heimaleikirnir eru fjórir. Einn á gamla yfirborði Kópavogsvallar (HK). Einn á Fylkisvelli í Árbæ (Fram) og tveir á nýju yfirborði Kópavogsvallar (KA og Valur).

Staðan í Bestu deildinni eftir 9. umferðir og 2 leiki í 13. umferð:

image

Sagan & tölfræði

Innbyrðis mótsleikir liðanna frá upphafi (fyrst 1957) eru 92 leikir. Deildaleikir eru 70: 48 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild. Bikarleikir eru 12. Leikir í Deildabikarnum eru 8.

Í Meistarakeppni KSÍ eru leikirnir tveir. Víkingur vinnur 1:0 árið 2022. Blikar vinna 3:2 árið 2023.

Annars skipta liðin sigrunum nokkuð bróðurlega á milli sín - hlutfall allra mótsleikja frá upphafi er: 36 blikasigrar gegn 34 - jafnteflin eru 22.

Efsta deild:

Í 48 leikjum í efstu deild er staðan nánast jöfn. Blikar leiða með minnsta mun - 17 sigrar gegn 16 - jafnteflin eru 15.

Mörkin eru samtals 134 sem skiptast þannig - Blikar hafa skorað 69 mörk gegn 65 mörkum Víkinga.

Síðustu 5 heimaleikir Blika gegn Reykjavíkur Víkingum í efstu deild.

29.10 13:00
2022
Breiðablik
Víkingur
1:0
23
6
A-deild | Úrslitakeppni 5.umf
Kópavogsvöllur | #

INTERNET (23)

Leikmannahópurinn

Í leikmannahópi Víkinga eru nokkrir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki. Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Víkingur R fékk Karl Friðleif til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022. Davíð Örn Atlason söðlaði um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik fyrir keppnistímabilið 2021. Í nóvember 2021 náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Davíð Örn lenti í slæmum meiðslum og spilaði því mun minna í græna búningnum en ætla mætti. Í heild lék hann 16 leiki með Breiðabliki 2021 - 10 leiki í deildinni, 5 evrópuleiki og 1 bikarleik. Daniel Dejan Djuric á 2 mótsleiki með meistarflokki Breiðabliks auk tugi leikja með yngri flokkum Breiðabliks á árunum 2014 - 2018. Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með góðum árangri frá 1992 til 1996. Cardakilja flúði heimalandið vegna stríðsátaka og kom til Breiðabliks fyrir keppnistímabilið 1992. Hann spilaði 107 leiki með Breiðabliki. 

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Blika milli ára.

Komnir: Alex Freyr Elísson frá Fram - Arnór Sveinn Aðalsteinsson kominn heim frá KR - Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (var á láni hjá Val) - Ágúst Orri Þorsteinsson frá Malmö - Eyþór Aron Wöhler frá ÍA - Klæmint Olsen á láni frá NSÍ Runavík - Oliver Stefánsson frá Norrköping (var á láni hjá ÍA) - Patrik Johannesen frá Keflavík og Stefán Ingi Sigurðarson frá HK (var á láni).

Farnir: Dagur Dan Þórhallsson til Orlando - Elfar Freyr Helgason í Val - Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg - Mikkel Qvist - Pétur Theódór Árnason á láni til Gróttu - Sölvi Snær Guðbjargarson í frí - Omar Sowe til Leiknis (var á láni frá NY Red Bulls) - Adam Örn Arnarson í Fram (var á láni hjá Leikni) - Benedikt Warén í Vestra (var á láni hjá ÍA)

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

Leikmannahópur Breiðabliks 2023:

image

Stuðningsmaðurinn

Spábliki 10. umferðar er einn af þeim snáðum sem ólst upp á Vallargerðisvellinum í Vesturbænum í gamla gamla daga, fæddur 1961. Hann bjó vestast á Sunnubrautinni gegnt stærsta hænsnabúi Íslands á þeim tíma. 

Vaknað var snemma á morgnana og iðulega farið út á völl og spilaður fótbolti í öllum veðrum. Þar var fyrir Valdimar eldri Valdimarsson sem á sinn hátt fóstraði okkur drengina og kenndi góða siði, einfaldlega með því að koma fram við okkur af virðingu. Því þegar árin færast yfir þá man maður einna helst eftir þeim sem vék að manni góðu er maður var ungur og úr lagi færður.  

Blikinn vann engin afrek sem talandi er um fyrir utan nokkra Íslandsmeistaratitla í yngri flokkunum. Hann spilaði í vörninni og heldur að hann hafi verið sæmilegur liðsmaður, sem reyndi að sjá um sinn mann og kannski aðeins umfram það.

SpáBlikinn er að gaufa í old-boys og hefur aldrei verið vinsælli sem leikmaður, enda núorðið auðvelt að sóla hann, er ekki grófur og bara kátur í klefanum. SpáBlikinn heldur því í raunar fram að hann sé loks núna á hátindi ferils síns. 

image

SpáBlikinn vann nokkra titla með yngri flokkunum Breiðabliks þ.m.t. Íslandsmeistaratitil með 4. fl. árið 1974: Efsta röð f.v.: Gissur Guðmundsson þjálfari, Halldór Eiríksson, Jóhann Grétarsson, Jóhann Jóhannsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Halldór Sigurbjörnsson, Guðmundur Halldórsson. Miðröð f.v.: Guðni Stefánsson formaður, Guðmundur Þorkelsson, Árni Dan Einarsson, Guðmundur Agnar Kristinsson, Sigurður V. Halldórsson, Jóhann Baldurs, Valdimar Kr. Valdimarsson. Neðsta röð f.v.: Benedikt Þór Guðmundsson, Páll Ævar Pálsson, Birgir Teitsson, Þorsteinn Hilmarsson fyrirliði, Sveinn Ottóson, Þórir Gíslason. Á myndina vantar Bjarna Sigurðsson.

Ólafur Börkur Þorvaldsson -  Hvernig fer leikurinn?

Þegar ég er spurður um úrslit þá vil ég segja að góð úrslit leiks eru einfaldlega þau að hver og einn geri sitt besta, séu (baráttu)glaðir, reyni að sýna skemmtilegt spil og gefist aldrei upp. Þá er gaman á pöllunum og að halda með Blikum.

Annars er helsti tilgangur minn með að fara á leiki að hitta gömlu félaganna og eiga við þá spjall sem léttir lund. Ekki er verra að sjá afkomendur gömlu félagana spila í grænu. Því er það sérstakt ánægjuefni að sjá Arnór Svein, son Alla Jóns, aftur mættan til leiks eftir nokkra hríð. Sá drengur spilar traustan, kraftmikinn, góðan og ekki síst fallegan varnarleik. Það er nefnilega til fallegur varnarleikur sem gaman er að horfa á ekki síður en sóknarleikur.

Að fenginni þessari forsendu spái ég að markið haldist hreint, en Blikar setji að lágmarki tvö mörk.

Áfram Blikar!

image

SpáBlikinn, Ólafur Börkur Þorvaldsson, í aftari röð til vinstri á góðum degi með OldBoys félögum í Breiðabliki.

Dagskrá

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á föstudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Svipmyndir frá lokaleik liðanna á Kópavogsvelli í fyrra:

Til baka