BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deldin 2024: Breiðablik - KR

20.07.2024 image

Það er þétt leikjaprógramið hjá meistaraflokki karla á Kópavogsvelli þessa dagana. Flottur 3:1 sigur á Tikvesh frá N-Makedóníu Sambandsdeildinni í gærkvöld (fimmtudagskvöld) - næsti leikur okkar manna í Sambandsdeildinni er svo gegn FC Drita frá Kósovó fimmtudagskvöldið 25. júlí hér á Kópavogsvelli.

Breiðablik - KR

En um helgina, nánar til tekið á sunnudagskvöld, fáum við KR-inga í heimsókn í 15. umferð Bestu deildar karla. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld kl.19:15! 

Miðasala er á Stubbur  

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Stigataflan í Bestu karla eftir 14 umferðir:

Sagan & Tölfræði

Allir innbyrðis mótsleikir KR og Breiðabliks frá upphafi eru 103 leikir. KR leiðir með 50 sigra gegn 25 - jafnteflin eru 28. Fyrsti keppnisleikur liðanna var heimaleikur Blika í Bikarkeppni KSÍ 8.september 1964. Leikið var á gamla Vallargerðisvellinum í Kópavogi. 

Efsta deild

Í 78 leikjum liðanna í A-deild, fyrst 1971, hafa KR-ingar sigrað 36 viðureignir gegn 19 sigrum okkar manna - jafnteflin eru 23. 

Frá endurkomu Breiðabliks upp í efstu deild árið 2006 hefur KR liðið mætt 20 sinnum á Kópavogsvöll og unnið helming leikjanna gegn sex Blikasigrum - jafnteflin eru fjögur. 

Síðustu 5 heimaleikir okkar gegn KR:

Leikmannahópurinn

Nokkrir uppaldir Blikar eru leikmenn KR. Aron Þórður Albertsson, Benoný Breki Andrésson og Lúkas Magni Magnason eru uppaldir hjá Breiðabliki. Aðrir leikmenn hjá KR sem hafa spilað í grænu treyjunni eru þeir Atli Sigurjónsson og Eyþór Aron Wöhler sem gerði 3 ára samning við KR um miðjan apríl. 

Í Breiðablikshópnum eru það þeir Kristinn Jónsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson sem hafa spilað með Vesturbæjarliðinu. 

Og þjálfarinn Halldór Árnason er með tengingu við KR sem leikmaður og þjálfari.

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR) - Jason Daði Svanþórsson (Grimsby FC)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er fæddur á fæðingarheimilinu í Reykjavík á lengsta degi ársins 1952, en ólst upp á Kópaskeri fram yfir tvítugt þegar hann fluttist í Kópavog í nýlega íbúð við Efstahjalla og er nú í þriðju íbúðinni í götunni.

Fyrstu kynni hans af Blikum voru á Landsmóti UMFÍ á Eiðum árið 1968  þar sem þekktir Blikar urðu stigahæstir í frjálsum íþróttum, þau Kristín Jónsdóttir og Þórður Guðmundsson. Blikinn man eftir því að hafa leikið með liði Menntaskólans að Laugarvatni í skólamóti á Vallargerðisvelli  1970-71. Enn jukust tengslin við Breiðablik þegar spáblikinn þjálfaði gott kvennalið félagsins í blaki 1979-1980. Hann lék líka nokkra leiki með meistaraflokki Breiðabliks í körfuknattleik á næstu árum og m.a. undir merkjum UMSK á Landsmóti UMFÍ á Akureyri 1981. Á næstu árum tók hann á móti Blikum og öðrum áhugasömum í Siglingaklúbbnum Kópanesi.

Þegar eldri synirnir uxu úr grasi var farið á Tommamótið/Shellmótið í Vestmannaeyjum og Essomótið á Akureyri með tilheyrandi fjáöflunum og skólastofugistingu. Þegar þeir voru komnir í 3. flokk og 2. flokk tók við umsjónarmennska með setu í unglinganefnd á árunum 1997-1999. Næsta áratuginn var farið á marga leiki meistaraflokks og toppnum náð með Íslandsmeistaratitlinum 2010. Um það leiti hafði golfið tekið við af blakinu sem aðal keppnisgreinin og tveir sigrar á golfmóti Breiðabliks á Flúðum voru í höfn. Undanfarin 15 ár hefur SpáBlikinn tekið þátt í Öldungamótaröðinni í golfi og unnið sér sæti í landsliðum LEK 55 ára og eldri og núna 3 ár í röð í landsliði 65 ára og eldri. Þessu hafa fylgt keppnisferðir til margra landa, nú síðast til Póllands í byrjun júlí. Þátttaka í Meistaramóti GKG hefur líka verið fastur liður frá árinu 2000 og þar hafa nokkrir titlar unnist nú síðast í flokki 65+ þann 9. júlí 2024. 

 

Hin síðari ár hefur Blikinn meira fylgst með Breiðabliki úr fjarlægð, þó farið á nokkra leiki og mót hjá sonarsonunum í knattspyrnu, körfu og frjálsum.

Birkir Ísak, leikur í 3. flokki Breiðabliks, Róbert Elí lék í vetur með 12. flokki Breiðabliks í körfubolta og Gunnar Bergvin er fjölhæfur frjálsíþróttamaður. Mynd tekin 2016. 

 

Gunnar Árnason - Hvernig fer leikurinn?

KR á sér langa sögu í íslenskri knattspyrnu en gengi félagisins hefur verið upp og niður síðasta áratuginn. Á þessu ári urðu þjálfaraskipti þegar nokkuð var liðið á tímabilið og þá tók við úrvals drengurinn Pálmi Pálmason sem uppalinn er á Húsavík. Hann á langan og farsælan feril að baki sem leikmaður, bæði hér á landi og erlendis. Nú reynir svo sannarlega á leiðtogahæfileikana við að ná fleiri stigum. Eins og staðan er þá hafa KR-ingar rétt um helming stiga sem Breiðablik hefur og ég hef ekki trú á að þeir sæki mörg í Kópavoginn í þetta sinn. Blikar eru í harðri toppbaráttu og verða að ná stigum í hverjum leik til að halda sér þar. Leikjaálagið er reyndar nokkuð mikið og því nauðsynlegt að dreifa álaginu á hópinn. Niðurstaðan er sigur Breiðabliks 1-0 eftir aukaspyrnu fyrirliðans Höskuldar Gunnlaugssonar.

Áfram Breiðablik!

SpáBliki leiksins, Gunnar Árnason, ánægður með holu í höggi á 2. braut á Grafarholtsvelli

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld kl.19:15! Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik. Píluspjöld í boði. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasalan er á Stubbur. 

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimagengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Mörkin fimm og atvik úr fyrri leik liðanna í Frostaskjólinu 28. apríl í vor:

Til baka