Besta deildin 2025: FH - Breiðablik
23.05.2025
Bæði lið með sterka sigra í deildinni í síðustu umferð - FH-ingar gerðu góða ferð upp á Saga og og Blikar unnu Valsmenn í hörku leik á Kópavogsvelli.
Flautað til leiks á Kaplakrikavelli á sunnudag kl.19:15!
Við hvetjum alla Blika til að mæta í Kaplakrika á sunnudaginn og hvetja okkar menn áfram. Sigur í leiknum gegn FH og toppsætið er áfram okkar!
Miðasala á leikinn er á Stubb
Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Blikaliðið er á toppnum eftir 7 umfeðir í Bestu deildinni 2025:
Sagan & Tölfræði
Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deildum, bikarkeppni, deildabikarnum og Litlu bikarkeppninni, eru samtals 128 leikir. Blikasigrar eru 47 gegn 57 - jafnteflin eru 24. Leikir í A og B deild eru samtals 82. Í Bikarkeppni KSÍ eru 4 leikir. Deildabikar KSÍ 12 leikir. Í Fótbolta.net mótinu 8 leikir og 19 leikir í Litlu bikarkeppninni.
Efsta deild
Leikir í efstu deild eru 62. Staðan er jöfn. Blikaliðið með 25 sigra gegn 24 -jafnteflin er 13. Í leikjunum hafa liðin skorað 182 mörk - Blikar með 95 mörk gegn 87 mörkum FH.
Kaplakrikavöllur erfiður Blikum í síðustu heimsóknum
Jafnt er á öllum tölum í 31 heimsóknum okkar manna í Kaplakrika. Bæði lið með 11 sigra - jafnteflin eru 9.
Í úrslitakeppninni í fyrra vinna Blikar sterkan sigur í Kaplakrika, en síðustu 5 heimsóknir í Krikann þar á undan skiluðu okkur aðeins 2 stigum af 15 mögulegum:










Leikmannahópurinn
Tómas Orri Róbertssson söðlaði um í vor og skrifaði undir 3 ára samning við FH. Blikinn Dagur Örn Fjeldsted leikur núna sem lánsmaður hjá Fimleikafélaginu. Í okkar hópi hefur Kristinn Steindórsson leikið með FH.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins gegn FH hefur marga fjöruna sopið hjá okkur Blikum. Ólst upp í austurbæ Kópavogs, hjólaði eða hljóp á æfingar á Vallargerði, var einn af íslandsmeisturum 1974 þegar þrír flokkar urðu íslandsmeistarar í sömu vikunni, hann var með í 5. Flokki undir stjórn Guðmundar Þórðarsonar, var sennilega eini Íslandsmeistarinn sem ekki fékk medalíu fyrr en 30 árum seinna. Spilaði handbolta á veturna og fótbolta á sumrin, varð síðan íslandsmeistari 1982 með öðrum flokki í fótbolta.
Blikinn spilaði 111 mótsleiki með meistaraflokki, varð fyrirliði 1989 ásamt því að vera Framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar á sama tíma það sumar. Einn af þeim sem hefur farið oftar upp um deild og fallið sem leikmaður. Hefur þjálfað yngri flokka Breiðabliks, hefur verið í aðalstjórn félagsins ásamt því að sjá um nokkra stórviðburði á vegum félagsins. Byrjaði með Blikar TV sem var fyrsta félagið á Íslandi sem byrjaði að taka viðtöl við leikmenn og þjálfara og gefa aðdáendum innsýn í líf og starf leikmann og þjálfara, ásamt því að sýna beint frá leikjum.
SpáBlikinn er auðvitað Heiðar Bergmann Heiðarsson ( Heisi ) betur þekktur sem “Á rölti með Heisa“
Held samt að ég sé stoltastur af heimildarmynd minni um Vallargerðisvöll. “Með sand í augum” þó svo að hún að það sé ekki meistaraefni í kvikmyndagerð þá er sagan og viðtölinn algert epic.
Heiðar B. Heiðarsson – Hvernig fer leikurinn?
Leikir þessa tveggja liða hafa alla tíð verið spennandi og ég held að það verði engin breyting á því á sunnudaginn. FH hefur verið í smá basli í síðustu umferðum en eru samt með gott lið sem ber að varast. þarna innanborðs eru fullt af hæfileikum og þegar Heimir hefur náð að fínpússa sitt lið, þá verða þeir óstöðvandi því Heimir er galdramaður í þjálfun á yngri leikmönnum. En eins og FH ingar segja þessa dagana þá er risinn að vakna og það sást í síðasta leik á móti ÍA að þar fer sveit sem erfitt verður að eiga við í sumar. Við Blikar þurfum að vara okkur á Birni Daníel, hann er prímusmótorinn í FH liðinu ásamt unga Duke leikmanni Úlfi sem á bara eftir að gera varnamönnum lífið leitt.
Okkar menn eiga bara eftir að stíga á bensíngjöfina og halda áfram þeim leik sem þeir hafa verið að þróa og það verður erfitt val fyrir Dóra og félaga þegar leikmenn okkar sem hafa verið í meiðslum síðustu vikur fara banka á dyrnar, leikmenn eins og Kiddi Jóns og Davíð.
Ég spái jöfnum leik eins og venjulega en það sem mun skipta sköpum er að það lið sem hleypur meira vinnur.
Áfram Breiðablik!
SpáBliki leiksins, Heiðar B. Heiðarsson, hefur komið víða við þ.m.t. að vera einn af stofnendum ÍK.
Dagskrá
Við mætum liði FH á erfiðum útivelli í Kaplakrika. Flautað til leiks á sunnudaginn kl.19:15! Við hvetjum alla Blika til að mæta í Krikann á sunnudaginn og hvetja okkar menn áfram til sigurs í toppbaráttunni.
Miðasala á leikinn gegn FH er á Stubb
Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Fótboltaveisla framundan - þrír leikir á 7 dögum. Blikar mæta í Krikanum á sunnudag kl.19:15! Skagamenn koma í heimsókn á Kópavogsvöll á fimmtudag kl.16:15 og sprækir Reykjavíkur Víkingar mæta á Kópavogsvöll sunnudaginn 1. júní kl.19:15!
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Mörkin og atvik úr síðustu heimsókn okkar manna í Kaplakrika 29. september 2024: